Hoppa yfir valmynd
4. nóvember 2016 Forsætisráðuneytið

Starfstími aðgerðahóps um launajafnrétti framlengdur

Velferðarráðuneytið - mynd

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að framlengja starfstíma aðgerðahóps stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti til ársloka 2018. Hópurinn kynnti tillögur að framtíðarstefnu í jafnlaunamálum 24. október síðastliðinn. 

Aðgerðahópurinn hefur meðal annars haft umsjón með tilraunaverkefni um innleiðingu jafnlaunastaðals og að tryggja uppsprettu nýrra hugmynda og miðlun nýrrar þekkingar með gerð nýrra rannsókna á sviði jafnlaunamála. Í fyrra kynnti hópurinn niðurstöðu rannsóknaverkefna um kynbundinn launamun og stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Tillögur hópsins um framtíðarstefnu í jafnlaunamálum byggjast annars vegar á þessari nýju þekkingu og hins vegar á tilraunverkefninu um innleiðingu staðalsins.  

Í stefnu hópsins er áhersla lögð á samstilltar aðgerðir stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins til að draga úr kynbundnu náms- og starfsvali, á virka fjölskyldustefnu fyrirtækja og stofnana og að unnið verði að því að brúa bil milli fæðingarorlofs og leikskólavistar barna auk áherslu á reglubundnar rannsóknir á launamun karla og kvenna sem nái til vinnumarkaðarins í heild.  

Eygló segir mikinn feng að því að þeir aðilar sem eiga fulltrúa í aðgerðahópnum skuli hafa náð saman um vandaðar tillögur til að stuðla að jafnrétti kynja á vinnumarkaði. Til að stuðla að framgangi tillagnanna sé mikilvægt að tryggja þeirri vinnu umgjörð og það telji hún best gert með því að fela aðgerðahópnum eftirfylgnina, enda hafi hann unnið afar vel frá því hann var fyrst skipaður í lok ársins 2012. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum