Hoppa yfir valmynd
12. október 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisráðherrar ræddu plastmengun, loftslagsbreytingar og líffræðilegan fjölbreytileika á Norðurslóðum

Frá umræðum umhverfisráðherra Norðurskautsríkjanna í dag  - mynd
Fundi umhverfisráðherra Norðurskautsríkjanna lauk í dag með umræðum um samvinnu ríkjanna í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, vörnum gegn mengun og vernd líffræðilegs fjölbreytileika. Fundurinn fór fram í Rovaniemi, höfuðstað Finnlands í Lapplandi.

Í Norðurskautsráðinu sitja auk aðildarríkjanna átta fulltrúar sex frumbyggjasamtaka á svæðinu. Öll lýstu þau loftslagsbreytingum sem þegar hafa orðið í þeirra nánasta umhverfi, enda hitnar Norðurskautið tvöfalt hraðar en jörðin í heild sinni.

„Það var áhrifaríkt að heyra fulltrúa frumbyggjasamtakanna lýsa þeim áhrifum sem þau sjá nú þegar í umhverfi sínu vegna loftslagsbreytinga, hringinn í kringum Norðurskautið. Sögur af votlendi sem hefur horfið, skógareldum og ám sem eitt sinn voru ísi lagðar stóran hluta árs en eru það ekki lengur og því orðnir farartálmar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Skýrsla Vísindanefndar loftslagssamnings SÞ um loftslagsbreytingar var í brennidepli. Umhverfis- og auðlindaráðherra lagði áherslu á samvinnu í baráttunni við loftslagsbreytingar og mikilvægi rannsókna, ekki síst á súrnun sjávar, auk þess sem hann kynnti aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum og markmið íslenskra stjórnvalda um kolefnishlutleysi árið 2040. Hann benti á að kolefnisbinding hafi margþætt jákvæð áhrif, bæði á sviði loftslagsmála, til að vinna gegn jarðvegseyðingu og til verndar líffræðilegri fjölbreytni, sem allt væru alþjóðlegar skuldbindingar sem mikilvægt væri að sinna vel.

Ráðherra lagði enn fremur áherslu á mikilvægi þess að Norðurskautsríkin sameinist um að draga úr plastmengun.

„Verði ekki gripið til róttækra aðgerða er áætlað að meira magn verði af plasti en af fiski í hafinu árið 2050. Þetta er alvarlegt mál og ég legg því áherslu á rannsóknir, nýsköpun og aðgerðir sem miða að því að draga úr notkun á einnota plasti,“ segir Guðmundur Ingi.

Áætlað er að á heimsvísu endi árlega um 150 milljón tonn af plasti í sjónum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum