Hoppa yfir valmynd
19. ágúst 2022 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðlegi mannúðardagurinn: 140 starfsmenn myrtir á síðasta ári

Ein af teikningunum sem birtar eru í dag í tilefni alþjóðalega mannúðardagsins. - mynd

Á síðasta ári voru 140 starfsmenn hjálparsamtaka teknir af lífi, 203 særðust og mannræningjar sviptu 117 starfsmenn frelsi. Alls voru því 460 einstaklingar að störfum fyrir mannúðarsamtök fórnarlömb átaka á árinu 2021. Þessar tölfræði upplýsingar birti OCHA, skrifstofa samhæfingar aðgerða í mannúðarmálum, í tilefni alþjóðalega mannúðardagsins í dag, 19. ágúst.

Af þeim sem létust voru allir nema tveir heimamenn og OCHA segir það sýna glöggt þá hættu sem innlendir starfsmenn mannúðarsamtaka standi oft frammi fyrir. Það sem af er þessu ári hefur verið ráðist á 168 starfsmenn hjálparsamtaka og dauðsföllin eru orðin 44 talsins. Ofbeldið er einkum í Suður-Súdan, Afganistan og Sýrlandi.

Fleiri hjálparstarfsmenn hafa ekki verið myrtir á einu ári frá því árið 2013. Hins vegar er óttast að mannfall aukist verulega á þessu ári vegna átakanna í Úkraínu.

Vikulöng herferð

Í tilefni dagsins kynnir OCHA vikulanga herferð til að heiðra starfsmenn mannúðarsamtaka, undir yfirskriftinni #ItTakesAVillage. „Á sama hátt og orðatiltækið „Það þarf þorp til að ala upp barn“ þarf „þorp“ mannúðarliða sem starfa með viðkomandi samfélögum til að koma stuðningi og von til fólks sem lendir í áföllum,“ segir Martin Grtiffiths yfirmaður OCHA. „Alþjóðlegi mannúðardagurinn í ár byggir á þessari myndlíkingu um sameiginlega viðleitni og biðlar til fólks um heim allan að sýna þakklæti fyrir mannúðarstarf, hver sem framkvæmir það."

Almenningi er boðið að fylgjast með #ItTakesAVillage á samfélagsmiðlum, deila, líka við og tjá sig – og OCHA hvetur fólk til að nota hvert tækifæri til að sýna samstöðu með þeim sem þurfa á aðstoð að halda og þakklæti til þeirra sem starfa að mannúðarmálum.

Alþjóðlegi mannúðardagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur frá árinu 2008 en dagurinn var valinn til að minnast sprengjuárásarinnar á höfuðstöðvar Sameinuðu þjóðanna í Bagdad í Írak árið 2003 þar sem 22 hjálparstarfsmenn létu lífið.

Sjá nánar frétt UNRIC: Hjálparstarf: Ljós í myrkrinu

  • Nokkrar mynda sem sýna starfsvettvang þeirra sem starfa að mannúðarmálum. Ljósmyndir: OCHA - mynd
  • Alþjóðlegi mannúðardagurinn: 140 starfsmenn myrtir á síðasta ári - mynd úr myndasafni númer 2
  • Alþjóðlegi mannúðardagurinn: 140 starfsmenn myrtir á síðasta ári - mynd úr myndasafni númer 3
  • Alþjóðlegi mannúðardagurinn: 140 starfsmenn myrtir á síðasta ári - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
2. Ekkert hungur
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum