Hoppa yfir valmynd
29. nóvember 2000 Heilbrigðisráðuneytið

25. nóvember - 1. desember


Fréttapistill vikunnar
25. nóvember - 1. desember

37 öryggisíbúðir í Eirarhúsum - nýjung í þjónustu við sjúka og aldraða

Vígsluhátíð vegna s.k. öryggisíbúða við hjúkrunarheimilið Eir var haldin í dag, 1. desember. Á vegum Eirar hafa verið byggðar 37 íbúðir ætlaðar sjúkum og öldruðum sem vilja búa heima, þótt heilsufar sé orðið bágborið og þeir hafi þörf fyrir mikla heilbrigðis- og/eða félagsþjónustu. Fyrirkomulagið byggist á samkomulagi sem gert hefur verið milli Eirar, Heilsugæslunnar í Reykjavík og Félagsþjónustunnar í Reykjavík sem felur í sér að þjónusta þessara aðila er samþætt. Samkvæmt samkomulaginu annast Eir alla þjónustu á þeirra vegum og jafnframt geta íbúarnir haft samband við vakthafandi hjúkrunarfræðing hjá Eir allan sólarhringinn. Um er að ræða eignaríbúðir en þeim fylgir þinglýst kvöð um að endursala þeirra sé í höndum Eirar. Af 37 íbúðum eru aðeins 5 íbúðir óseldar. Í ræðu sem Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra flutti á vígsluhátíðinni sagðist hún binda miklar vonir við samkomulagið um rekstur öryggisíbúðanna og þá tilraun sem þar væri gerð til að mæta á nýjan hátt þörfum aldraðra og sjúkra.

Nýtt sambýli, sérhannað fyrir þarfir minnissjúkra
Nýtt sambýli fyrir minnissjúka á vegum hjúkrunarheimilisins Eirar var vígt í dag, 1. desember. Þetta er fyrsta sambýlið hér á landi sem er hannað sérstaklega fyrir þarfir þessa hóps. Níu íbúar verða á sambýlinu. Hver þeirra hefur sérherbergi en þeir nýta sameiginlega borðstofu, setustofu og útigarð. Allir sem koma til með að búa á sambýlinu þurfa að hafa gengist undir mat á vistunarþörf og verið taldir í mjög brýnni þörf fyrir úrlausn.

Tillögur nefndar um viðbrögð við vaxandi þörf fyrir fólk til starfa í öldrunarþjónustu
Nefnd, skipuð af Ingibjörgu Pálmadóttur heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, sem falið var að skoða hvernig bregðast megi við vaxandi þörf fyrir fólk til starfa í öldrunarþjónustu hefur skilað ráðherra áfangaskýrslu með tillögum sínum í þessu skyni. Tillögur nefndarinnar eru margþættar og fjalla bæði um aðgerðir sem gripið verði til nú þegar og langtímaaðgerðir. Nefndin leggur meðal annars til að átak verði gert í menntunarmálum umönnunarstétta. Lagt er til að námsplássum í hjúkrunarfræði verði fjölgað og að starfsfólki í umönnunarstörfum gefist kostur á að fá metna reynslu sína og símenntunarnámskeið til tekna í félagsliðanámi og sjúkraliðanámi. Þá skuli stuðlað að því að menntun sjúkraliða nýtist betur í umönnun aldraðra og að framhaldsnám þeirra verði miðað að þeirri grein heilbrigðisþjónustunnar. Áfangaskýrslan og upplýsingar um störf nefndarinnar er að finna á heimasíðu ráðuneytisins.
Sjá nánar >

Sjúkrahótelið við Rauðarárstíg verður stækkað og þjónustan aukin
Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra og fulltrúar Landspítala - háskólasjúkrahúss og Rauða kross Íslands hafa skrifað undir samning um stækkun og aukna þjónustu á sjúkrahóteli Rauða krossins að Rauðarárstíg 18. Nú er húsrúm fyrir 32 gesti á hótelinu en með samkomulaginu verður bætt við 22 herbergjum. Þá verður í fyrsta sinn veitt þar hjúkrunarþjónusta. Rauði kross Íslands hefur frá árinu 1974 rekið sjúkrahótel, einkum fyrir landsbyggðafólk sem sækir sjúkraþjónustu í Reykjavík og þarf ekki að dvelja á sjúkrahúsi. Stækkun hótelsins er langþráður áfangi, en kannanir hafa sýnt að margir þeirra sem hingað til hafa dvalið á sjúkrahúsi hefðu getað gist á sjúkrahóteli með hjúkrunarþjónustu, sem er mun ódýrara og því þjóðhagslega hagstæðara. Bergdís Kristjánsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri hefur verið ráðin til að veita starfseminni forstöðu.

Starfsnámskeið fyrir erlent starfsfólk í öldrunarþjónustu - brautskráning
Félagsmálaráðherra brautskráði í dag (1. des.) hóp erlendra starfsmanna á Landspítala Landakoti sem hefur lokið starfsnámskeiði fyrir erlent starfsfólk í öldrunarþjónustu. Þátttakendur í námskeiðinu voru 27 frá 18 þjóðlöndum. Kennt var þrjá daga í viku, þrjár klukkustundir í senn, samtals 60 stundir. Námskeiðið skiptist í þrennt, íslenskukennslu tengda störfum og verklagi, hugmyndafræði vinnustaðarins og réttindi og skyldur á vinnumarkaði. Starfsmenntaráð félagsmálaráðuneytisins og menntamálaráðuneytið styrktu Námsflokka Reykjavíkur til þessa verkefnis sem einnig var unnið í samstarfi við öldrunarstofnanir, Landspítala - háskólasjúkrahúss og heilbrigðisráðuneytisið. Nánari upplýsingar er að finna um verkefnið á heimasíðu Landspítala - háskólasjúkrahúss.

1. desember - alþjóðlegur alnæmisdagur
Rúmlega 36 miljónir fullorðinna eru smitaðir af HIV-veirunni sem veldur alnæmi og nærri ein og hálf miljón barna. Kofi Annan, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir alnæmi mesta vandamál samtímans. Í dag, 1. desember, er alþjóðlegi alnæmisdagurinn og um allan heim er vakin athygli á alvöru málsins. Þrátt fyrir tveggja áratuga rannsóknir hefur enn ekki fundist lækning á sjúkdómnum sem sumstaðar breiðist mun hraðar út en búist var við. Sjá umfjöllun á heimasíðu WHO >


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
1. desember 2000

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum