Hoppa yfir valmynd
20. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 3/2008

Þriðjudaginn, 20. maí 2008

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 13. febrúar 2008 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 12. febrúar 2008.

Kærð var ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Í yfirliti frá fæðingarorlofssjóði sem mér hafa borist eru teknar saman heildartekjur síðustu tveggja tekjuára. Á þeim tíma var ég í fæðingarorlofi vegna annars barns. Á þessu yfirliti eru ákvarðaðar greiðslur úr fæðingarorlofssjóði miðað við að ég hafi verið í starfi 24 mánuði á þessum tveim tekjuárum.

Ég starfa sem sérfræðingur í rekstri flókins tölvukerfis og hugbúnaðargerð. Það gengur enginn í starf mitt án mikillar þjálfunar. Við rekstur tölvukerfisins kemur fyrir að sinna þurfi uppákomum utan hefðbundins vinnutíma t.d. hugbúnaðarvillu, uppfærslu hugbúnaðar eða rekstri ýmiss vélbúnaðar svo eitthvað sé nefnt Samkomulag milli mín og vinnuveitanda míns hefur verið á þá leið að ég hef tekið mér frí vegna slíkra viðvika á launum.

Fyrirtækið sem ég starfa hjá er með fáa starfsmenn eða um 4-5 starfsmenn. Við skipulagningu fæðingarorlofs á árunum 2005 og 2006 voru með í ráðum ég sjálfur, vinnuveitandi minn og síðast en ekki síst starfsmenn fæðingarorlofssjóðs. Markmiðið var að skipuleggja fæðingarorlofið mitt þannig að fjölskyldan myndi njóta þess og aukamarkmið var að halda uppi þjónustu við viðskiptavini fyrirtækisins án verulegs kostnaðar. Niðurstaðan var fæðingarorlof sem dreifðist á nokkra mánuði.

Á þessum tveim tekjuárum hef ég tekið út þrjá mánuði í fæðingarorlof. Það má vera að ég hafi ekki farið nákvæmlega eftir skipulaginu sem var lagt upp með í upphafi og hefur það þá verið vegna uppákoma í rekstri tölvukerfisins. Þessi frávik eru ekki mikil. Vinnuveitandi minn hefur í þeim tilvikum greitt mér fyrir þá vinnu og ég hef einnig tekið frí á hefðbundnum vinnutíma skv. samkomulagi við vinnuveitanda.“

 

Með bréfi, dagsettu 18. febrúar 2008, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs.

 

Greinargerð Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs er dagsett 25. febrúar 2008. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 26. nóvember 2007, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt frá 5. nóvember 2007 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2005 og 2006.

Í 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða þess árs er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Jafnframt segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hafi starfað á innlendum vinnumarkaði.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VI. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 3. mgr. 15. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segir jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Barn kæranda er fætt þann 21. nóvember 2007 og skal því, samkvæmt framangreindum laga- og reglugerðarákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans árin 2005 og 2006 þá mánuði sem hann var samfellt að störfum í a.m.k. 25% starfshlutfalli.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram kemur í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á árunum 2005 og 2006. Kærandi var að hluta til í fæðingarorlofi í september 2005 og skal því undanskilja þann mánuð við útreikning á meðaltali heildarlauna. Á árinu 2006 var kærandi að hluta til í fæðingarorlofi mánuðina mars–maí, ágúst og október–nóvember ber því einnig að undanskilja þá mánuði við útreikning á meðaltali heildarlauna. Aðra mánuði á árunum 2005–2006 var kærandi starfandi samfellt í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði og skal því hafa þá mánuði með við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda. Var kæranda send ný greiðsluáætlun þess efnis, dags. 25. febrúar 2008.

Með vísan til framangreinds telur Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 25. febrúar 2008, beri með sér réttan útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 28. febrúar 2008, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með tölvubréfi dagsettu 11. mars 2008 þar segir:

„Ég hef tvær óskir til úrskurðarnefndarinnar

1. Að Fæðingarorlofssjóður/úrskurðarnefndin taki saman vinnuframlag mitt á árunum 2005 og 2006 og deili í með fjölda raunverulegra mánaða sem ég var í starfi á vinnumarkaði, þe. 21 mánuð og þá 3 mánuði í fæðingarorlofi.

2. Til vara að Fæðingarorlofssjóður/úrskurðarnefndin bæti mánuðunum nóv. 2006 og des. 2006 við úrskurð vinnumálastofnunar frá 25. febrúar en felli mánuðinn júlí 2006 út þar sem hluta úr þeim mánuði var ég í fæðingarorlofi.

Ástæða þess að leið nr. 1 er sanngjörn er að fæðingarorlofssjóður upplýsti mig ekki um að þeir mánuðir sem ég er með 25% eða meiri atvinnuþátttöku gætu haft áhrif á næsta fæðingarorlof. Lögin fel í sér ósanngirni gagnvart tarfsmönnum smærri fyrirtækja sem eru frekar kallaðir inn í vinnu í miðju fæðingarorlofi því ekki er annað starfsfólk til að sinna tilteknum störfum. Fæðingarorlofssjóður hefur bent á að best sé að vinnuveitandi og starfsmaður leysi málin saman. Slíkt gefur auga leið að þessi sjónarmið eiga ekki samleið í öllum tilfellum. Þ.e. að halda atvinnuþátttöku undir 25% og að leysa viðamikil störf í litlu fyrirtæki. Slíkt er gert á kostnað starfsmanns. Fæðingarorlofssjóður gerði engar athugasemdir við skipulag fæðingarorlofsins þegar því var skilað inn.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

Með greiðsluáætlun dagsettri 25. febrúar 2008 breytti stofnunin fyrri ákvörðun sinni um útreikning samkvæmt greiðsluáætlun 26. nóvember 2007 sem kærð hafði verið. Með tölvubréfi kæranda dagsettu 11. mars 2008 er ítrekuð kæra á útreikningi greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.), sbr. 4. gr laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu og varanlegt fóstur.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004, skal mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingaorlofi nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald. Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 segir að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VIII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Barn kæranda er fætt þann 21. nóvember 2007. Með hliðsjón af því verður viðmiðunartímabilið við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árin 2005 og 2006, sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. og 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Á því tímabili fékk kærandi greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barns sem fætt er 4. september 2005.

Samkvæmt upphaflegri tilkynningu kæranda til vinnuveitanda um tilhögun eldra fæðingarorlofs dagsettri 6. júlí 2005 hugðist kærandi taka 100% fæðingarorlof frá og með 5.9.2005 til og með 19.9.2005 og fékk í samræmi við það greitt 53% fæðingarorlof þann mánuð. Þá var tilkynnt um fyrirhugaða töku fæðingarorlofs á árinu 2006 þ.e. 50% frá og með 5.3. til og með 4.5.2006 og 100% frá og með 5.5.2006 til og með 19.6.2006. Í nýrri tilkynningu til vinnuveitanda dagsettri 30. maí 2006 er tilgreiningin tilhögunar fæðingarorlofs árið 2006 önnur. Greiðsluáætlun Tryggingastofnunar ríkisins dagsett 7. júní 2006 er ekki í samræmi við tilkynningarnar nema að hluta en samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði mun tilhögun greiðslna hafa verið breytt af starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins í samráði við kæranda í gegnum síma. Samkvæmt greiðsluáætluninni var hlutfall greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði árið 2006 í mars 44%, í apríl 50%, í maí 26%, í júlí 20%, í ágúst 50%, í október 24% og í nóvember 33%.

Eins og fram hefur komið er ekki að fullu staðfest í gögnum málsins hvernig tilhögun fæðingarorlofs kæranda á árinu 2006 var háttað. Svo virðist sem ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs dagsett 25. febrúar 2008 byggist á því að kærandi hafi verið utan vinnumarkaðar í einhverjum hluta sjö mánaða sem hann fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og að þeir mánuðir skuli því ekki taldir með við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda. Af staðgreiðsluskrá virðist hins vegar mega ráða að kærandi hafi þegið full laun af vinnuveitanda sínum mánuðina október og nóvember 2006. Með hliðsjón af því telur úrskurðarnefndin að líta beri svo á að kærandi hafi verið á vinnumarkaði þá mánuði, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, og því skuli þeir mánuðir taldir með við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Með vísan til framanritaðs er ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs dagsett 25. febrúar 2008 um að undanskilja mánuðina október og nóvember 2006 við útreikning meðaltals heildarlauna og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hrundið. Eins og háttað er fyrirliggjandi gögnum um tilhögun fæðingarorlofs skal ákvörðunin að öðru leyti vera óbreytt.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs um greiðslu til A í fæðingarorlofi dagsett 25. febrúar 2008 er hrundið. Við útreikning meðaltals heildarlauna kæranda og greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði, skal ekki undanskilja mánuðina október og nóvember 2006, ákvörðun að öðru leyti skal vera óbreytt.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum