Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2025 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 595/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 595/2024

Miðvikudaginn 26. febrúar 2025

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru, sem barst 19. nóvember 2024, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 20. ágúst 2024 á umsókn hennar um greiðsluþátttöku í erlendum sjúkrakostnaði.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 29. maí 2024, óskaði kærandi eftir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í sjúkrakostnaði vegna læknismeðferðar í B. Með ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 20. ágúst 2024, var greiðsluþátttöku vegna meðferðarinnar synjað með þeim rökum að greiðsluþátttaka vegna tæknifrjóvgunar erlendis sé sú sama og Sjúkratryggingar Íslands veiti hér á landi og sé eingöngu greiðsluþátttaka í fjórum skiptum. Í ljós hafi komið að kærandi ætti ekki rétt á frekari greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar þar sem hún hafi þegar fengið greiðsluþátttöku í fjórum skiptum.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. nóvember 2024 og viðbótarröksemdir þann 22. nóvember 2024. Með bréfi, dags. 27. nóvember 2024, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 6. desember 2024, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2024. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 23. desember 2024. Þær voru sendar Sjúkratryggingum Íslands til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. janúar 2025. Frekari athugasemdir bárust ekki.


 

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi fer fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála endurskoði hina kærðu ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands.

Í kæru segir að kærandi mótmæli niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands á grundvelli nokkurra atriða. Í fyrsta lagi hafi fyrstu þrjár meðferðirnar verið endurgreiddar á grundvelli þess sem sjá megi að neðan (lög hafi verið með svipuðum hætti er þau hafi farið í meðferð en gætu hafa verið örlítið öðruvísi), þ.e. að kærandi og fyrrum eiginmaður hennar hafi verið par sem hafi ekki átt barn saman. Þau fái að því að kærandi best viti niðurgreiðslu á þessum þremur meðferðum sem par en ekki sem einstaklingar. Þessar fyrstu þrjár meðferðir hafi farið fram á C árin 2007 - 2009 og hafi niðurgreiðslan alltaf fengist strax og ekki hafi þurft að sækja um hana. Þegar sótt hafi verið um niðurfellingu á lækkun á tekjuskattsstofni vegna hás lækniskostnaðar hafi þau sótt um sem par sömuleiðis.

Starfsmaður hjá Sjúkratryggingum Íslands hafi sagt kæranda símleiðis í ágúst [2024] að greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands væri á grundvelli þess að kærandi væri konan sem meðferðin væri framkvæmd á og því gæti karlmaður ekki fengið niðurgreiðslu. Það sé minnst á fjölda meðferða í nýjustu reglugerðinni en það sé alls ekki skýrt hver eigi rétt á greiðsluþátttökunni. Þótt kærandi telji ekki augljóst að konan eigi eingöngu að fá niðurgreiðslu þá telji hún það heldur ekki geta verið lagalega rétt þar sem meðferð sé alltaf með þeim hætti að erfðaefni beggja einstaklinga sé notað og því ekki um venjulega læknismeðferð að ræða þar sem augljóst sé að um eingöngu einn einstakling sé að ræða. Hér sé heldur ekki gerður greinarmunur á uppruna vandans sem ætla mætti að þyrfti að komast til botns í eigi að hafa þetta fyrirkomulag, en frjósemisvandi liggi ekki einungis hjá konum þótt augljóslega sé settur upp fósturvísir hjá konunni.

Á frjósemisstofu sé einnig algengt að bæði karlinn og konan borgi gjald til kvensjúkdómalæknis í fyrsta viðtali. Í hið minnsta sé það ljóst að með fyrri reglugerð þar sem par fái niðurgreiðslu, geti þetta með engu móti átt einungis við kæranda þegar hún og hennar fyrrverandi hafi fengið niðurgreiðslu sem par. Eftir þriðju meðferð hafi kærandi skipt um maka. Tæknifrjóvgun sé og hafi alltaf verið meðferð parsins, vandamál parsins og bæði þurfi að leggja til sínar kynfrumur (eða með gjafa) því börn séu ekki eingetin (nema í þeim tilvikum sem kona fari ein í gegnum meðferð og þurfi gjafasæði). Ófrjósemin geti verið konunnar megin, karlsins megin, beggja megin eða óútskýrð ófrjósemi.

Þess sé heldur ekki getið í lögum með hvaða hætti þetta skuli vera, þ.e. hvernig greiðsluþátttöku skuli vera háttað. Segja megi að þetta staðfestist því mörg stéttarfélög veiti styrki til niðurgreiðslu á tæknifrjóvgun og séu þeir veittir til einstaklingsins án tillits til þess hvort sá aðili sé með leg eða ekki. Það væri mismunun, með sama hætti og þessi höfnun á greiðsluþátttöku sé mismunun á grundvelli kynferðis, þ.e. að hafa eða hafa ekki leg. Hvergi standi í lögum að konan fái greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands en ekki maðurinn, né heldur að karlmaður sem ekki hafi farið áður í tæknifrjóvgunarmeðferð með konu eigi ekki rétt á greiðsluþátttöku.

Máli sínu til stuðnings nefni kærandi að myndi fyrrverandi eiginmaður hennar fara í glasafrjóvgun með núverandi konu sinni myndu þau fá tækifæri til að byrja á núllpunkti og í kerfinu myndi það líta út eins og hann hefði aldrei fengið niðurgreiðslu og væri það á grundvelli þess að hann væri karlmaður. Hann myndi þess vegna getað skipt um maka mörgum sinnum og þannig átt möguleika á að eignast mörg börn með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Þetta sé klár mismunun með tilliti til kynferðis. Að sama skapi sé þetta mismunun gegn núverandi maka kæranda sem aldrei hafi fengið niðurgreidda meðferð og virðist aldrei geta fengið hana.

Kærandi óski hér með eftir að greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands verði endurskoðuð og rökstudd. Telji úrskurðarnefnd ekki að kærandi eigi rétt á henni vilji hún fara fram á að unnusti hennar fái hana eða geti í hið minnsta sótt um greiðsluþátttöku, enda muni frjósemisstofan D í B geta sýnt fram á að þau tvö hafi farið í meðferðina (t.d. nöfn á kvittunum). Þau hafi bæði verið meðhöndluð á þessari frjósemisstofu, með sitt hvorn vandann, og það standi hvergi að greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands einskorðist við þann einstakling sem fái uppsetningu á fósturvísinum í sitt leg, eða í þessu tilviki kæranda.

Loks tekur kærandi fram að Sjúkratryggingar Íslands hafi ekki tekið afstöðu til greiðslu á lyfjakostnaði erlendis (sem beðið hafi verið um þátttöku í 2022 og 2024) og óski hún eftir því að það verði skoðað samhliða þessu eigi það við.

Fyrri reglugerð sem vísað sé í að ofan sé 3. gr. reglugerðar nr. 917/2011 þar sem segi:

„Sjúkratryggingum Íslands er heimilt að endurgreiða sjúkratryggðum hluta útlagðs kostnaðar (heildarverðs) við tæknifrjóvgunarmeðferð á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar. Heimildin gildir frá 1. október til og með 31. desember 2011.

Endurgreiðsla sjúkratrygginga er sem hér segir:

1. Par sem ekki á barn saman:

a. fyrsta meðferð 40%

b. önnur til fjórða meðferð 65%

2. Par sem á eitt barn saman:

a. fyrsta til fjórða meðferð 15%“

Í viðbót kæranda við kæru greinir hún frá því að hún hafi vitneskju um konu sem hafi fengið niðurgreidda meðferð (hlutfall niðurgreiðslu óljóst en það hafi líklega verið á bilinu 40-65%) árið 2007 með fyrri maka og eftir nokkrar uppsetningar á frosnum fósturvísum hafi hún orðið ólétt og þeim fæðst sonur. Líklega hafi það verið árið 2008 eða 2009 sem niðurgreiðslu á fyrstu glasa- eða smásjármeðferð hafi verið hætt.

Árið 2016 hafi hún verið komin með nýjan maka og þau hafi einnig farið í glasafrjóvgunarmeðferð og fengið litla eða enga niðurgreiðslu (kærandi viti ekki hvenær 5% greiðsluþátttaka hafi komið inn) sem þýði að þetta hafi verið talin þeirra fyrsta meðferð, eða fyrsta meðferð saman sem par. Þarna hafi lögum um niðurgreiðslu á fyrstu meðferð verið breytt og klárt sé að þetta par hafi ekki fengið niðurgreiðslu eins og um meðferð tvö væri að ræða. Þetta styðji það að þarna hafi verið tekið tillit til þess að um væri að ræða par 1 og par 2 og hafi þau fengið niðurgreiðslu samkvæmt því, þótt um hafi verið að ræða sömu konuna.

Þá vilji kærandi taka fram að hún hafi […]og þetta hafi oft verið rætt og þau hafi verið meðvituð um að með nýjum maka hæfist talning á meðferðum og þar með niðurgreiðsla að nýju.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Sjúkratrygginga Íslands er því andmælt að kærandi hafi fengið fjórar niðurgreiddar meðferðir þar sem að á þeim tíma hafi lögin verið miðuð við að par fengi niðurgreidda meðferð. Kærandi telji að fyrrverandi maki hennar, hafi fengið niðurgreiddar meðferðir til jafns við hana og hafni því alfarið að meðferðin hafi eingöngu verið hennar, enda erfðaefni beggja notað og ófrjósemi sjúkdómur parsins, ekki einstaklingsins. Kærandi vilji því halda því fram að þetta sé rangt skráð hjá Sjúkratryggingum Íslands. Hún vísi í lög þess tíma sem meðferðirnar hafi farið fram (2007-2009) og að aðrir aðilar hafi byrjað á meðferð eitt með nýjum maka, einmitt á forsendum þessara laga. Mörgu í upprunalegum andmælum hennar sé ekki svarað og sumu í upprunalegu beiðnunum ekki svarað yfir höfuð. Til að gæta jafnræðis vilji hún nefna, eftir að hafa skoðað málið, þá hefði síðasta niðurgreiðsla átt að hafa verið 5% af kostnaði þar sem hún hafi verið fyrsta meðferð kæranda og E en sú sem um ræði hér sé meðferð númer tvö. Hvað varði lyfjakostnað, sem einnig hafi verið sótt um, þá hafi þau ekki fengið svör og viti ekki hver staðan sé á því.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar, dags. 20. ágúst 2024, vegna umsóknar um endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði í B.

Í ákvörðun stofnunarinnar segi að þann 29. maí 2024 hafi Sjúkratryggingum Íslands borist umsókn, dags. 29. maí 2024, frá kæranda varðandi endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði í tengslum við IVF meðferð í B hjá þjónustuveitandanum D. Þjónustan hafi verið veitt þann X samkvæmt framlögðum reikningi. Þann 4. júní 2024 hafi Sjúkratryggingar Íslands óskað eftir frekari upplýsingum í tengslum við umsóknina. Þann 16. júlí 2024 hafi borist læknabréf með nánari útlistun á veittri þjónustu. Samkvæmt 23. gr. a. í lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 með áorðnum breytingum, sbr. reglugerð nr. 484/2016 sé sjúkratryggðum heimilt að sækja sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri aðildarríkja EES-samningsins og fá endurgreiddan útlagðan kostnað við heilbrigðisþjónustuna sem samsvari kostnaði við sömu eða sambærilega heilbrigðisþjónustu hér á landi, sbr. 2. gr. reglugerðar nr. 484/2016. Skilyrði sé að heilbrigðisþjónustan sé í boði hér á landi og að hún falli undir greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands. Það sé skilyrði fyrir endurgreiðslu á grundvelli reglugerðar nr. 484/2016 að hægt sé að veita sömu eða sambærilega þjónustu hér á Íslandi, sbr. reglugerð nr. 484/2016. Greiðsluþátttaka vegna tæknifrjóvgunar erlendis sé sú sama og Sjúkratryggingar Íslands veiti hér á landi. Samkvæmt 3. gr. reglugerðar um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir nr. 1241/2018 sé eingöngu greiðsluþátttaka í fjórum skiptum. Við frekari skoðun á umsókn kæranda og gögnum komi í ljós að hún eigi ekki rétt á frekari greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar þar sem hún hafi þegar fengið greiðsluþátttöku í fjórum skiptum. Með vísan til þess er að framan greini sé umsókn kæranda um endurgreiðslu á erlendum sjúkrakostnaði synjað.

Samkvæmt 23. gr. a. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar sé einstaklingum heimilt að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og endurgreiða þá sjúkratryggingar kostnað af þjónustunni eins og um heilbrigðisþjónustu innan lands væri að ræða enda sé þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taki þátt í að greiða hér á landi. Í reglugerð nr. 484/2016 sé fjallað um heilbrigðiþjónustu sem sé sótt innan aðildarríkis EES-samningsins þegar hægt sé að veita þjónustuna hér á landi. Í 1. gr. reglugerðar nr. 484/2016 segi að reglugerðin gildi um heilbrigðiþjónustu sem sjúkratryggðir velji að sækja til annars aðildarríkis EES-samningsins án tillits til þess hvernig hún sé skipulögð, veitt og fjármögnuð, þegar hægt sé að veita þjónustuna hér á landi. Þá komi fram í 2. mgr. 1. gr. reglugerðarinnar að markmið hennar sé að skýra réttindi sjúkratryggðra til þess að sækja sér heilbrigðisþjónustu til annars aðildarríkis EES-samningsins í samræmi við lög um sjúkratryggingar. Í 2. gr. reglugerðar nr. 484/2016 segi:

„Nú velur sjúkratryggður að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og endurgreiða þá Sjúkratryggingar Íslands kostnað af þjónustunni eins og um heilbrigðisþjónustu innanlands væri að ræða enda sé þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taka til hér á landi.“ 

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1239/2018 sé kveðið á um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra við tæknifrjóvgun sem veitt sé án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar. Endurgreiðsluheimildir Sjúkratrygginga Íslands séu tæmandi taldar í 3. mgr. 3. gr. sömu reglugerðar. Þar komi meðal annars fram að endurgreiðsla sjúkratrygginga sé 5% af fyrsta skipti af glasafrjóvgun (IVF) og smásjárfrjóvgun (ICSI) og 65% af öðru til fjórða skipti í glasafrjóvgun (IVF) og smásjárfrjóvgun (ICSI). Ekki sé kveðið á um greiðsluþátttöku vegna fimmtu eða fleiri tæknifrjóvgunarmeðferða. Það liggi fyrir að kærandi hafi farið í fjórar meðferðir. Samkvæmt framangreindu sé því ljóst að ekki sé til staðar heimild til greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands til samræmis við gjaldskrá Sjúkratrygginga Íslands fyrir tæknifrjóvgun sem ekki hafi verið samið um nr. 1241/2018, sett með stoð í 1. mgr. 38. gr. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar og reglugerð nr. 1239/2018, vegna þeirrar meðferðar sem kærandi hafi sótt í B.

Greiðsluþátttaka vegna tæknifrjóvgunar erlendis sé sú sama og Sjúkratryggingar Íslands veiti hér á landi og samkvæmt 3. gr. reglugerðar um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir nr. 1241/2018 sé eingöngu greiðsluþátttaka í fjórum skiptum.

Að framansögðu virtu sé það afstaða Sjúkratrygginga Íslands að ekki sé heimild til staðar til að endurgreiða útlagðan kostnað samanber ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 20. ágúst 2024.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn kæranda um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna læknismeðferðar erlendis.

Í 23. gr. a. laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar er fjallað um greiðsluþátttöku í kostnaði vegna læknismeðferðar erlendis sem unnt er að veita hér á landi. Þar segir í 1. mgr. að nú velji sjúkratryggður að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins og endurgreiði þá sjúkratryggingar kostnað af þjónustunni eins og um heilbrigðisþjónustu innanlands væri að ræða, enda sé þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taki þátt í að greiða hér á landi. Í 4. mgr. sömu greinar segir að ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um framkvæmd greinarinnar, meðal annars um hvenær sækja skuli fyrir fram um samþykki fyrir endurgreiðslu á grundvelli 1. mgr.

Reglugerð nr. 484/2016 um heilbrigðisþjónustu sem sótt er innan aðildarríkis EES-samningsins en hægt er að veita hér á landi og um hlutverk innlends tengiliðar vegna heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, hefur verið sett með stoð í framangreindu lagaákvæði. Reglugerðin er sett til innleiðingar á tilskipun 2011/24/ESB um réttindi sjúklinga varðandi heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, sbr. 15. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 484/2016 segir að velji sjúkratryggður að sækja sér heilbrigðisþjónustu í öðru aðildarríki EES-samningsins þá endurgreiði Sjúkratryggingar Íslands kostnað af þjónustunni eins og um heilbrigðisþjónustu innanlands væri að ræða enda sé þjónustan samsvarandi þeirri þjónustu sem sjúkratryggingar taki til hér á landi.

Fjallað er um greiðsluþátttöku kæranda í tæknifrjóvgunarmeðferðum í þágildandi reglugerð nr. 1239/2018, um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við tæknifrjóvganir sem veittar eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, með síðari breytingum. Í  1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar segir að Sjúkratryggingum Íslands sé heimilt að taka þátt í kostnaði sjúkratryggðra vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar á grundvelli gjaldskrár sem stofnunin gefur út, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um sjúkratryggingar. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. er endurgreiðsla sjúkratrygginga 5% af fyrsta skipti í glasafrjóvgun og smásjárfrjóvgun og 65% af öðru til fjórða skipti í glasafrjóvgun og smásjárfrjóvgun.

Fram kemur í gögnum málsins að kærandi hefur farið í tæknifrjóvgun fjórum sinnum á árunum 2007 til 2009 og á árinu 2022. Í október 2023 fór kærandi í glasafrjóvgun, sem var hennar fimmta meðferð, og óskar hún eftir 65% greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands á þeim grundvelli að þar sem meðferðin sé með öðrum maka en fyrstu þrjár meðferðir hennar skuli þessi meðferð því teljast sem annað skipti í glasafrjóvgun.

Réttur til greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands í tæknifrjóvgun fer eftir gildandi reglum á hverjum tíma. Þágildandi reglugerð nr. 1239/2018, með síðari breytingum, var í gildi þegar sótt var um greiðsluþátttöku í glasafrjóvgun kæranda árið 2024. Endurgreiðsla sjúkratrygginga samkvæmt 3. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er eftirfarandi:

 

„1. 5% af fyrsta skipti í glasafrjóvgun (IVF) og smásjárfrjóvgun (ICSI).

2. 65% af öðru til fjórða skipti í glasafrjóvgun (IVF) og smásjárfrjóvgun (ICSI).“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, fær ekki ráðið af orðalagi ákvæðisins að heimilt sé að hefja talningu fjölda skipta á ný þótt aðstæður sjúkratryggðs breytist, svo sem með nýjum maka. Þá telur úrskurðarnefndin ekki ákvæði reglugerðarinnar benda til annarrar túlkunar á framangreindri 3. mgr. 3. gr. en að átt sé við að hver glasafrjóvgunarmeðferð teljist eitt skipti, óháð því hver maki sjúkratryggðs sé. Þar sem enga heimild er að finna í reglugerðinni sem veitir rétt til greiðsluþátttöku í glasafrjóvgun í fimmta skipti eru skilyrði greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands vegna læknismeðferðar erlendis því ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Í kæru er byggt á því að afstaða Sjúkratrygginga Íslands leiði til þess að kæranda sé mismunað á grundvelli þess. Telur kærandi þá túlkun Sjúkratrygginga Íslands á að réttur til greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar sé bundinn við konuna vera mismunun með tilliti til kynferðis þar sem karlar geti þá skipt um maka mörgum sinnum og þannig átt möguleika á að eignast mörg börn með greiðsluþátttöku Sjúkratrygginga Íslands.

Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skulu stjórnvöld við úrlausn mála gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilviki. Úrskurðarnefnd telur ljóst að greiðsluþátttaka Sjúkratrygginga Íslands takmarkast við fyrstu fjórar tæknifrjóvgunarmeðferðir sjúkratryggðs, sbr. þágildandi 3. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1239/2018. Að mati úrskurðarnefndar var niðurstaða Sjúkratrygginga Íslands í samræmi við þau lagaskilyrði. Þá liggur fyrir að skilyrðin eiga við um alla í sömu stöðu, þ.e. alla sem óska eftir greiðsluþátttöku vegna tæknifrjóvgunar. Því er ekki fallist á að Sjúkratryggingar Íslands hafi brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar.

Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að staðfesta ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn kæranda um greiðsluþátttöku í kostnaði við læknismeðferð í B.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Sjúkratrygginga Íslands á umsókn A, um greiðsluþátttöku í erlendum sjúkrakostnaði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta