Hoppa yfir valmynd
4. júní 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aðgerðir fyrir börn í forgang – stefna um Barnvænt Ísland í samráðsgátt stjórnvalda

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, hefur sett drög að stefnu um Barnvænt Ísland, markvissa innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna, í samráðsgátt stjórnvalda þar sem almenningur getur komið á framfæri ábendingum og tillögum. Ráðherra hefur sett málefni barna í forgang í embætti sínu og er stefnan hluti af þeirri vinnu sem hefur farið fram í félagsmálaráðuneytinu undanfarin ár við að endurskoða og efla þjónustu og stuðning við börn og fjölskyldur.

Stefnan var unnin í samstarfi við stýrihóp stjórnarráðsins um málefni barna og að henni hafa einnig komið opinberir aðilar og félagasamtök. Við mótun stefnunnar var áhersla lögð á að hagsmunir barna verði ávallt hafðir í fyrirrúmi og að við stefnumótun í málaflokknum sé mótuð heildarsýn, sem tæki mið af sjónarhorni allra aðila sem koma að málefnum barna og fjölskyldna, ekki síst barnanna sjálfra.

Markmið stefnunnar er að innleiða verklag og ferla sem tryggja jafnræði og markvissa þátttöku barna og ungmenna innan stjórnsýslunnar, aukið samstarf milli opinberra aðila með velferð barna að leiðarljósi, tryggja markvisst verklag við hagsmunamat út frá réttindum og velferð barna, auk heilstæðrar framkvæmdar réttinda barna. Smíðuð verður aðgerðaáætlun þar sem tillögurnar verða útfærðar nánar, skýr rammi settur utan um framkvæmd aðgerða, með tímasettum, kostnaðarmetnum og afmörkuðum markmiðum. Stefnt er að birtingu aðgerðaáætlunarinnar undir árslok 2020.

Tillögurnar sem kynntar eru í stefnunni varða alla aðila er fara með stefnumótun, framkvæmdaaðila þjónustu og aðra aðila sem taka ákvarðanir er varða börn, hvort sem er innan ráðuneyta, stofnana eða sveitarfélaga. 

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra: „Það er mikið fagnaðarefni að stefnan um Barnvænt Ísland sé nú komin í samráðsgáttina og ég hvet almenning til að koma á framfæri ábendingum og tillögum. Stefnan er mikilvægur áfangi í þeirri góðu vinnu sem nú er unnin í málefnum barna en við erum að gera miklar breytingar í málefnum barna og fjölskyldna, þar sem markmiðið er að gera Ísland að enn betri stað fyrir börn.“

Stefnan verður í samráðsgátt stjórnvalda til og með 26. júní nk.

Drög að stefnu um Barnvænt Ísland.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum