Hoppa yfir valmynd
29. maí 2002 Utanríkisráðuneytið

Fundir utanríkisráðherra í Ísrael

Nr. 051

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu


Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, átti í dag viðræður við Moshe Katsav, forseta Ísrael, Ariel Sharon, forsætisráðherra og Shimon Peres utanríkisráðherra. Utanríkisráðherra ræddi einnig við varaforseta Ísraelska þingsins, Knesset og nokkra meðlimi utanríkis- og varnarmálanefndar þess.

Á viðræðufundunum var skipst á skoðunum um stöðu mála í Ísrael og á sjálfsstjórnarsvæðum Palestínumanna og möguleika þess að friðarumleitanir hefjist að nýju.
Utanríkisráðherra lýsti sérstökum áhyggjum sínum af þeim átökum og því ofbeldi sem beitt hefur verið á Vesturbakkanum og Gaza um leið og hann fordæmdi sjálfsmorðsárásir Palestínumanna í Ísrael.

Ísraelsmenn skýrðu sjónarmið sín í hinum langvinnu átökum sem einkennt hafa stjórmálaþróunina um áratugaskeið í löndunum fyrir botni Miðjarðarhafsins, einkum öldu ofbeldis undanfarinna 20 mánaða.

Utanríkisráðherra lagði áherslu á að leita yrði pólitískra lausna á átökunum, t.d. með friðarráðstefnu í sumar, um leið og hann sagði að forsenda friðar væri stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna og að réttur Ísraelsmanna til að lifa í friði og öryggi innan alþjóðlega viðurkenndra landamæra væri virtur.
Utanríkisráðherra áréttaði ennfremur nauðsyn þess að deiluaðilar virtu mannréttindi allra og alþjóðleg mannúðarlög.

Utanríkisráðherra gerði ísraelskum stjórnvöldum einnig grein fyrir ályktun Alþingis frá 30. apríl sl. um deilur Ísraels og Palestínumanna.



Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 29. maí 2002


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum