Hoppa yfir valmynd
16. febrúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Formlegar viðræður ríkis og sveitarfélaga um verkefnaflutning

Árlegur samráðsfundur ríkis og sveitarfélaga var haldinn í dag í húsnæði Sambands íslenskra sveitarfélaga að Borgartúni 30 í Reykjavík.

Á fundinum var ákveðið að Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra, Árni M. Mathiesen fjármálaráðherra og Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, færu sérstaklega yfir efnahagsmál og fjármálaleg samskipti ríkis og sveitarfélaga ásamt kjaramálum fyrir landsþing sambandsins hinn 23. mars næstkomandi.

Jafnframt var ákveðið að hefja formlegar viðræður um að sveitarfélög taki við verkefnum sem ríkið hefur á sinni könnu og var í því sambandi rætt um málefni fatlaðra og aldraðra. Enn fremur þótti ástæða til að fara yfir óljós skil verkefna ríkis og sveitarfélaga á fleiri sviðum.

„Samkvæmt viðhorfskönnun sem félagsmálaráðuneytið lét gera á síðastliðnu ári meðal stjórnmálamanna telja þrír af hverjum fjórum æskilegt að sveitarfélögin taki við fleiri verkefnum frá ríkinu,“ segir Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra. Hann bendir á að gert sé ráð fyrir því í drögum að stefnu félagsmálaráðuneytisins í málefnum fatlaðra barna og fullorðinna að sveitarfélög taki við meginhluta þjónustunnar við þann hóp.

Samráðsfundurinn var haldinn í samræmi við ákvæði samstarfssáttmála frá febrúar 2006 um að efla formlegt samstarf ríkis og sveitarfélaga.

Fundinn sátu af hálfu ríkisins félagsmálaráðherra og fjármálaráðherra ásamt embættismönnum. Af hálfu Sambands íslenskra sveitarfélaga sátu fundinn formaður sambandsins, fulltrúar úr stjórn þess, framkvæmdastjóri og starfsmenn.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum