Hoppa yfir valmynd
12. september 2017 Heilbrigðisráðuneytið

Stóraukið fé til uppbyggingar Nýs Landspítala og innviðir styrktir

  • Framlög til byggingar nýs Landspítala verða aukin um 1,5 milljarða króna á næsta ári umfram það sem ráðgert var í fjármálaáætlun ríkisins. 
  • Um 400 milljónir króna verða veittar til viðhalds á eldra húsnæði spítalans.
  • Rekstur jáeindaskanna hefst á næsta ári og eru 200 milljónir króna merktar rekstrinum. 
  • Heildarútgjöld til heilbrigðismála árið 2018 verða tæpir 208 milljarðar króna sem er 13,5 milljarða króna aukning frá fyrra ári eða 6,9%. 

Tæpir 2,8 milljarðar króna til Nýs Landspítala á næsta ári

Stórt skref við uppbyggingu Nýs Landspítala verður stigið þegar framkvæmdir hefjast við byggingu meðferðarkjarna sjúkrahússins við Hringbraut árið 2018.

Fjárveiting til framkvæmda við Nýjan Landspítala nemur tæpum 2,8 milljörðum króna samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og hækkar um tæpa 1,3 milljarða frá fjárlögum þessa árs. Fullnaðarhönnun meðferðarkjarnans er komin vel á veg, enda áætlað að verklegar framkvæmdir við hann hefjist á næsta ári. Þá er í undirbúningi útboð á fullnaðarhönnun rannsóknarhúss Nýs Landspítala.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir uppbyggingu Nýs Landspítala eitt mesta framfaraskref íslenskrar heilbrigðisþjónustu: „Með Nýjum Landspítala rætist sá draumur að sjúklingum og starfsfólki séu búnar bestu aðstæður sem skapa enn betri grunn fyrir góða og faglega þjónustu með auknum tækifærum fyrir starfsfólk til að njóta sín í starfi. Sjúkrahúsinu verður þannig betur kleift að standast samanburð við erlend sjúkrahús sem áhugaverður vinnustaður, öflug vísindastofnun og háskólasjúkrahús.“

Skilvirkari sjúkrahúsþjónusta, aukin samvinna og stytting biðlista eftir völdum aðgerðum eru áhersluþættir sem birtast í fjárlagafrumvarpinu og ríkisfjármálaáætluninni. Framlag til átaks um styttingu biðlista sem hófst árið 2016 verður 850 milljónir króna á næsta ári. Með hliðsjón af skýrslu McKinsey um fullnýtingu tækifæra Landspítala verður veitt auknu fé til að efla teymisvinnu á sjúkrahúsum, auka samvinnu heilbrigðisstofnana og bæta með því gæði þjónustunnar. Framlag til þessa verkefnis verður 70 milljónir á næsta ári og eykst ár frá ári til ársins 2022 þegar miðað er við að árleg viðbótaraukning nemi tæpum einum milljarði króna.

Framlög til viðhalds á eldra húsnæði Landspítalans

Áfram verður haldið átaki í viðhaldi á eldra húsnæði Landspítalans með áherslu á að bregðast við mygluvanda. Á þessu ári var veitt einum milljarði króna til viðhaldsverkefna. Á næsta ári verður 400 milljónum króna varið til átaksins.

200 milljónir króna í rekstur jáeindaskanna

Rekstur jáeindaskanna á Landspítala hefst á næsta ári. Með rekstri jáeindaskannans er gert ráð fyrir að töluverðar fjárhæðir sparist með betri greiningu sjúklinga og markvissari læknismeðferð. Á næsta ári renna 200 milljónir króna til reksturs skannans en áætlað er að árið 2019 verði 300 milljónum varið í rekstur hans þegar áformað er að jáeindaskanninn verði kominn í fulla notkun.

Upplýsingar um Nýjan Landspítala á www.nyrlandspitali.is

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira