Hoppa yfir valmynd
28. maí 2002 Utanríkisráðuneytið

Heimsókn utanríkisráðherra til Miðausturlanda

Nr. 049

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, heldur á morgun í heimsókn til Ísraels, Palestínu og Jórdaníu í boði þarlendra stjórnvalda, þar sem hann mun meðal annars eiga fundi með Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísrael, Yasser Arafat, forseta Palestínu og Abdullah, konungi Jórdaníu.

Í Ísrael mun utanríkisráðherra eiga fundi með Moshe Katsav, forseta Ísrael, Ariel Sharon, forsætisráðherra og Shimon Peres, utanríkisráðherra. Hann mun einnig heimsækja ísraelska þjóðþingið, Knesset og eiga fund með formanni utanríkismálanefndar þingsins. Auk þess mun Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, heimsækja minningarsafn um fórnarlömb helfararinnar gegn gyðingum og sjúkrahús þar sem fórnarlömb sjálfsmorðsárása í Ísrael á undanförnum mánuðum njóta aðhlynningar.

Utanríkisráðherra mun einnig eiga fundi með sendiherrum Norðurlanda í Tel Aviv og Terje Roed Larsen, sérlegum samningamanni Sameinuðu þjóðanna í málefnum Miðausturlanda.

Hann mun einnig kynna sér starfsemi Hjálparstofnunar kirkjunnar í Ísrael og Palestínu og hitta starfsmenn hennar Svölu Jónsdóttur og Aðalstein Þorvaldsson.

Í Palestínu, nánar tiltekið í Ramallah, mun Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, eiga fundi með Yasser Arafat, forseta Palestínu, og Dr. Nabeel Shaath, ráðherra skipulagsmála og alþjóða samvinnu. Utanríkisráðherra mun einnig heimsækja Al Aqrabanieh skólann í grennd við Nablus, flóttamannabúðir Palestínumanna í borginni Jenín og kynna sér starfsemi Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna, (UNRWA), á Vesturbakkanum.

Í Jórdaníu mun utanríkisráðherra eiga fundi með Abdullah Jórdaníukonungi og Dr. Marwan Al Muasher, utanríkisráðherra.

Heimsókn Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, til Miðausturlanda lýkur 4. júní næstkomandi.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 28. maí 2002


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum