Hoppa yfir valmynd
23. júní 2014 Utanríkisráðuneytið

EFTA ráðherrar ræða fríverslunarmál í Vestmannaeyjum

EFTA ráðherrar ræða fríverslunarmál í Vestmannaeyjum

Ráðherrafundur EFTA-ríkjanna var haldinn í Vestmannaeyjum í dag og stýrði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra fundinum. Meginviðfangsefni fundarins var staða fríverslunarviðræðna EFTA-ríkjanna. Samhljómur var meðal ráðherranna að stefna að því að ljúka samningaviðræðum við Indland eins skjótt og mögulegt væri. Viðræðum EFTA við tollabandalag Rússlands, Hvíta-Rússlands og Kasakstan var frestað ótímabundið fyrr á árinu og voru ráðherrarnir samhuga um að þráðurinn yrði ekki tekinn upp aftur í viðræðunum fyrr en friðvænlegar horfir í Úkraínu.„Fyrir EFTA-ríkin eru miklir hagsmunir í húfi þegar kemur að fríverslun við Rússland, en að sama skapi ríkir eining meðal EFTA-ríkjanna um að brýnt sé að sýna samhug í verki hvað framferði Rússlandsstjórnar í Úkraínu áhrærir“, sagði Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra af þessu tilefni.

Eitt megin viðfangsefna fundarins voru umræður um fríverslunarviðræður ESB og Bandaríkjanna (TTIP). Áréttuðu ráðherrarnir mikilvægi þessarra viðræðna fyrir alþjóðlega fríverslun og undirstrikuðu hve brýnt það væri að EFTA-ríkin héldu áfram að fylgjast náið með viðræðunum. Þá ræddu ráðherrarnir enn fremur gang viðræðnanna við Víetnam, Malasíu og Indónesíu.

Ráðherrarnir ítrekuðu vilja sinn til að endurskoða gildandi fríverslunarsamninga EFTA-ríkjanna við Kanada, Tyrkland og Mexíkó. Þá ræddu ráðherrarnir jafnframt leiðir til að styrkja tengsl EFTA við MERCOSUR-ríkin (Brasilíu, Argentínu, Paragvæ og Úrugvæ). Í tengslum við ráðherrafund EFTA í Vestmannaeyjum undirrituðu ráðherrar EFTA-ríkjanna samstarfsyfirlýsingu við Filippseyjar en slík yfirlýsing er oft undanfari fríverslunarviðræðna.

Ráðherrar EES-EFTA ríkjanna þriggja, Íslands, Noregs og Liechtenstein ræddu þróun mála á vettvangi EES þ.á m. samningaviðræður um framlög EES-EFTA ríkjanna í Uppbyggingarsjóð EES frá og með næsta ári.

Áréttuðu ráðherrarnir að það væri sameiginlegt hagsmunamál Evrópusambandsins (ESB) og EES-EFTA ríkjanna að tryggja virkni EES-samningsins og að afar brýnt væri að finna lausn á því hvernig staðið verði að þátttöku EES-EFTA ríkjanna í fjölda sérstofnana ESB, sérstaklega á sviði fjármálaeftirlits.

Þá funduðu ráðherrarnir einnig með þingmanna- og ráðgjafanefndum EFTA um fríverslunarviðræður EFTA-ríkjanna og þróun EES-samningsins.

Auk Gunnars Braga sóttu fundinn þau Johann Schneider-Ammann, efnahagsmálaráðherra Sviss, Monika Mæland, viðskipta- og iðnaðarráðherra Noregs, og Norbert Frick, sendiherra Liechtenstein gagnvart EFTA, í forföllum Aureliu Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein.

Myndir frá fundinum má nálgast á flickr síðu utanríkisráðuneytisins https://www.flickr.com/photos/utanrikisraduneyti/

Hjálagt fylgir sameiginleg yfirlýsing fundarins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum