Hoppa yfir valmynd
14. desember 2000 Heilbrigðisráðuneytið

9. - 15. desember


Fréttapistill vikunnar
9. - 15. desember


Innkaupavefur heilbrigðisstofnana - öll innkaup á Netið

Allar heilbrigðisstofnanir munu á næstunni eiga þess kost að kaupa hjúkrunar- og lækningavörur sínar á sérstökum innkaupavef á Netinu. Innkaupavefurinn var fyrst tekinn í notkun í tilraunaskyni hjá nokkrum heilbrigðisstofnunum í maí s.l. Um síðustu mánaðamót var hann opnaður öllum heilbrigðisstofnunum sem vilja tengjast honum. Gert er ráð fyrir að um áramót verði búið að tengja 25 stofnanir við vefinn. Stefnt er að því að í framtíðinni muni 80 - 90 heilbrigðisstofnanir kaupa rekstrarvörur sínar á Netinu. Á innkaupavefinn er safnað upplýsingum um allar vörur allra útboða á einn stað og eiga stofnanir að geta treyst því að hagkvæmustu kaup á hjúkrunar- og lækningavörum sé alltaf að finna á vefnum. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið stofnaði innkaupavefinn í því augnamiði að hagræða í innkaupum heilbrigðisstofnana. Þegar er ljóst að það markmið hefur náðst og að strax á næsta ári nemi sparnaður af þessu fyrirkomulagi um 50 milljónum króna.
Sjá nánar >

Biðlistar á sjúkradeildum lengjast en biðtími styttist
Nokkur fjölgun varð á biðlistum sjúkrastofnana á tímabilinu maí til október s.l., samkvæmt nýjum upplýsingum sem landlæknir hefur tekið saman fyrir heilbrigðisráðherra. Þar kemur fram að umfang þjónustu vex jafnan á haustmánuðum sem skýrir að biðlistar lengjast á þessum árstíma. Upplýsingar um biðtíma eru ítarlegri en oft áður, en þær upplýsingar eru í reynd mikilvægari en fjöldi einstaklinga á biðlista, eins og fram kemur í samantekt landlæknis. Upplýsingarnar eru m.a. greindar eftir einstökum deildum. Kemur þar t.d. fram að á biðlistum æðaskurðdeildar Landspítalans hefur sjúklingum fjölgað um 60%. Þótt biðlistarnir hafi lengst hefur meðalbiðtíminn hins vegar styst um 30 vikur.
Sjá greinargerð landlæknis >

Skipulagsbreytingar á skurðlækningasviði Landspítalans
Framkvæmdastjórn Landspítala - háskólasjúkrahúss hefur staðfest tillögur sviðsstjóra skurðlækningasviðs um verulegar skipulagsbreytingar. Breytingarnar eru liður í endurskipulagningu vegna sameiningar sjúkrahúsanna í Reykjavík. Tilgangurinn er fyrst og fremst að sameina sérgreinar á spítalanum á einum stað, bæta þjónustu við sjúklinga og gera skipulag hagkvæmara og skilvirkara. Ákveðið hefur verið að þvagfæradeildir skurðlæknasviðs verði sameinaðar í húsnæði sjúkrahússins við Hringbraut, bráðatilvikum í bæklunarskurðlækningum verði sinnt á Landspítala í Fossvogi en valaðgerðum við Hringbraut. Á legudeildum skurðlækningasviðs eru núna í notkun 183 rúm, að meðtöldum 22 rúmum á deild 13G á Hringbraut sem heyrði undir skurðlækningasvið. Eftir breytinguna verða rúmin 189, sem skýrist af nýrri þjónustu 5 daga deilda. Í breyttu skipulagi verða 15-20% rúma með því fyrirkomulagi sem er nýjung.
Sjá nánar >

Ný nefnd um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga vegna nýrra lyfja
Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað nefnd um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í greiðslu á nýjum lyfjum, þ.e. lyfjum sem fengið hafa markaðsleyfi og innihalda virk efni sem ekki eru á markaði hér á landi. Jafnframt skal nefndin ákveða greiðsluþátttöku í lyfjum sem veitt hefur verið undanþága skv. 7. mgr. 7. gr. lyfjalaga. Nefndin er skipuð í samræmi við breytingar sem gerðar voru á lyfjalögum á síðasta ári, sbr. 41. gr. lyfjalaga. Ákvarðanir nefndarinnar skulu byggðar á mati á annars vegar gagnsemi lyfs og hins vegar kostnaði við greiðsluþátttöku. Formaður nefndarinnar er Guðmundur H. Pétursson, lögfræðingur.
Nefndarskipan >


Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
15. desember













Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum