Hoppa yfir valmynd
1. mars 2022 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 23/2022 Endurupptaka Úrskurður 1. mars 2022

Endurupptaka

Mál nr. 23/2022                           Eiginnafn:       Ýda (kvk.)

 

Hinn 1. mars 2022 tekur mannanafnanefnd fyrir beiðni, dags. 3. febrúar 2022, þar sem óskað er eftir endurupptöku máls nr. 15/2022.

Með úrskurði mannanafnanefndar frá 26. janúar 2022 í máli nr. 15/2022 var umsókn um eiginnafnið Ýda hafnað. Niðurstaða nefndarinnar var að nafnið uppfyllti ekki skilyrði 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn, nr. 45/1996, sem kveður á um að ritháttur nýs eiginnafns skuli vera í samræmi við almennar ritreglur íslensks ritmáls eða hafa unnið sé hefði í íslensku máli, þar sem rittáknið ý sé ekki ritað í íslenskum orðum nema það styðjist við uppruna.

Ekki var sérstaklega til umfjöllunar hvort eiginnafnið Ýda gæti talist tökunafn og hefðað á þeim grunni. Í endurupptökubeiðni er aftur á móti bent á að nafnið Yda sé þekkt í fornháþýsku sem önnur ritmynd eiginnafnsins Ida. Þá megi finna nafnið Yda víða, m.a. í Perú, Afganistan, Argentínu, Hollandi og Suður Afríku. Þá sé óskað eftir að nafnið sé samþykkt með broddi þar sem um tökunafn sé að ræða og notkun brodds feli í sér ákveðna aðlögun að íslenskum ritreglum.

Við túlkun mannanafnanefndar á hefð í 5. og 6. gr. laga um mannanöfn er stuðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 1. júlí 2021 og eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum, eldri vinnulagsreglum, dómaframkvæmd og sjónarmiðum sem fjallað er um í fundargerð:

 

  1. Nafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

    Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

    Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

    Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

    Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr);

    Það er nú ekki borið af neinum Íslendingi en kemur þegar fyrir í manntalinu 1920 (eða fyrr) og hefð þess hefur ekki rofnað. Hefð nafns telst rofin ef það hefur ekki verið borið af Íslendingi undanfarin 70 ár.

     

  2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

     

  3. Nafn getur verið hefðað, þó að það komi ekki fyrir í manntölum, ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum og þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

     

  4. Ritun tökunafns með þeim hætti sem gjaldgengur er í veitimálinu telst hefðbundinn. Frávik eru heimil ef um er að ræða aðlögun að almennum íslenskum ritreglum. Þó er áskilið að nöfn skulu rituð með bókstöfum íslenska nútímastafrófsins eða bókstöfunum c, q, w og z.

 

Þar sem umsækjandi hefur fært fyrir því rök að eiginnafnið Yda sé tökunafn og sá ritháttur nafnsins tíðkist í mörgum löndum telur mannanafnanefnd að samþykkja beri eiginnafnið Ýda sem ritháttarafbrigði nafnsins Ída.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Ýda (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá sem ritmynd nafnsins Ída (kvk.).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum