Hoppa yfir valmynd
17. október 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hrein orkuskipti rædd á Hringborði Norðurslóða

Guðlaugur Þór tók þátt í málstofu um „Þriðja pólinn“. - myndHugi Ólafsson

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra átti fund með Hákoni Noregsprins, sem kom hingað til lands í tilefni af þingi Hringborðs Norðurslóða. Ráðherra tók einnig þátt í tveimur viðburðum á þinginu og átti tvíhliða fundi, meðal annars með sendinefnd frá skoska þinginu. Loftslagsmál og hrein orkuskipti voru meginefni flestra þessara funda og viðburða og óhætt að segja að mikill áhugi sé á reynslu og áformum Íslands í þeim efnum.

Fundur með Hákoni Noregsprins

Guðlaugur Þór átti ásamt fleirum fund með Hákoni Noregsprins í bústað norska sendiherrans í Reykjavík tilefni af heimsókn Hákons og norskrar sendinefndar á þing Hringborðs Norðurslóða. Ráðherra hélt stutt ávarp við það tilefni og ræddi m.a. rafbílavæðingu og orkumál við Noregsprins.

Í máli sínu beindi Guðlaugur Þór athygli að því að Noregur og Ísland eru þær þjóðir heims sem eru hvað lengst komnar varðandi rafbílavæðingu. Er Noregur í fyrsta sæti og Ísland öðru. Sagði ráðherra metnað og samkeppni geta verið af hinu góða þegar komi að aðgerðum gegn loftslagsbreytingum, enn mikilvægara sé þó að eiga í góðu samstarfi um þessi mál.

„Ríkisstjórnir og atvinnulíf þurfa að samræma sig í þessum efnum og það þurfa líka fræðasamfélag og almenningur að gera. Þjóðir heims þurfa líka að eiga í samstarfi sín á milli,“ sagði Guðlaugur Þór og velti því upp hvort að Ísland og Noregur geti aukið samstarf sitt hvað varðar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og græn orkuskipti, ekki síst varðandi orkuskipti á hafi. „Þessar tvær nágrannaþjóðir geta deilt lausnum með hvor annarri og aukið á samvinnu sína á þessum vettvangi.“

Orkumál í borgum og „Þriðji póllinn“

Guðlaugur Þór tók þátt í málstofu um „Þriðja pólinn“ í aðalsal þings Hringborðs Norðurslóða. Í opnunarávarpi á málstofunni sagði ráðherra að margt væri líkt með Norðurskautssvæðinu og „Þriðja pólnum“, eins og háfjallasvæði Asíu er oft nefnt, þar sem Himalajafjöll og fleiri fjallgarðar liggja. Jöklar þriðja pólsins væru á undanhaldi vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum, eins og jöklar og ís um allan heim. Slíkt hefði mikil áhrif, ekki bara á háfjallasvæðunum heldur ekki síður í Kína og Indlandi og öðrum fjölmennum og þéttbýlum ríkjum sem byggðu vatnsbúskap sinn og landbúnað á ám sem eiga uppruna sinn í háfjöllunum.

Nauðsynlegt væri að ríkin á og við Þriðja pólinn efldu með sér samvinnu á sviði vísinda og aðlögunar að breytingum. Samvinna á Norðurslóðum hefði hafist með vísindalegri samvinnu, sem hefði leitt í ljós að umfang vanda vegna loftslagsbreytinga og mengunar væri meiri en talið hefði verið. Vísindasamstarf hefði svo greitt fyrir auknu samtali og samvinnu á öðrum sviðum á milli ríkisstjórna og annarra á Norðurslóðum. Reynslan á Norðurslóðum gæti reynst vel í því samtali sem nú væri í gangi varðandi Þriðja pólinn.

Á málstofu um hitun og kælingu í borgum rifjaði Guðlaugur Þór upp sögu Íslands varðandi jarðhitavæðingu. Það hefði ekki verið sjálfsagt að veðja á jarðhitann á sínum tíma; það hefði verið umdeilt hvaða leið ætti að fara í orkumálum og mun meiri óvissa um nýtingu jarðhita en kola og gass og minni tækniþekking. Íslendingar hefðu gert rétt og byggju nú við örugga og ódýra orku á tímum orkukreppu í Evrópu og víðar. Hreint loft, sundlaugar og gróðurhús væru svo aukaleg gæði af jarðhitavæðingunni, að ógleymdum loftslagsávinningnum. Á málstofunni kom fram að gríðarlega orku þarf til að hita upp borgir og sinna loftkælingu. Jarðvarmi væri ein lausn á þessum stóra vanda og væru gríðarlegir möguleikar þar fólgnir.

Ræddi orkumál við skoska þingsendinefnd

Guðlaugur Þór fundaði einnig með skoskri þingsendinefnd á þingi Hringborðsins. Baráttan gegn loftslagsbreytingum og markmið Íslands um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040 voru meðal umræðuefna. Ræddu ráðherra og þingmenn aukinheldur um orkukreppuna sem Evrópa stendur nú frammi fyrir og gjörólíka stöðu Íslands í þeim efnum. Rætt var um mögulegt samstarf m.a. varðandi vindorku, jarðhita og vernd og endurheimt votlendis. Skotar deildu reynslu sinni af nýtingu vindorku, sem er í miklum vexti þar. Þar kom m.a. fram að Skotar telja mikilvægt að tryggja að ávinningur af nýtingu vindorku dreifist vel og ekki síst til byggða þar sem vindorkuver starfa.  

  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra og Hákon krónprins Noregs. - mynd
  • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum