Hoppa yfir valmynd
21. september 2018 Forsætisráðuneytið

6. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

6. fundur – haldinn föstudaginn 21. september 2018, kl. 13.30-15.30, í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).
Forföll höfðu boðað Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki) og Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki).

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð.

1. Fundargerð síðasta fundar
Lögð eru fram drög að fundargerðum tveggja síðustu funda. Afgreiðslu er frestað vegna þess að tveir eru fjarverandi. Sendur verður út póstur á hópinn og óskað eftir athugasemdum innan tiltekins tíma.

2. Skipulagning vinnunnar framundan
KJ fer yfir skipulagningu vinnunnar framundan. Draga megi þá ályktun af umræðum á síðasta fundi að minnstur ágreiningur sé um ákvæði um umhverfismál og auðlindir. Sérfræðingar hafi nú verið fengnir til að fara yfir þær tillögur með það fyrir augum að hægt verði að senda þær út til samráðs í nóvember, desember.

Hún sér fyrir sér að þetta verði verklagið framundan að þegar tillögur eru orðnar nægilega mótaðar á vettvangi formanna flokkanna verði þær birtar til samráðs. Síðar megi svo sameina þær í eitt frumvarp.

Fram kemur hjá KJ að hún leggi til að leitast verði við að ná sem breiðastri samstöðu um tillögur sem koma frá formönnunum áður en gengið verður frá þeim til framlagningar á Alþingi. Takist það ekki varðandi einstaka málefni þá girði það ekki fyrir að þær verði samt lagðar fram af breiðum meirihluta. Þá hafi Salvör Nordal, sem á sínum tíma var formaður stjórnlagaráðs, verið beðin um að fara yfir þau ákvæði í tillögum stjórnlagaráðs sem ekki eru nefnd í minnisblaði forsætisráðherra sem liggur samtölum formannanna til grundvallar og benda á hver þeirra væri rétt að ræða í þessum áfanga vinnunnar. Nefnt var sem dæmi ákvæði um íslenska tungu.

Fulltrúi Pírata tekur fram komi að forsenda fyrir þátttöku hans sé að um sé að ræða heildarendurskoðun þótt vinnan fari þannig fram að afmörkuð efni séu skoðuð hvert á fætur öðru. Formaður Viðreisnar tekur fram að mikilvægt sé að á þessu kjörtímabili sé fjallað um framsal ríkisvalds en það hafi verið forsenda viðkomandi fyrir því að fallast á að umfjöllun um jöfnun kosningaréttar frestaðist til næsta kjörtímabils.

Að öðru leyti eru ekki gerðar athugasemdir við upplegg forsætisráðherra.

3. Ákvæði um forseta lýðveldisins
Því næst er rætt um ákvæði stjórnarskrár um forseta lýðveldisins, á grundvelli yfirlits dags. 4. apríl 2018. Önnur ákvæði II. kafla stjórnarskrár um framkvæmdarvaldið verða rædd á næsta fundi.

Ýmis atriði koma til umræðu eins og hvort þörf verði á synjunarvaldi forseta ef nýtt ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur kemur til sögunnar, aðkoma forseta að stjórnarmyndunum og atbeini forseta við til dæmis þingrof. Þá er rætt um hvort breyta ætti fyrirkomulagi forsetakosninga og setja þak á fjölda kjörtímabila, e.t.v. samhliða lengingu kjörtímabils. Minnst er á hvort ætla eigi fyrrverandi forsetum eitthvert sérstakt hlutverk.

Niðurstaðan er sú að fá sérfræðinga til að stilla upp tillögu að ákvæðum þar sem hlutverki forseta eins og það hefur þróast verði lýst með nútímalegum hætti. Mögulega þurfi í sumum tilvikum að setja fram mismunandi valkosti.

4. Önnur mál
Ákveðið er að næsti fundur verði mánudaginn 8. október kl. 17-20.

Minnt er á fyrirhugaða ráðstefnu um stjórnarskrármál í næstu viku, 27.-29. september, en að henni stendur Edda rannsóknarsetur við Háskóla Íslands í samstarfi við forsætisráðuneytið, Veröld, stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, og Norræna félagið.

UBK kynnir tilboð sem borist hefur frá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands í framkvæmd viðhorfskönnunar meðal almennings.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 15.30


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum