Hoppa yfir valmynd
30. júní 2017 Forsætisráðuneytið

Mál nr. 4/2017

Mál nr. 4/2017

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Borgarbókasafni – menningarhúsi Spönginni

 

Ráðning í starf. Hæfnismat.

Borgarbókasafnið – menningarhús Spönginni auglýsti í desember 2016 laust starf deildarbókavarðar. Kærandi, sem er karl, taldi að brotið hefði verið gegn jafnréttislögum með því að ráða konu í starfið en hann taldi sig vera hæfari en konuna sem ráðin var. Kærði taldi að kærandi hefði ekki uppfyllt þá hæfniskröfu sem var gefið mesta vægið eftir matskvarða að hafa reynslu af starfi með ungmennum. Kærunefndin taldi það mat kærða byggt á málefnalegum grunni og að því hefði ekki verið um að ræða brot á lögum nr. 10/2008.

 1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 30. júní 2017 er tekið fyrir mál nr. 4/2017 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

 2. Með kæru, dagsettri 28. mars 2017, kærði A ákvörðun Borgarbókasafns – menningarhúss Spönginni um að ráða konu í starf deildarbókavarðar. Kærandi telur að með ráðningunni hafi kærði brotið gegn lögum nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

 3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 29. mars 2017. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 11. apríl 2017, mótteknu 19. apríl 2017, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 25. apríl 2017.

 4. Kærandi fékk viðbótarfrest til að koma á framfæri athugasemdum sínum en þær bárust kærunefndinni með tölvupósti 21. maí 2017 og voru kynntar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 22. maí 2017.

 5. Athugasemdir kærða sem bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 30. maí 2017, voru kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 7. júní 2017.

 6. Með bréfi kærunefndar jafnréttismála, dagsettu 9. júní 2017, var óskað eftir frekari gögnum og skýringum af hálfu kærða og bárust þau með bréfi, dagsettu 15. júní 2017. Kæranda voru kynntar skýringar kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 19. júní 2017.

 7. Sjónarmið málsaðila þykja hafa komið nægilega fram í athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar jafnréttismála. Var því ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

  MÁLAVEXTIR

 8. Kærði auglýsti 75% starf deildarbókavarðar þann 16. desember 2016. Í auglýsingu kom fram að kærði sé almenningsbókasafn Reykvíkinga og starfi eftir lögum um bókasöfn frá árinu 2012. Helstu verkefni og ábyrgð voru sögð starf með unglingum og börnum, afgreiðsla, upplýsingaþjónusta, umsýsla safnkosts, verkefni tengd viðburðum, fjölmenningu og fleira. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar eftirtaldar hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; reynsla af starfi með ungmennum; góð íslenskukunnátta og geta til að lesa og tala annað tungumál; færni í mannlegum samskiptum, sveigjanleiki og þjónustulund; frumkvæði, metnaður og færni til að vinna í hópi; gott vald á upplýsingatækni og nýmiðlun og áhugi á að tileinka sér nýjungar á því sviði. Frestur til að sækja um starf var til og með 4. janúar 2017.

 9. Alls bárust 31 umsókn, 23 frá konum og átta frá körlum, og var ákveðið að kalla fimm umsækjendur í starfsviðtöl, fjórar konur og einn karl. Kærandi var ekki þar á meðal. Að því loknu var umsagna aflað hjá meðmælendum þeirra sem boðið hafði verið í viðtal og var þá í kjölfarið ákveðið að boða tvo umsækjendur í annað viðtal. Í framhaldi af því var öðrum þeirra, konu, boðið starfið sem hún þáði.

  SJÓNARMIÐ KÆRANDA

 10. Í kæru kemur fram að kærandi telji að lög nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hafi verið brotin við ráðningu í starf deildarbókavarðar hjá kærða. Þegar ráðning hafi farið fram hafi aðeins einn karlmaður starfað hjá kærða á viðkomandi bókasafni ásamt fjölda kvenna. Litið hafi verið fram hjá kæranda við ráðninguna þrátt fyrir að vera jafn hæfur og konan sem ráðin var. Kærandi telur halla á karlmenn við þessa ráðningu, en jafnrétti eigi að gilda í báðar áttir.

 11. Kærandi bendir á að hann sé afburðahæfur í íslensku og ensku. Hann sé með MA-próf í íslenskum bókmenntum og hafi sótt ráðstefnur erlendis en til þess þurfi góða tungumálakunnáttu. Kærandi sé með alls fjórar háskólagráður, þar með talin kennsluréttindi sem komi sér vel í þessu starfi. Hann sé bókmenntafræðingur og með yfirgripsmikla þekkingu á bókmenntum, meðal annars fyrir börn, sem hljóti að skipta miklu máli. Kærandi sé með fyrsta flokks meðmæli og afburðafær í mannlegum samskiptum enda starfi hann sem sölumaður. Kærandi telji það ókurteisi að hafa ekki boðað hann í starfsviðtal. Hann stjórni Facebook-síðunni X þar sem hann hafi kynnt viðburði og flutt fréttir af málum sem tengjast X. Slíkt komi sér afskaplega vel í starfi deildarbókavarðar. Kærandi hafi einnig unnið við upplýsingatækni þegar hann hafi verið í upplýsinga- og vefdeild í Z árin 2011–2015. Kærandi hafi farið utan með deildinni og meðal annars kynnt sér upplýsingatækni erlendis.

  SJÓNARMIÐ KÆRÐA

 12. Í greinargerð kærða kemur fram að í ráðningarferlinu hafi verið farið vandlega yfir allar umsóknir og þær metnar með hliðsjón af þeim hæfniskröfum sem tilgreindar hafi verið í auglýsingunni. Þættirnir hafi verið: Menntun, starf með ungmennum, hæfni í íslensku og öðru tungumáli, upplýsingatækni og áhugi á að tileinka sér nýjungar.

 13. Kærði greinir frá því að áður en úrvinnsla umsókna hófst hafi þáttunum verið gefið vægi. Þar sjáist að reynsla við að starfa með börnum og unglingum hafi vegið þyngst eða 15 stig, menntun hafi fengið vægið 10 stig, tungumálakunnátta 5 stig og loks hafi upplýsingatækni og áhugi á að tileinka sér nýjungar vegið 5 stig.

 14. Þegar matsramminn hafði verið útfylltur hafi fimm einstaklingum verið boðið í viðtal, fjórum konum og einum karli. Í viðtölunum hafi meðal annars verið leitast við að kanna hvort viðkomandi væri sveigjanlegur, þjónustulundaður, hefði reynslu af því að halda utan um stóra eða smáa viðburði, væri góður í mannlegum samskiptum og hver reynsla viðkomandi væri af því að starfa með ungmennum. Að auki hafi umsækjendur verið spurðir spurninga til þess að varpa ljósi á frumkvæði, metnað og sköpunarkraft.

 15. Að þessum viðtölum loknum hafi umsagna verið aflað hjá meðmælendum þeirra sem valdir voru í fyrra viðtal. Að svo búnu hafi verið ákveðið að boða tvo umsækjendur í annað viðtal. Í framhaldi af því hafi konu verið boðið starfið.

 16. Kærði upplýsir að kærandi hafi réttilega bent á að mun fleiri konur en karlar starfi hjá kærða. Þess beri að geta að við ráðningar hjá kærða sé ávallt haft í huga að æskilegt sé að fjölga körlum í starfi hjá safninu.

 17. Í kæru sinni hafi kærandi tilgreint nokkra þætti sem hann hafi talið að sýni fram á að hann hafi að minnsta kosti verið jafn hæfur og sá umsækjandi sem ráðinn var. Hann hafi réttilega bent á þá menntun sem hann hafi aflað sér og jafnframt reynslu sína af starfi í upplýsingatæknigeiranum. Fyrir hvoru tveggja hafi hann fengið fullt hús stiga í matsrammanum. Hann hafi jafnframt bent á að hann stjórni Facebook-síðunni X og reynsla hans af þeirri vinnu hafi einnig verið metin inn í matsrammann sem reynsla af skrifum á opinberum vettvangi.

 18. Þann einstaka þátt sem talinn var vega þyngst í mati á umsækjendum hafi kærandi því miður ekki náð að uppfylla. Í auglýsingunni hafi verið óskað eftir umsækjendum sem búi yfir reynslu af starfi með ungmennum. Umsóknargögn kæranda hafi ekki sýnt fram á reynslu af starfi með ungmennum ef frá sé talið hlutverk hans sem nema í æfingakennslu vorið 2010.

 19. Á heildina litið og með hliðsjón af áherslum starfsins hafi aðrir umsækjendur þótt eiga meira tilkall til þess að vera boðaðir í viðtal.

 20. Í þessu tilviki hafi verið nokkuð ljóst frá því að yfirferð umsókna hófst að sú sem ráðin var væri ein þeirra sem væri mjög hæf í starfið enda með góða reynslu að baki við starf á almenningsbókasafni og ekki síst mikla reynslu af starfi með ungmennum á fyrri vinnustöðum. Þess utan hafi hún aflað sér menntunar sem nýtist sérlega vel í starfinu.

 21. Kærði telur að ráðningarferlið hafi verið faglegt og í hvívetna verið farið eftir lögum nr. 10/2008.

  ATHUGASEMDIR KÆRANDA

 22. Í athugasemdum kæranda vísar hann til fyrri rökstuðnings og fellst á að vissulega hafi konan sem ráðin var verið hæf en á sumum sviðum sé kærandi hæfari en hún. Kærandi hafi afburðaíslenskukunnáttu meðan sú er ráðin var hafi góða kunnáttu, kærandi sé einnig prýðilegur í ensku eins og sú sem ráðin var. Þá eigi kærandi auðvelt með að vinna með erfið samskipti þar sem hann hafi verið birtingarmaður/stefnuvottur hjá Y í heil átta ár meðan aðrir hafi varla enst einn dag í því starfi. Kærandi eigi gott með að vinna í hópi sem og sjálfstætt sem sjáist af fyrri störfum. Þetta hefði kærða mátt vera ljóst af ferilskrá kæranda og hefði einnig komið fram ef hann hefði verið boðaður í viðtal. Kærandi hafi einnig unnið með ungmennum í æfingakennslu sinni á fyrri árum og einu sinni hafi kærandi unnið með einhverfum börnum. Kærandi hafi einnig unnið ýmis þjónustustörf eins og sú sem ráðin var og veitt þar afburðaþjónustu.

 23. Kærandi sé mjög hæfur í starfið ef miðað sé við auglýsingu starfsins. Hann bendir á að starfslýsing mannauðsskrifstofu krefjist kunnáttu í stjórnun, það hafi ekki komið fram í auglýsingu sem sé ámælisvert. Kærandi viti ekki hvort þessi starfslýsing sem þar komi fram sé gerð áður en starfið hafi verið auglýst en í öðru ráðningarferli hafi kærandi sjálfur upplifað að mannauðsskrifstofa hafi borið upp starfslýsingu sem hafi verið gerð eftir á. Þar með krefst kærandi sönnunar í þeim efnum. Í raun sé auglýsing starfsins það sem eigi að miða við, þannig sé það alls staðar.

 24. Kærandi telur sig vera jafn hæfan í starfið og sú sem ráðin var. Þar sem halli á karlmenn í þessu starfi og aðeins einn karlmaður hafi verið starfandi hjá kærða þegar ráðið hafi verið í starfið telur kærandi að jafnréttislög hafi verið brotin.

  ATHUGASEMDIR KÆRÐA

 25. Í athugasemdum kærða var greint frá því að starfslýsing deildarbókavarða hjá kærða væri frá árinu 2013 og að dagsetning komi fram á skjalinu. Starfslýsingin hafi verið lögð fram í viðtölum við umsækjendur og vistuð í skjalavistunarkerfi kærða í júlí 2013.

 26. Í viðbótarskýringum kærða kemur fram að starfslýsingin sé sú sama fyrir alla deildarbókaverði hjá kærða. Þeir séu alls um 30 hjá söfnum Borgarbókasafnsins og þar af starfi fimm hjá kærða. Starfslýsingin þurfi að ná yfir öll þau verkefni sem deildarbókaverðirnir hafi með höndum. Misjafnt sé hver verkefni hvers og eins séu hverju sinni og geti einnig breyst án fyrirvara.

 27. Þegar auglýst hafi verið eftir deildarbókaverði fyrir kærða í desember 2016 hafi verið leitað sérstaklega eftir starfsmanni með mikla reynslu af starfi með ungmennum enda hafi safnið lagt áherslu á að sinna þeim hópi gesta vel. Sama starfslýsing hafi legið til grundvallar og hjá öðrum deildarbókavörðum safnsins sem sinna þessum hópi gesta minna. Þess beri þó að geta að allir deildarbókaverðir þjónusta börn og unglinga hjá safninu enda sé ungt fólk stórhluti gesta safnsins.

 28. Verkefni þau sem umræddur deildarbókavörður skyldi hafa með höndum hafi meðal annars verið að taka þátt í að skipuleggja og sjá um viðburði og dagskrá fyrir börn og unglinga, sjá um sögustundir og safnkynningar fyrir börn, sitja í fjölmenningarteymi safnsins auk annarra almennra starfa í safninu. Ávallt sé lögð áhersla á frumkvæði, sveigjanleika og þjónustulund. Í ljósi meginverkefna þessa deildarbókavarðar hafi því verið lögð áhersla á að fá starfsmann með mikla reynslu af starfi með ungmennum.

 29. Loks greinir kærði frá því að ekki liggi fyrir sérstakt skipurit fyrir kærða en fyrir liggi skipurit Borgarbókasafnsins í heild. Deildarstjóri sé yfir hverju menningarhúsi/safni fyrir sig og undir hann heyri allir starfsmenn þess safns.

  NIÐURSTAÐA

 30. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við mat á því hvort ákvæði 26. gr. laganna hafi verið brotin skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga þessara hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.

 31. Starf deildarbókavarðar hjá kærða var auglýst í desember 2016. Í auglýsingu voru settar þessar hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; reynsla af starfi með börnum og ungmennum; góð íslenskukunnátta og geta til að lesa og tala annað tungumál; færni í mannlegum samskiptum, sveigjanleiki og þjónustulund; frumkvæði, metnaður og færni til að vinna í hópi og loks gott vald á upplýsingatækni og nýmiðlun og áhugi til að tileinka sér nýjungar á því sviði. Að sögn kærða var þáttum þessum gefið vægi áður en úrvinnsla umsókna hófst. Við grunnmat voru eftirtaldir þættir taldir til 35 stiga: Reynsla af starfi með börnum og unglingum 15 stig, menntun 10 stig, tungumálakunnátta 5 stig og loks upplýsingatækni og áhugi til að tileinka sér nýjungar 5 stig.

 32. Um starfið sótti 31 einstaklingur, átta karlmenn og 23 konur. Var fimm umsækjendum boðið til viðtals, fjórum konum og einum karli, en kærandi var ekki þar á meðal. Að viðtölum loknum var aflað umsagna hjá meðmælendum þeirra er valdir voru til viðtals og ákveðið að boða tvo umsækjendur til síðara viðtals. Annar þeirra umsækjenda, kona, var ráðin í starfið.

 33. Almennt verður að ætla fyrirtækjum og stofnunum ráðrúm til að ákvarða með málefnalegum hætti þær hæfniskröfur er starfsmenn þurfa að uppfylla. Í því tilfelli sem hér um ræðir gerði kærði grein fyrir þeirri kröfu í auglýsingu að til starfsins væri nauðsynleg reynsla af starfi með ungmennum og ákvað að þessi matsþáttur vægi þyngst í fyrsta mati á umsækjendum. Til grundvallar því lá sú staðreynd að deildarbókavörður skyldi meðal annars taka þátt í að skipuleggja og annast viðburði og dagskrá fyrir börn og unglinga, auk þess að sjá um sögustundir og safnkynningar fyrir börn.

 34. Kærandi hafði lokið MA prófi í íslenskum bókmenntum og viðbótardiplóma í kennslufræði á meistarastigi. Hann tilgreindi ekki reynslu af starfi með ungmennum í umsókn sinni en hefur fyrir nefndinni tilgreint að háskólanám hans hafi meðal annars lotið að barnabókmenntum, hann hafi unnið með ungmennum í æfingakennslu og unnið einhverju sinni með einhverfum börnum. Kærandi hafði á liðnum árum starfað við ýmis störf, svo sem við birtingu stefna hjá Y, við skjalavörslu, símavörslu, skrifstofustörf, sem fulltrúi í síma- og upplýsingaþjónustu, við prófarkalestur, sérfræðingsstörf og sem sölumaður.

 35. Sú sem ráðin var hafði lokið grunnprófi í leikskólafræði og hafði lokið þjálfun sem markþjálfi með sérþekkingu á málefnum einstaklinga með ADHD/ADD. Jafnframt hafði hún lokið meistaraprófi í menntunarfræðum. Hún hafði á árunum 2011–2016 starfað við umsjón barna- og unglingadeildar bókasafnsins R.

 36. Af framangreindu telur kærunefnd ljóst að sú er ráðin var hafði mun meiri reynslu af starfi með ungmennum. Það mat kærða að starfsreynsla hennar félli mun betur að hæfniskröfum er lýst var í auglýsingu, var því byggt á málefnalegum grunni. Hefur því ekki verið leitt líkum að því að um hafi verið að ræða mismunun með tilliti til kynferðis. Sökum þess braut kærði ekki gegn lögum nr. 10/2008 við ráðningu í starf deildarbókavarðar í janúar 2017.

   

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði braut ekki gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf deildarbókavarðar í janúar 2017.

 

Erla S. Árnadóttir

Björn L. Bergsson

Þórey S. Þórðardóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira