Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

16. - 22. desember

Fréttapistill vikunnar
16. - 22. desember


Fræðimönnum falið að undirbúa lagabreytingar vegna dóms hæstaréttar um örorkubætur
Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun tillögu Ingibjargar Pálmadóttur, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, um að fela hópi fræðimanna að fara yfir nýfallinn dóm Hæstaréttar um örorkubætur og undirbúa lagabreytingar í samræmi við niðurstöður hans. Dómur hæstaréttar var kveðinn upp 19. desember sl. Samkvæmt honum er viðurkennt að óheimilt hafi verið frá 1. janúar 1994 ,,...að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap með því að telja helming samanlagðra tekna beggja hjóna til tekna lífeyrisþegans í því tilviki, er maki hans er ekki lífeyrisþegi. Einnig er viðurkennt, að óheimilt hafi verið að skerða tekjutryggingu örorkulífeyrisþega í hjúskap frá 1. janúar 1999 samkvæmt 5. mgr. 17. gr. laga nr. 117/1993...". Starfsfólk Tryggingastofnunar ríkisins vinnur nú að útreikningi bóta samkvæmt dómi Hæstaréttar. Ljóst er að ekki tekst að greiða bætur samkvæmt dóminum þann 1. janúar 2001, en kapp verður lagt á að leiðréttingar í samræmi við niðurstöðu Hæstaréttar komi til greiðslu sem allra fyrst.

Níu heilbrigðisstofnanir semja við Íslenska erfðagreiningu
Undirritaðir hafa verið samningar níu heilbrigðisstofnana við Íslenska erfðagreiningu um vinnslu á heilsufarsupplýsingum til flutnings í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Stofnanirnar eru: FSA, St. Jósefsspítali í Hafnarfirði og heilbrigðisstofnanirnar í Vestmannaeyjum, Hólmavík, Siglufirði, Hvammstanga, Húsavík, Keflavík og Akranesi. Samningarnir voru undirritaðir á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Við sama tækifæri var undirritaður samningur Íslenskrar erfðagreiningar og Háskólans á Akureyri um samstarf við stofnun upplýsingadeildar við skólann. Þá hefur Íslensk erfðagreining ákveðið að setja á laggirnar hugbúnaðardeild á Akureyri þar sem fengist verður við að þróa lausnir á sviði upplýsingatækni fyrir heilbrigðisþjónustu.


---------------------

Gleðileg jól

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
22. desember 2000
Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira