Hoppa yfir valmynd
20. nóvember 2018 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 440/2018 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 20. nóvember 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 440/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18070025

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. júlí 2018 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Serbíu og Kósóvó (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2018, um að synja honum um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi sótti um vernd ásamt eiginkonu sinni.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og honum verði veitt staða flóttamanns með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Til þrautaþrautavara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og málið tekið til meðferðar að nýju.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 9. desember 2017. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. þann 12. desember 2017 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 23. janúar 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 9. febrúar 2018. Með úrskurði kærunefndar kveðnum upp þann 17. maí 2018 var mál kæranda sent til nýrrar meðferðar hjá Útlendingastofnun. Með ákvörðun, dags. 2. júlí 2018, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála við birtingu hennar þann 10. júlí 2018. Kærunefnd barst sameiginleg greinargerð kæranda og eiginkonu hans þann 1. ágúst 2018. Viðbótarathugasemdir bárust kærunefnd þann 8. nóvember 2018.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Við meðferð máls kæranda hjá Útlendingastofnun byggði hann umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hann sé í hættu í heimaríki sínu, Kósóvó, vegna hótana og ofbeldis af hálfu ónafngreindra aðila. Þá er umsókn kæranda einnig byggð á því að að hann verði fyrir mismunun vegna þess að hann tilheyri Bosníak-þjóðarbrotinu og þá verði hann fyrir áreiti og mismunun vegna þess að hann sé álitinn vera Serbi þar sem hann hafi barist með serbneska hernum.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og honum skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í sameiginlegri greinargerð kæranda og eiginkonu hans kemur fram að í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hans, frá 23. janúar 2018, hafi stofnunin komist að þeirri niðurstöðu að kærandi tilheyri þjóðfélagshópi Bosníaka í heimaríki hans og að hann hafi orðið fyrir áreiti vegna þess. Stofnunin hafi hins vegar talið kæranda standi til boða aðstoð stjórnvalda þar í landi. Lagt hafi verið til grundvallar að kærandi hafi tekið þátt í hernaði fyrir serbneska herinn en talið ekki talið ljóst hvaða áhrif þátttaka í stríðinu hafi á umsókn hans um alþjóðlega vernd. Þann 9. febrúar 2018 hafi ákvörðun Útlendingastofnunar verið kærð til kærunefndar sem hafi fellt hana úr gildi og lagt fyrir stofnunina að taka mál hans til nýrrar meðferðar. Í kjölfarið hafi kærandi verið boðaður til annars viðtals hjá stofnuninni 19. júní sl.

Fram kemur í greinargerð að kærandi sé af þjóðarbroti Bosníaka. Hann sé fæddur og uppalinn í [...] í Kósóvó og hafi búið þar þangað til árið 1998 þegar Kósóvó-stríðið hafi byrjað. Í heimaríki hafi kærandi orðið fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi af hálfu Albana. Þá hafi ítrekað komið fyrir að menn hafi komið að heimili hans og skotið í átt að fjölskyldu hans, kveikt hafi verið í eign hans og fyrir um það bil þremur árum hafi verið eitrað fyrir tveimur hundum hans. Albanskir nágrannar hans hafi auk þess gengið um eignir hans sem sínar eigin og m.a. klippt niður tré á landareign hans. Kærandi hafi leitað til lögreglu vegna framangreinds en án árangurs. Þá kemur fram í greinargerð að í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 19. júní sl. hafi kærandi greint frá því að hann sé hvorki Serbi né Albani. Hann hafi verið bæði verið á móti Albönum og Serbum í stríðinu og hafi gerst liðhlaupi úr serbneska hernum. Þá hafi kósóvóska landamæralögreglan komið illa fram við hann þar sem hann sé annars vegar með serbneskt vegabréf og hins vegar þar sem hann sé Bosníaki. Eitt sinn hafi hann verið handjárnaður á landamærastöðinni Savitle Vode og færður á skrifstofu yfirmanns í landamærastöðinni. Þar hafi hann verið sakaður um að hafa blótað kósóvóska ríkinu og sagt að hann yrði settur á svartan lista. Þá hafi kærandi í viðtali Útlendingastofnun einnig greint frá því að hafa verið handtekinn og settur í fangelsi í Serbíu. Kærandi hafi við meðferð málsins lagt fram afrit af vottorði forseta SDA-flokksins í Kósóvó, Numan Balic, þar sem fram komi að kærandi hafi verið í serbneska hernum í Kósóvó-stríðinu en hafi þann 25. mars 1999 flúið herskyldu sína. Herlögreglan í Novi Sad hafi handtekið hann og hann hafi hlotið þriggja ára fangelsi fyrir liðhlaup í Subotica. Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi reynt að fá dvalarleyfi í Svartfjallalandi þar sem eiginkona hans sé þaðan en reglur um dvalarleyfi þar í landi séu mjög strangar auk þess sem honum hafi verið brottvísað úr landinu þar sem hann hafi stundað ólöglega atvinnu. Auk þess hafi hann orðið fyrir ofsóknum í Svartfjallalandi á grundvelli stjórnmálaskoðana, þjóðernis og vegna þess að hann hafi gerst liðhlaupi úr serbneska hernum.

Í greinargerð kæranda er fjallað stuttlega um sögu og aðstæður í Kósóvó og stríðið sem háð hafi verið í landinu á árunum 1998-1999. Þá er einnig ítarleg umfjöllun um þá mismunun og áreiti af hendi Albana sem Serbar verði fyrir í Kósóvó. Þar er einnig er umfjöllun um Bosníaka og aðstæður þeirra í Kósóvó. Vísað er til þess að samkvæmt nýjum heimildum verði Bosníakar fyrir margvíslegri félagslegri mismunun í Kósóvó. Þá er jafnframt í greinargerð umfjöllun um aðstæður Bosníaka í Serbíu.

Aðalkrafa kæranda um alþjóðlega vernd er í fyrsta lagi byggð á því að hann sé flóttamaður frá Kósóvó og Serbíu vegna ástæðuríks ótta við ofsóknir á grundvelli þjóðernis og aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi. Kærandi vísar til þess sem að framan hafi verið rakið, um að Bosníakar og Kósóvó-Serbar eigi erfitt uppdráttar í Kósóvó og að Bosníakar og einstaklingar frá Kósóvó eigi almennt erfitt uppdráttar í Serbíu. Þeir aðilar sem kærandi óttist í Kósóvó séu Albanir. Þá sæti kærandi mismunun í Serbíu af hálfu stjórnvalda þar sem þau veiti honum ekki sömu réttindi og þau veiti Serbum í landinu almennt. Í öðru lagi vísar kærandi til þess að hann hafi verið liðsmaður Serbíuhers í Kósóvó-stríðinu árið 1998-1999 en hafi hins vegar hlaupist undan herskyldunni. Er vísað til leiðbeininga Flóttamannastofnunar frá 2009 þar sem fram komi að þeir einstaklingar sem hafi starfað með serbneskum stjórnvöldum séu í sérstakri hættu á að verða fyrir alvarlegum skaða í Kósóvó. Slíkir einstaklingar eigi í hættu á að verða fyrir mismunun og illri meðferð í Kósóvó sem geti jafnast á við ofsóknir. Kærandi telji að aðstæður hans falli undir b-lið 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga vegna aðgerðarleysis kósóvóskra stjórnvalda vegna hans aðstæðna en einnig undir a-lið ákvæðisins vegna ofbeldis sem hann hafi verið beittur. Í þriðja lagi byggir kærandi aðalkröfu sína á hættu á ofsóknum í Serbíu vegna þess að hann hafi gerst sekur um liðhlaup og hlotið fyrir það sjö ára dóm. Kærandi eigi von á að verða settur í fangelsi í Serbíu vegna liðhlaups snúi hann aftur þangað. Liðhlaupar geti verið talinn sérstakur þjóðfélagshópur vegna þess að þeir hljóti aðra meðferð af hálfu hins opinbera, t.d. þannig að þeir eigi erfiðara með að fá störf hjá hinu opinbera. Einnig telji kærandi að uppfyllt séu skilyrði e-liðar 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga þar sem hann hafi orðið fyrir ofsóknum af hálfu serbneskra stjórnvalda þar sem hann hafi verið dæmdur til refsingar fyrir að neita að gegna herþjónustu í átökum. Náðunarlög sem samþykkt hafi verið í Serbíu gildi einungis fyrir Serba í landinu en ekki Bosníaka eða einstaklinga frá Kósóvó. Sé það í samræmi við það sem að framan hafi verið rakið um aðstæður Bosníaka og einstaklinga frá Kósóvó í Serbíu en erfitt geti reynst að sanna að slík mismunun eigi sér stað. Því sé eðlilegt að kærandi fái að njóta vafans í þessu sambandi og að lagt verði til grundvallar að hann muni ekki hljóta sakaruppgjöf vegna liðhlaupsins verði hann sendur til Serbíu. Með hliðsjón af öllu framangreindu sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði um ástæðuríkan ótta við ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Serbíu.

Til vara gerir kærandi kröfu um viðbótarvernd frá Kósóvó með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið taki mið af tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/83/EB um lágmarksskilyrði til að ríkisborgarar þriðju landa eða ríkisfangslausir einstaklingar teljist flóttamenn eða menn sem að öðru leyti þarfnist alþjóðlegrar verndar og um inntak slíkrar verndar. Við túlkun á 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga eigi einnig að taka tillit til þeirra alþjóðlegu mannréttindasamninga og alþjóðareglna sem reglan um viðbótarvernd byggist á og Ísland sé skuldbundið af. Einkum sé þar um að ræða ákvæði 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 3. gr. samnings gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Með hliðsjón af því sem rakið hafi verið í greinargerð kæranda í tengslum við aðalkröfu hans sé ljóst að kærandi uppfylli skilyrði fyrri hluta 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, þar sem raunhæf ástæða sé til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu við endurkomu til heimaríkis. Þá eigi síðari hluti ákvæðisins jafnframt við en í heimildum sé öryggisástand í landinu ekki gott og sérstaklega ekki í Pec, heimabæ kæranda.

Til þrautavara krefst kærandi þess að honum verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið heimili að veita dvalarleyfi á þeim grundvelli ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar til athugasemda við 74. gr. í greinargerð með frumvarpi til laga um útlendinga þar sem fram komi að taka verði mið af svipuðum sjónarmiðum og gert sé við mat á öðrum ákvæðum kaflans, s.s. til almennra aðstæðna í heimaríki, þar á meðal hvort grundvallarmannréttindi séu tryggð þar. Þá sé í greinargerð frumvarpsins einnig vikið að félagslegum aðstæðum og vísað til þess hvort útlendingur hafi þörf á vernd vegna félagslegra aðstæðna í heimaríki og fari verndarþörf þjóðfélagshópa eftir aðstæðum í hverju máli fyrir sig. Með hliðsjón af öllu því sem þegar hafi verið rakið í greinargerð telji kærandi ljóst að uppfyllt séu skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og því beri að veita honum dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða.

Að lokum gerir kærandi athugasemdir við málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli hans og gerir þá kröfu til þrautaþrautavara að ákvörðunin verði felld úr gildi og málið tekið til meðferðar á ný hjá stofnuninni. Kærandi gerir í fyrsta lagi athugasemd við það að Útlendingastofnun hafi ekki minnst á þá staðreynd að hann hafi einnig flúið Serbíu af þeim sökum að hann fái ekki sömu réttindi og ríkisborgarar landsins og að hann verði þar fyrir ofsóknum í formi dómsins sem hann hafi hlotið fyrir liðhlaup. Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun vísi til þess að hann geti fengið endurnýjað serbneskt vegabréf sitt með því að leggja fram skriflega yfirlýsingu þess efnis að hann álíti Serbíu sem sitt eigið ríki. Eins og komið hafi fram þá sé kærandi frá Kósóvó sem hafi verið viðurkennt sem sjálfstætt ríki. Sé ekki hægt að ætlast til þess að kærandi skrifi undir yfirlýsingu um að hann viðurkenni Serbíu sem sitt ríki. Þá mótmælir kærandi þeirri afstöðu Útlendingastofnunar að ekki sé ómögulegt fyrir hann að fá dvalarleyfi í Svartfjallalandi. Kærandi bendir á að stjórnvöld í Svartfjallalandi hafi í gegnum tíðina beitt sér fyrir því að sporna gegn uppgangi múslíma á svæðinu. Jafnframt mótmælir kærandi þeirri afstöðu Útlendingastofnunar að leggja ekki til grundavallar að stjórnvöld í Svartfjallalandi séu honum andsnúin, þar sem að framburður hans og eiginkonu hans um það stangist á við það sem fram komi í bréfi Numan Balic. Þrátt fyrir það að kærandi hafi greint frá því í viðtali, að einstaklingar innan landamæravörslunnar þar í landi hafi áreitt hann og mismunað honum en ekki stjórnvöld þá starfi landmæraverðir í umboði stjórnvalda í landinu. Með vísan til framangreinds telur kærandi að ákvörðun í máli hans sé haldin annmörkum og að málsatvik hafi ekki verið nægjanlega upplýst áður en tekin hafi verið ákvörðun.

Þann 8. nóvember 2018 bárust kærunefnd athugasemdir kæranda við erindi kærunefndar sem sent var á talsmann kæranda þann 22. október 2018. Í erindi kærunefndar var kæranda boðið að koma á framfæri athugsemdum við svari Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna við fyrirspurn kærunefndar er laut afstöðu stofnunarinnar til endursendinga á einstaklingum til Kósóvó sem séu af almenningi þar álitnir Serbar og eigi sér þá sögu að hafa barist með serbneska hernum. Í athugasemdum kæranda voru þær málsástæður í greinargerð er lúta að því að hann sé Bosníaki í Kósóvó; hafi barist með serbneska hernum og tekið þátt í pólitísku starfi og aðstæður hans þar vegna þess ítrekaðar. Kærandi eigi sér óvildarmenn sem komi úr mismunandi áttum vegna þátttöku hans á mismunandi sviðum sem geri stöðu hans flóknari og ótryggari í Kósóvó.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað serbnesku vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé serbneskur ríkisborgari. Kærandi kveðst einnig vera kósóvóskur ríkisborgari og hefur lagt fram opinber gögn frá yfirvöldum í Kósóvó er styðja það. Kærunefnd leggur því til grundvallar að kærandi sé ríkisborgari Kósóvó og Serbíu.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í Kósóvó m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

  • Amnesty International Report 2017/18 – Serbia (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
  • Annual Report 2017 – No. 17 (Ombudsperson of the Republic of Kosovo, 30. mars 2018);
  • Commission Staff Working Document: Kosovo 2018 Report (European Commission, 17. apríl 2018);
  • Commission Staff Working Document: Serbia 2018 Report (European Commission, 17. apríl 2018);
  • Country Summary-Kosovo (Human Rights Watch, janúar 2014);
  • EASO Country of Information Report: Kosovo-Country Focus (European Asylum Support Office, 25. nóvember 2016);
  • EASO Country of Origin Information Report – Republic of Serbia Country Focus (European Asylum Support Office, nóvember 2016);
  • EULEX Kosovo (European Union Rule of Law Mission, sótt 20. maí 2018);
  • Freedom in the World- Kosovo (Freedom House, 9. nóvember 2016);
  • Human Rights in Kosovo (Civil Rights Defenders, 27. maí 2016);
  • Kosovo 2016 Crime & Safety Report (U.S. Department of State, 27. janúar 2016);
  • Kosovo 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Kosovo Communities Profiles (OSCE, 2010);
  • Kosovo: Politi og rettssystem (Landinfo, 18. maí 2015);
  • Kosovo: The police force, including its structure; procedures to submit a complaint against police and responsiveness to complaints (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 30. nóvember 2011);
  • Language Compliance in Kosovo Police (Organization for Security and Co-operation in Europe (OSCE), september 2018);
  • Nations in Transit 2018 – Transit (Freedom House, 11. apríl 2018);
  • Report of the Secretary- General on the United Nations Interim Administration Mission in Kosovo (United Nations Security Council, 26. október 2016);
  • Serbia 2017 Human Rights Report (U.S. Department of State, 20. apríl 2018);
  • Serbia: Whether an amnesty exists for people who deserted the military during wartime in Serbia; If so, whether it applies to all deserters (Canada: Immigration and Refugee Board of Canada, 17. desember 2008);
  • The World Factbook: Kosovo (Council of Europe, 29. júní 2017);
  • World Directory of Minorities and Indigenous Peoples – Kosovo (Minority Rights Group International, mars 2018) og
  • World Report 2017 – Serbia/Kosovo (Human Rights Watch, 12. janúar 2017).

Kósóvó er lýðræðisríki með um 1,9 milljónir íbúa. Kósóvó lýsti yfir sjálfstæði þann 17. febrúar 2008 og hafa yfir 100 ríki viðurkennt sjálfstæði þess. Samkvæmt stjórnarskrá landsins hafa ýmsir alþjóðlegir samningar lagagildi í Kósóvó og eru hluti af löggjöf landsins, þar á meðal mannréttindasáttmáli Evrópu. Kósóvó er á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki.

Í ofangreindum gögnum kemur fram að í Kósóvó sé starfrækt verkefni Evrópusambandsins til stuðnings réttarríkinu (EULEX). Verkefnið í ríkinu sé eitt það umfangsmesta á vegum sambandsins á sviði öryggis- og varnamála. Markmið verkefnisins sé að aðstoða kósóvósk stjórnvöld á sviði löggjafar og þá sérstaklega varðandi löggæslu-, dóms- og tollakerfið. Á undanförnum árum hafi réttarkerfið í Kósóvó undirgengist lagalegar og formlegar breytingar. Þá njóti lögregluyfirvöld trausts almennings í landinu en þó aðallega meðal albanskra íbúa ríkisins. Þá sé hægt að leggja fram kvörtun vegna brota lögregluþjóna í starfi til Umboðsmanns Kósóvó og sérstakrar stofnunar sem hafi eftirlit með störfum lögreglu. Stjórnvöld hafi tekið skref í áttina gegn refsileysi embættismanna með því að sækja til saka og refsa embættismönnum sem hafi gerst uppvísir að því að misnota stjórnkerfið. Þá hafi skipulögð glæpastarfsemi og spilling verið vandamál í Kósóvó en gripið hafi verið til aðgerða til að sporna við þessum vandamálum m.a. með aðstoð Evrópuráðsins og Evrópusambandsins.

Samkvæmt ofangreindum gögnum er nokkuð Kósóvó fjölþjóðlegt samfélag. Meirihluti landsmanna eru Albanir en minnihlutahópar eru m.a. Serbar, sem eru stærsti þjóðernisminnihlutahópurinn, Bosníakar, Róma-fólk, Ashkali-fólk, Egyptar og Tyrkir. Standi þeir einstaklingar sem tilheyri þjóðernisminnihluta frammi fyrir margvíslegri mismunun í Kósóvó, þar á meðal á atvinnumarkaði, í menntakerfinu, félagslegri þjónustu og fleira. Samkvæmt skýrslu umboðsmannsins í Kósóvó kemur fram að frá stofnun embættisins hafi verið lögð sérstök áhersla á að bæta stöðu mannréttinda minnihlutahópa í ríkinu. Til að mynda hafi á árinu 2016 verið ráðist í að kynna mannréttindi þessara hópa og hafi sú vinna m.a. farið fram í gegnum fjölmiðla og á fundum með fulltrúum hópanna. Þá hafi frjáls félagasamtök sem berjist fyrir réttindum minnihlutahópa lagt baráttunni lið með háum fjárframlögunum. Þeir borgarar sem telji sig verða fyrir mismunun eða að brotið hafi verið á réttindum sínum á annan hátt geti lagt fram kvörtun til umboðsmannsins en hann sé með aðsetur í átta borgum en auk þess sé hægt að senda inn kvörtun í gegnum bréfpóst, tölvupóst og síma. Þá sé ávallt hægt að hringja endurgjaldslaust í aðalskrifstofu embættisins. Þrátt fyrir að albanska og serbneska séu bæði hin opinberu tungumál í Kósóvó þá sé það enn vandamál að starfsmenn í lög- og réttargæslukerfinu séu margir hverjir einungis tyngdir á albönsku. Einnig sé það jafnframt vandamál að þrátt fyrir að gögn séu til á serbnesku þá séu þau ekki aðgengileg á vefsíðum lögregluembættanna á því tungumáli. Fram kemur í nýlegri skýrslu Organization for Security and Co-operation in Europe að aðgengi sé að túlkum þegar kemur að lög- og réttargæslukerfinu, það sé hins vegar mjög fámenn starfsstétt og hefur stofnunin hvatt kósóvósk stjórnvöld til að fjölga túlkum í þeirri stétt.

Samkvæmt ofangreindum gögnum er Serbía lýðræðisríki með rúmlega sjö milljónir íbúa. Ríkið gerðist aðili að flóttamannasamningi Sameinuðu þjóðanna, alþjóðasamningi um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, samningi Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þann 12. mars 2001. Þá gerðist ríkið aðili að Evrópuráðinu árið 2003 og fullgilti mannréttindasáttmála Evrópu ári síðar. Serbía sótti um aðild að Evrópusambandinu árið 2009 og fékk formlega stöðu umsóknarríkis í mars 2012. Þá er Serbía á lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki. Í ljósi alls framangreinds má ætla að grundvallarmannréttindi séu almennt talin virt af yfirvöldum í landinu.

Í gögnunum kemur fram að í Serbíu hafi minnihlutahópar af öðrum þjóðernisuppruna upplifað neikvætt viðhorf í sinn garð og að þeir hópar hafi orðið fyrir mismunun á atvinnu- og húsnæðismarkaði. Í gögnunum kemur fram að í Serbíu sé starfrækt ráð sem gæti hagsmuna minnihlutahópa af öðrum þjóðernum en starfsemi þeirra varði m.a. menntun, menningu og tungumál þeirra hópa. Þá hafi ríkisstjórnin tekið skref til að sporna við mismunun gegn minnihlutahópum og að sjálfstæð stofnun styðji við réttindi minnihlutahópa.

Í skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins kemur fram að refsileysi og spilling innan lögreglunnar hafi verið vandamál en félagasamtök hafi þó bent á að gæði innra eftirlits með lögreglu hafi batnað með tilkomu nýrra sakamálalaga. Frá upphafi árs 2016 og til loka október s.á. hafi 147 ákærur verið gefnar út á hendur lögreglumönnum. Þá reki serbneska innanríkisráðuneytið tilkynningarsíma þar sem hægt sé að tilkynna spillingu innan lögreglunnar. Enn fremur hafi yfirvöld, í samstarfi við alþjóðleg samtök, veitt fjármunum í fjölda námskeiða til að takast á við spillingu innan refsivörslukerfisins. Þá kveði stjórnarskrá Serbíu á um sjálfstæði dómsvaldsins en serbneskir dómstólar séu þó enn viðkvæmir fyrir spillingu og pólitískum áhrifum.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a.   ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c.   aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hann verði fyrir ofsóknum og mismunun í heimaríki sínu, Kósóvó, vegna þess að hann tilheyri Bosníak-þjóðarbrotinu og vegna þess að hann sé álitinn vera Serbi þar sem hann hafi barist með serbneska hernum og tali serbnesku. Kærandi telur að lögreglan og önnur yfirvöld í Kósóvó geti ekki verndað hann. Þá hefur kærandi borið fyrir sig að hann verði fyrir mismunun og ofsóknum í Serbíu vegna þess að hann hafi gerst liðhlaupi úr serbneska hernum í Kósóvó-stríðinu 1998 til 1999 og hlotið fangelsisdóm fyrir það.

Í máli kæranda liggur fyrir að Útlendingastofnun hafi með ákvörðun, dags. 23. janúar 2018, synjað honum um alþjóðlega vernd ásamt því að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar og með úrskurði kveðnum upp þann 17. maí 2018 sendi kærunefndin mál hans til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. Var það m.a. niðurstaða kærunefndar í málinu að í ljósi þess að kærandi hafi framvísað serbnesku vegabréfi, og væri þ.a.l. einnig með serbneskan ríkisborgararétt, að rannsókn Útlendingastofnunar hafi einnig átt að beinast að aðstæðum hans í Serbíu ásamt því að rannsaka betur þann þátt er laut að þeirri staðhæfingu kæranda að hann væri kósóvóskur ríkisborgari og aðstæðum hans þar í landi, m.a. sem fyrrverandi liðsmaður serbneska hersins. Í ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2018, kemur fram að það sé mat stofnunarinnar að gögn styðji það að kærandi sé ríkisborgari Kósóvó sem og að hann sé með serbneskt ríkisfang á grundvelli vegabréfs sem hann sé handhafi að. Útlendingastofnun hafi því litið til aðstæðna hans í Kósóvó og Serbíu.

Þá kom m.a. fram í ákvörðun Útlendingastofnunar að stofnuninni hafi ekki tekist þrátt fyrir ítarlega leit að finna upplýsingar um það hvort aðstæður fyrrum hermanna serbneska hersins væru frábrugðnar aðstæðum Serba almennt í Kósóvó. Þó væru ekki ástæður til að draga í efa þann hluta frásagnar kæranda að hann væri Bosníaki og að hann yrði fyrir áreiti vegna þess sem og vegna þess að hann væri álitinn Serbi. Í ljósi heimilda um aðstæður í Kósóvó yrði hins vegar ekki fallist á þá staðhæfingu kæranda að lögreglan gæti ekki eða vildi ekki veita honum aðstoð. Ljóst væri að kærandi gæti leitað lagalegra úrræða teldi hann að lögreglan sinnti ekki máli hans með viðunandi hætti.

Þrátt fyrir ofangreint mat Útlendingastofnunar taldi kærunefnd að vegna skorts á nægilega nákvæmum heimildum um aðstæður einstaklinga í sambærilegri stöðu og kærandi væri ástæða til að kanna afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna til endursendinga á einstaklingum með tengsl við serbneska herinn sem hafi tekið þátt í Kósóvó-stríðinu. Þann 21. september sl. bárust svör við fyrirspurn kærunefndar frá Flóttamannastofnuninni. Fram kom í svörum stofnunarinnar að samfélög á mörgum svæðum í Kósóvó séu treg til að taka við fyrrum nágrönnum sínum og einstaklingar sem hafi tekið virkan þátt í átökunum séu gjarnan óvelkomnir til baka. Hins vegar sé öryggisástandið í Kósóvó almennt talið öruggt þó svo enn komi fyrir að minnihlutahópar verði fyrir áreiti. Þá hafi stofnanir þar í landi undanfarið sýnt meiri vilja í verki að taka þær ásakanir alvarlega er lúta að þátttöku í glæpum sem hafi verið framdir í framangreindum átökum, svo sem með saksóknum. Kæranda var gefið tækifæri til að taka afstöðu til þeirra upplýsinga sem bárust frá Flóttamannastofnuninni. Í svari kæranda, dags. 8. nóvember 2018, kom fram að hann teldi afstöðu Flóttamannastofnunar styðja kröfu sína. Þá lýsti kærandi jafnframt aðstæðum sínum í Kósóvó sem Bosníaki sem hafi barist með serbneska hernum og jafnframt tekið þátt í pólitísku starfi þar í landi.

Með vísan til ofangreindra gagna um aðstæður í Kósóvó sem og svars Flóttamannastofnunar er það hins vegar mat kærunefndar að þeir einstaklingar sem tilheyra minnihlutahópi Bosníaka og hafi verið í serbneska hernum á árunum 1998-1999 og tekið þátt í hernaðaraðgerðum í Kósóvó verði almennt ekki fyrir ofsóknum í Kósóvó. Kærunefnd dregur ekki í efa frásögn kæranda að hann hafi orðið fyrir áreiti og mismunun af hálfu nágranna og annarra aðila í Kósóvó vegna þess að hann sé álitinn Serbi enda styðji heimildir í ofangreindum skýrslum þá frásögn. Kærunefnd telur engu að síður að í ljósi gagna málsins, þ.m.t. afstöðu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, að þær aðstæður sem bíða kæranda í Kósóvó nái ekki því alvarleikastigi að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. 

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að hafa sætt ofsóknum eða að hann óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í Kósóvó. Þá benda gögn málsins ekki til þess að slíkar ofsóknir hafi átt sér stað eða að kærandi eigi þær á hættu. Er það því mat kærunefndar að kósóvósk stjórnvöld geti veitt kæranda viðeigandi vernd beri hann sig eftir því. Þá geti kærandi leitað til æðri stjórnvalda vegna afstöðu lögreglu en íbúar Kósóvó hafa kost á því að leggja inn kvartanir vegna starfa lögreglunnar til sérstakrar stofnunar sem hefur eftirlit með störfum lögreglu og umboðsmanns Kósóvó. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur tekið til skoðunar er um að ræða raunhæft og virkt úrræði. Kærunefnd telur því að ekki hafi verið sýnt fram á að stjórnvöld skorti vilja eða getu til að veita kæranda vernd gegn því áreiti sem hann kann að eiga á hættu, m.a. með því að ákæra og refsa fyrir slíkar athafnir, sbr. 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi ber eins og áður segir fyrir sig mismunun vegna þess að hann tilheyri minnihlutahópi Bosníaka í Kósóvó. Samkvæmt þeim gögnum sem kærunefnd hefur yfirfarið verður bosníski minnihlutinn fyrir einhverri mismunun í Kósóvó en með aðstoð alþjóðasamfélagsins hafi stjórnvöld í Kósóvó unnið skipulega að því að bæta stöðu minnihlutahópa í landinu, þ.m.t. Bosníaka, og hafi talsverður árangur náðst. Þó svo að Bosníakar verði mögulega enn fyrir mismunun í landinu er það mat kærunefndar að hún sé ekki af því alvarleikastigi að falla undir skilgreiningarviðmið ofsókna, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur eins og fram hefur komið borið fyrir sig að fangelsisdómur sem hann hafi hlotið í Serbíu vegna liðhlaups úr hernum árið 1999 jafngildi ofsóknum og að hann verði settur í fangelsi við komuna til Serbíu. Samkvæmt ofangreindum gögnum voru liðhlaupar úr serbneska hernum náðaðir með lögum árið 2001. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn er styðja staðhæfingu hans um að Bosníakar og einstaklingar frá Kósóvó séu undanþegnir þessum lögum. Þá má sjá af stimplum í vegabréfi kæranda að hann hafi ferðast að minnsta kosti tvisvar til Serbíu á undanförnum árum auk þess sem að hann hafi fengið endurnýjað eða útgefið vegabréfið af serbneska innanríkisráðuneytinu árið 2009. Með vísan til framangreinds verður því ekki lagt til grundvallar í málinu að kærandi eigi yfir höfði sér fangelsisrefsingu fari hann aftur til Serbíu. Þá hefur kærandi ekki lagt fram önnur gögn en framburð sinn til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að hann geti ekki fengið vegabréf sitt endurnýjað. Verður sá þáttur í frásögn kæranda því ekki lagður til grundvallar í málinu.

Með vísan til upplýsinga um Serbíu er það mat kærunefndar að ekki hafi verið sýnt fram á að kærandi hafi sætt eða eigi á hættu ofsóknir af hálfu stjórnvalda þar í landi sem hafa eða gætu náð því alvarleikastigi sem 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga mælir fyrir um.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki á rökstuddan hátt leitt líkur að því að hann hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í Kósóvó eða Serbíu í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 38. gr. laganna.

Með vísan til alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Við mat á hvort aðstæður kæranda séu slíkar að þær eigi undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga ber að líta til 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindadómstóll Evrópu hefur fjallað um það mat sem þarf að fara fram þegar metið er hvort kærandi sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð sem falli undir 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu sem bannar pyndingar og ómannlega eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Hefur dómstóllinn sagt að 3. gr. sáttmálans geti átt við þegar hættan stafar frá einstaklingum eða hópi fólks sem ekki séu fulltrúar stjórnvalda. Kærandi verður þó að geta sýnt fram á að gildar ástæður séu til að ætla að um raunverulega hættu sé að ræða og að stjórnvöld í ríkinu séu ekki í stakk búin til að veita viðeigandi vernd. Ekki er nóg að aðeins sé um að ræða möguleika á illri meðferð og verður frásögn kæranda að fá stuðning í öðrum gögnum (sjá t.d. dóma Mannréttindadómstóls Evrópu í máli NA gegn Bretlandi (mál nr. 25904/07) frá 7. júlí 2008 og H.L.R. gegn Frakklandi (mál nr. 24573/94) frá 29. apríl 1997).

Í ljósi þess sem að framan er rakið og þeirra gagna sem liggja fyrir um heimaríki kæranda telur kærunefndin að aðstæður hans þar séu ekki þannig að þær falli undir ákvæði 2. mgr. 37. gr. laganna. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi uppfylli heldur ekki skilyrði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á kærandi ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga.

Dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 6. mgr. 37. gr. laga um útlendinga skal stjórnvald sem kemst að því að ákvæði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laganna eigi ekki við um útlending að eigin frumkvæði taka til skoðunar hvort veita eigi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. sömu laga. Þrátt fyrir að orðalag 1. mgr. 74. gr. kveði ekki með skýrum hætti á um veitingu dvalarleyfis má skilja af athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga nr. 80/2016, fyrirsögn greinarinnar og af 6. mgr. 37. gr. laganna að það hafi þó verið ætlunin með ákvæðinu. Kærunefnd telur því rétt að túlka ákvæðið sem heimild til veitingar dvalarleyfis þegar skilyrði þess eru uppfyllt.

Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga má líta til mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki eða í landi sem honum yrði vísað til. Kærunefnd telur, með vísan til orðalags ákvæðisins um „ríka þörf fyrir vernd“ auk lögskýringargagna sem fylgdu greininni, að dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga verði ekki veitt nema aðstæður, bæði almennar og sérstakar m.t.t. heilsufars og félagslegra þátta, auk atvika sem þar er vísað til, nái ákveðnu alvarleikastigi þegar málið er virt í heild.

Kærandi hefur greint frá erfiðum aðstæðum í heimaríki vegna uppruna síns. Kærandi kvaðst ekki geta fengið aðstoð yfirvalda í heimaríki sínu vegna þeirra ofsókna sem hann verði fyrir þar. Í athugasemdum við frumvarp til laga um útlendinga kemur fram að ákvæði 1. mgr. 74. gr. vísi einnig til alvarlegra aðstæðna í heimaríki og væri þar oft um að ræða viðvarandi mannréttindabrot í ríkinu eða þá aðstöðu að yfirvöld veiti ekki þegnum sínum vernd gegn ofbeldisbrotum eða glæpum. Með vísan til umfjöllunar um aðstæður í heimaríki telur kærunefnd að aðstæður kæranda séu ekki slíkar að beiting ákvæðisins teljist heimil. 

Þá hefur kærandi einnig borið fyrir sig að hann geti ekki búið í heimaríki eiginkonu sinnar, Svartfjallalandi, þar sem stjórnvöld í landinu vilji ekki veita honum dvalarleyfi þar sem hann hafi stundað ólöglega atvinnu þar. Þá hafi hann fengið brottvísun og endurkomubann til Svartfjallalands. Kærandi hefur engin gögn frá svartfellskum stjórnvöldum lagt til stuðnings um að hann hafi fengið brottvísun og endurkomubann til Svartfjallalands og þá er ákvörðun um það ekki skráð í vegabréf hans. Þá hefur kærandi ekki lagt fram gögn um að hann geti ekki fengið dvalarleyfi í Svartfjallalandi. Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekkert bendi til annars en að kærandi geti sameinast eiginkonu sinni í heimaríki hennar, Svartfjallalandi. Þá verður ekki annað ráðið en að eiginkona kæranda geti sameinast kæranda í heimaríkjum hans, Serbíu eða Kósóvó.

Kærandi kom hingað til lands ásamt eiginkonu sinni. Gögn málsins bera ekki annað með sér en að kærandi sé við góða andlega og líkamlega heilsu. Þegar upplýsingar um heimaríki kæranda, Kósóvó og Serbíu, og gögn málsins eru virt í heild er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki sýnt fram á aðstæður sem ná því alvarleikastigi að hann teljist hafa ríka þörf á vernd líkt og kveðið er á um í 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Því er fallist á það með Útlendingastofnun að aðstæður kæranda í heimaríki séu ekki með þeim hætti að veita beri kæranda dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Bann við endursendingu skv. 42. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er ekki heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan einstakling til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar er einnig óheimilt að senda útlending til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Með vísan til umfjöllunar að framan um heimaríki kæranda telur kærunefnd að þær aðstæður sem ákvæðið tekur til ekki eiga við í máli kæranda. Kærunefnd telur því að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga standi ekki í vegi fyrir endursendingu kæranda þangað.

Frávísun og frestur til að yfirgefa landið

Kærandi kom hingað til lands 9. desember 2017 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um vernd og dvalarleyfi hér á landi verið synjað og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli d-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi er við ágæta heilsu og kemur frá öruggu upprunaríki. Að mati kærunefndar og með vísan til 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga teljast 7 dagar hæfilegur frestur til að yfirgefa landið. 

Athygli kæranda er vakin á því að ef hann yfirgefur ekki landið innan frests er heimilt að brottvísa honum. Brottvísun felur í sér bann við komu til landsins síðar og skal endurkomubann að jafnaði ekki gilda skemur en tvö ár, sbr. a-lið 2. mgr. 98. gr. og 2. mgr. 101. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að staðfesta ákvörðun Útlendingastofnunar.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum eftir birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ákvörðunarinnar ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest. Lagt er fyrir kæranda að hverfa af landi brott. Kæranda er veittur 7 daga frestur til að yfirgefa landið sjálfviljugur. 

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed. The appellant is requested to leave the country. The appellant has 7 days to leave the country voluntarily.

 

 

 

Þorbjörg Inga Jónsdóttir                                                                              Hilmar Magnússon

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum