Hoppa yfir valmynd
10. júní 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mál nr. 12/2020 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 12/2020

Miðvikudaginn 10. júní 2020

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Anna Rut Kristjánsdóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. janúar 2020, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 7. desember 2018 um upphafstíma barnalífeyris.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 30. október 2018, sótti kærandi um barnalífeyri með barni sínu. Með bréfi, dags. 7. desember 2018, tilkynnti Tryggingastofnun ríkisins að umsókn hans um barnalífeyri hefði verið samþykkt frá 1. nóvember 2016 til 31. október 2022. Eftir að kæra barst úrskurðarnefndinni óskaði kærandi með tölvupósti, dags. 15. janúar 2020, eftir endurupptöku málsins við Tryggingastofnun. Með tölvupósti sama dag hafnaði stofnunin þeirri beiðni.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 7. janúar 2020. Með bréfi, dags. 29. janúar 2020, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 27. febrúar 2020, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 28. febrúar 2020. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi geri kröfu um að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. desember 2019, um upphafstíma greiðslna barnalífeyris verði breytt. Í kröfu og rökstuðningi kæranda segir:

„Mér var ekki tjáð að ég gæti fengið [barnalífeyri] og krefst ég þess að fá það sem uppá vantar.“

Í kæru vísaði kærandi enn fremur til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 9790/2018.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun stofnunarinnar um upphafstíma greiðslna barnalífeyris.

Kærandi hafi sótt um barnalífeyri með barni sínu með umsókn, dags. 30. október 2018. Í umsókn hafi komið fram að kærandi og kærasta hans byggju í X og ættu barnið saman. Tryggingastofnun hafi með bréfi, dags. 23. nóvember 2018, óskað eftir fæðingarvottorði barnsins þar sem ekki hafi verið ljóst hvort kærandi ætti barnið og hafi vottorðið borist 28. nóvember 2018. Með bréfi, dags. 7. desember 2018, hafi Tryggingastofnun samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri með syni hans frá 1. nóvember 2016, eða tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist.

Kærandi hafi sent Tryggingastofnun tölvupóst þann 15. janúar 2020 og óskað eftir barnalífeyri frá fæðingu sonar síns með vísan til álits umboðsmanns Alþingis. Sagðist kærandi hafa frétt af barnalífeyri frá kunningja en ekki frá Tryggingastofnun. Kæranda hafi verið svarað með tölvupósti sama dag og vísað til þess að stofnuninni væri einungis heimilt að greiða barnalífeyri tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn bærist, sbr. 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Þá hafi komið fram að stofnunin hafi ekki haft upplýsingar um það að kærandi ætti barn þar sem barnið hefði aldrei verið skráð barn kæranda í Þjóðskrá.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé barnalífeyrir greiddur með börnum yngri en 18 ára, sé annað hvort foreldra þess látið eða örorkulífeyrisþegi, hafi annað hvort foreldra þess eða barnið sjálft búið hér á landi að minnsta kosti þrjú síðustu árin áður en umsókn hafi verið lögð fram.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar sé umsækjanda rétt og skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar séu svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum. Þá sé skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur og greiðslur.

Í 52. gr. laga um almannatryggingar sé kveðið á um að sækja skuli um allar bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og að umsóknir skuli vera á þar til gerðum eyðublöðum. Þá komi fram í 2. mgr. 53. gr. sömu laga að bætur skuli aldrei ákvarðaðar lengra aftur í tímann en tvö ár frá því að umsókn hafi borist.

Kærandi hafi verið með gilt örorkumat síðan 1. ágúst 2001. Kærandi hafi sótt um barnalífeyri með barni sínu með rafrænni umsókn, dags. 30. október 2018. Tryggingastofnun hafi samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist, eða frá 1. nóvember 2016, eftir að fæðingarvottorð barnsins hafði borist sem hafi sýnt fram á að barnið væri sonur kæranda. Kærufrestur vegna ákvörðunarinnar sé löngu liðinn, sbr. 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007.

Með tölvupósti kæranda 15. janúar 2020 sé hægt að líta svo á að hann óski eftir endurupptöku á framangreindri ákvörðun. Í tölvupóstinum komi fram að hann hafi ekki frétt af rétti til barnalífeyris frá Tryggingastofnun heldur kunningja sínum og að með vísan til álits umboðsmanns Alþingis eigi hann rétt á að fá hann greiddan lengra aftur í tímann en tvö ár.

Í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé fjallað um endurupptöku mála. Þar segi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

  1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða
  2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár sé liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Eins og fram komi í svartölvupósti Tryggingastofnunar til kæranda hafi stofnunin ekki haft upplýsingar um að hann ætti barn þar sem barnið hafi hvorki verið skráð barn kæranda í Þjóðskrá né hjá honum. Af þeim sökum hafi kærandi verið beðinn um að framvísa fæðingarvottorði barnsins þegar hann hafi sótt um barnalífeyri í október 2018 til að sýna fram á að hann ætti umrætt barn. Tryggingastofnun hafi því ekki getað sinnt upplýsingaskyldu sinni varðandi rétt kæranda til barnalífeyris því að stofnunin hafi ekki haft neinar upplýsingar um að kærandi ætti barn.

Þá séu réttindi og skilyrði greiðslna barnalífeyris bundin í lögum og lagatúlkun. Í 1. mgr. 52. gr. og 2. mgr. 53. gr. almannatryggingalaga komi fram að það þurfi að sækja um bætur skriflega og að ekki sé heimilt að greiða lengra aftur í tímann en tvö ár. Þá segi í 39. gr. laganna að umsækjanda sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt. Sú skylda sé því lögð á bótaþega að hann leiti eftir rétti sínum.

Meira en ár sé liðið frá þeirri ákvörðun Tryggingastofnunar að greiða kæranda barnalífeyri tvö ár aftur í tímann frá því að umsókn hafi borist, eins og lög leyfi, og sem kærandi hafi óskað endurupptöku á í tölvupósti sínum. Þá verði ekki séð með vísan til alls ofangreinds að veigamiklar ástæður mæli með endurupptöku málsins. Því standi ákvörðun Tryggingastofnunar um greiðslu barnalífeyris til kæranda frá 1. nóvember 2016.

IV.  Niðurstaða

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að mál þetta lúti að tveimur ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins. Annars vegar ákvörðun stofnunarinnar, dags. 7. desember 2018, þar sem umsókn kæranda um barnalífeyri var samþykkt frá 1. nóvember 2016. Hins vegar ákvörðun Tryggingastofnunar frá 15. janúar 2020 um að synja kæranda um endurupptöku fyrrgreindrar ákvörðunar frá 7. desember 2018.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sbr. 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála, skal kæra til úrskurðarnefndar velferðarmála vera skrifleg og skal hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

Fyrir liggur að í hinni kærðu ákvörðun frá 7. desember 2018 var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 7. janúar 2020, en þá var kærufrestur samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um almannatryggingar löngu liðinn.

Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

  1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða
  2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Samkvæmt gögnum málsins leið meira en ár frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins 7. desember 2018 og þar til kæra barst úrskurðarnefndinni þann 7. janúar 2020. Þegar af þeirri ástæðu skal kæru ekki sinnt, sbr. 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Kæru á ákvörðun Tryggingastofnunar frá 7. desember 2018 er því vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem kærufrestur er liðinn.

Hvað varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um endurupptöku þá er í 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kveðið á um rétt aðila máls til þess að fá mál sitt tekið til meðferðar á ný. Ákvæði 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er svohljóðandi:

„Eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt á aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef:

1. ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða

2. íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eftir að þrír mánuðir eru liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verður beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður þó ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.“

Endurupptökubeiðni kæranda lýtur að ofangreindri ákvörðun Tryggingastofnunar frá 7. desember 2018 varðandi umsókn kæranda um barnalífeyri sem samþykkt var frá 1. nóvember 2016. Af gögnum málsins er ljóst að meira en ár leið frá því að ákvörðun Tryggingastofnunar var tilkynnt kæranda þar til óskað var eftir endurupptöku og því þurfa veigamiklar ástæður að vera fyrir hendi svo að unnt sé að endurupptaka málið, sbr. 2. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 7. desember 2018, var samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri tvö ár aftur í tímann í samræmi við 4. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar. Ljóst er að kærandi gerði engar athugasemdir við þá ákvörðun Tryggingastofnunar fyrr en 7. janúar 2020 þegar hann óskaði eftir barnalífeyrisgreiðslum lengra en tvö ár aftur í tímann. Þá liggur fyrir að ágreiningur vegna greiðslutímabils varðar tímabil sem er löngu liðið. Í ljósi framangreinds er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki séu veigamiklar ástæður sem mæla með því að endurupptaka ákvörðun Tryggingastofnunar frá 7. desember 2018.

Synjun Tryggingastofnunar á beiðni kæranda um endurupptöku ákvörðunar stofnunarinnar frá 7. desember 2018 er því staðfest.

 


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Þeim hluta kæru A, sem varðar ákvörðun Tryggingastofnunar frá 7. desember 2018 er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála. Þá er synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. janúar 2020 um endurupptöku á ákvörðun stofnunarinnar frá 7. desember 2018, staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum