Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Úthlutun styrkja til gæðaverkefnaí heilbrigðisþjónustu

Frá afhending gæðastyrkja 2016 - mynd

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra veitti í gær styrki til átta gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustunni. Að þessu sinni var sérstök áhersla lögð á verkefni sem eru til þess fallin að auka samfellu og samhæfingu í meðferð sjúklinga milli heilsugæslu, sérfræðiþjónustu og sjúkrahúsa.

Gæðastyrkir hafa verið veittir árlega frá árinu 2001 en þeir eru fyrst og fremst hugsaðar til að stuðla að umbótastarfi, nýbreytni og auknum gæðum heilbrigðisþjónustunnar og eru þeir ætlaðir sem hvatning og viðurkenning fyrir störf á þessu sviði.

Frestur til að sækja um styrki rann út 12. október sl. og var sótt um styrki vegna fjölbreyttra verkefna.

Úthlutunarnefnd skipuð þremur fulltrúum velferðarráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingarnar til verkefnanna átta sem fengu hvert um sig styrk að upphæð 500 þúsund krónur.

Veittir voru styrkir til verkefnis á vegum Landspítala um áframhaldandi uppbyggingu þverfaglegrar þjónustu við einstaklinga með sykursýki og fótamein á Íslandi, verkefnis á vegum Lyfjastofnunar sem felst í að auka skil á fyrndum lyfjum og auka öryggi á geymslu lyfja á heimilum, innleiðingar á nýju verklagi á heilsugæslustöðvum Heilbrigðisstofnar Vesturlands (HVE), göngudeildum sérfræðilækna og á hjúkrunar- og sjúkrasviði HVE,  bætts verklags og aukinnar samvinnu milli heilsugæslu og sérfræðiþjónustu við umönnun sjúklinga með langvinna nýrnasjúkdóma á Heilbrigðisstofnun Suðurlands, þátttöku í samnorrænni rannsókn á högum einstaklinga með CP og fjölskyldna þeirra s.s. með tilliti til áhrifa á heilsu, lífsgæði og notkunar heilbrigðisþjónustu, verkefnis á vegum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um skynsamlega, trygga og ábyrga notkun sýklalyfja, verkefnis um fjölskyldumiðaða nálgun á barneignatíma til að efla geðheilsu ungra barna á vegum Miðstöðvar foreldra og barna í samstarfi við Heilsugæsluna í Árbæ og innleiðingar fjölskylduhjúkrunar á Sjúkrahúsinu á Akureyri.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum