Hoppa yfir valmynd
29. september 2011 Innviðaráðuneytið

Eftirlitsnefnd kynnir fjármál sveitarfélaga

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur unnið upplýsingar úr rafrænum skilum sveitarfélaga á ársreikningum þeirra fyrir árið 2010. Þar kemur fram að heildarskuldir og skuldbindingar A-hluta reikningsskilanna hafa lækkað úr 154% af heildartekjum árið 2009 í 146% á árinu 2010, eða úr 262 milljörðum króna í 254 milljarða.  Heildarskuldir A- og B-hluta, þ.e. samstæðu sveitarfélaga, hafa lækkað á sama tíma úr 269% af heildartekjum í 255%, eða úr 599 milljörðum króna í 586 milljarða.

Í bréfi sem eftirlitsnefndin sendi sveitarstjórnum landsins 21. september sl. kemur m.a. fram að samkvæmt ársreikningum sveitarfélaganna árið 2010 eru 20 sveitarfélög með skuldir og skuldbindingar umfram 150% af heildartekjum í A-hluta reikningsskilanna, en 29 sveitarfélög þegar litið er á bæði A- og B-hluta. Í bréfinu er einnig  að finna yfirlit um fjármál einstakra sveitarfélaga og samanburð á milli landssvæða.

Eftirlitsnefndin kynnti með bréfi í júní 2010 kjörnum fulltrúum í sveitarfélögum hlutverk nefndarinnar, viðmið hennar og þær lykiltölur sem hún hefur sett fram við mat á rekstrarafkomu, skuldum og skuldbindingum. Vilji nefndarinnar er að halda áfram samskiptum sínum við kjörna fulltrúa í sveitarstjórnum með það að markmiði að auka upplýsingar, auðvelda samanburð á rekstrarlegum og fjárhagslegum stærðum milli sveitarfélaga og skapa þannig góðan grundvöll fyrir umræðu um fjármál þeirra. Í nýjum sveitarstjórnarlögum er m.a. kveðið á um tiltekið skuldaþak með hliðstæðum hætti og eftirlitsnefndin hefur haft til viðmiðunar í störfum sínum.

Í eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga eiga sæti Ólafur Nilsson, sem er formaður, Þórður Skúlason og Hafdís Karlsdóttir.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum