Hoppa yfir valmynd
14. september 2020 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tillögum skilað um hvernig tryggja megi framboð á raforku til almennings

Starfshópur ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur skilað tillögum um hvernig tryggja megi nægt framboð raforku á almennum markaði. Almenni raforkumarkaðurinn er almenningur, fyrirtæki sem ekki teljast stórnotendur og stofnanir.

 

Enginn er ábyrgur fyrir orkuframboði inn á almennan markað

Tilefnið er sú staðreynd að enginn ber í dag ábyrgð á að tryggja nægilegt framboð af raforku inn á almenna markaðinn. Landsvirkjun hafði áður þessa skyldu en hún var afnumin með raforkulögum 2003.

 

Þetta skapar þann möguleika að orkuframleiðendur kjósi að selja stórnotendum það rafmagn sem er til skiptanna úr virkjunum þeirra, fremur en almenningi og minni fyrirtækjum.

 

Vinna starfshópsins afmarkaðist fyrst og fremst við heildsölumarkað raforku, enda eru almennir notendur háðir honum. Litið var til þess hvernig tryggja megi jafnvægi á milli framleiðslugetu og eftirspurnar til 2-5 ára hverju sinni og hvernig skuli skilgreina það jafnvægi.

 

Öryggi flutnings- og dreifikerfisins var ekki á verksviði starfshópsins enda er fjallað um það á öðrum vettvangi.

 

I. Raforkuöryggi verði betur skilgreint í lögum

Starfshópurinn bendir á að markmið um raforkuöryggi komi ekki skýrt fram í raforkulögum. Því er lagt til að tekið verði fram í lögunum að markmið þeirra sé að tryggja fullnægjandi raforkuöryggi.

 

Lagt er til að raforkuöryggi verði skilgreint í raforkulögum út frá fjórum víddum:

  1. Orkustefna til 5-10 ára sem nær til orkuframboðs til langs tíma
  2. Afhendingaröryggi til 2-5 ára
  3. Framleiðsluöryggi til eins árs
  4. Rauntímaöryggis

 

Þá þurfi að skilgreina í lögunum hvaða sjónarmið skuli leggja til grundvallar við mat á því hvað teljist fullnægjandi framboð á raforku. Ráðherra útfæri þau viðmið nánar í reglugerð.

 

II. Beinar aðgerðir til að tryggja jafnvægi framboðs og eftirspurnar

Í skýrslu hópsins kemur fram að í grófum dráttum eru tvær leiðir til þess að stuðla að jafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar raforku fyrir almenna notendur:

 

  1. Að auka virkni heildsölumarkaðarins
  2. Að gefa stjórnvöldum heimildir til að grípa inn í til að tryggja að framboð geti mætt eftirspurn

 

Starfshópurinn bendir á þrjár aðgerðir í hvorum flokki fyrir sig.

 

Varðandi virkni heildsölumarkaðarins telur starfshópurinn æskilegt að:

 

  • Koma á heildsölumarkaði sem tekur mið af íslenskum aðstæðum
  • Fjölga seljendum á heildsölumarkaði
    • Til dæmis þurfi að greina vel áhrif þess að skylda framleiðendur til að selja inn á hann, heimila notendum að endurselja inn á markaðinn, og fjölga orkuframleiðendum með því að greina og fjarlægja aðgangshindranir
  • Þá er bent á að draga mætti úr óvissu með því að semja til lengri tíma um breytilega orku á heildsölumarkaði en nú er gert

     

    Varðandi heimildir stjórnvalda til inngrips setur hópurinn fram eftirfarandi ábendingar og tillögur:

     

  • Skilgreind verði öryggismörk um fullnægjandi framboð raforku; Orkustofnun greini (eða láti greina) stöðu framboðs gagnvart þessum öryggismörkum annað hvert ár og meti hvort og hvernig bregðast þurfi við
  • Orkustofnun verði heimilt að bjóða út valréttarsamninga um að draga úr raforkunotkun og bjóða út afltryggingar vegna framleiðslu
  • Heimili – og mögulega nánar skilgreind smærri fyrirtæki – verði vernduð fyrir orkuskorti með lagaákvæði um alþjónustu

 

„Mikilvægar tillögur um stórt hagsmunamál almennings“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

 

„Hér eru á ferðinni mikilvægar tillögur um stórt hagsmunamál almennings. Við höfum vanist því að líta á raforku sem sjálfsagðan hlut en með aukinni eftirspurn eftir henni hefur sá möguleiki teiknast upp á undanförnum árum að heimili og minni fyrirtæki gætu staðið frammi fyrir skorti vegna þess að orkan verði frekar seld stærri notendum. Þó að líkurnar á því hafi heldur minnkað að undanförnu vegna samdráttar á ýmsum sviðum er þetta engu að síður möguleiki sem ég tel mikilvægt að girða fyrir. Hér eru komnar tillögur um það sem ég hlakka til að vinna úr og starfshópurinn á þakkir skilið fyrir vandaða og góða vinnu.“

Nánari upplýsingar

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum