Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 606/2022-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 606/2022

Miðvikudaginn 15. febrúar 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 29. desember 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 27. október 2022 um endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta vegna ársins 2021.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra bóta ársins 2021 var sú að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur það ár að fjárhæð 372.962 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Kæranda var tilkynnt um framangreinda ofgreiðslu og innheimtu með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. október 2021.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 29. desember 2022. Með bréfi, dags. 2. janúar 2023, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 3. janúar 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. janúar 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru greinir kærandi frá því að Tryggingastofnun hafi endurreiknað tekjur hans vegna ársins 2021 vegna leigutekna af séreign eiginkonu hans. Þau hjónin hafi þinglýst kaupmála og erfðaskrá 22. júní 2017 þegar hún hafi keypt fasteign og þegar hún hafði selt þá eign og keypt aðra hafi þau aftur þinglýst kaupmála 13. ágúst 2021.

Að mati kæranda virðist framangreind ákvörðun Tryggingastofnunar vera í andstöðu við reglur hjúskaparlaga nr. 31/1993 en þar segi í 75. gr. um kaupmála: „Verðmæti, sem koma í stað séreignar, verða einnig séreign, svo og arður af þessum verðmætum, nema annars sé getið í kaupmála eða í fyrirmælum gefanda eða arfleiðanda.“ Að reikna kæranda hlutdeild í séreign eiginkonunnar sýnist honum vera í andstöðu við framangreint lagaákvæði.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2021.

Um útreikning ellilífeyris sé fjallað í III. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Í 16. gr. laganna sé kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta.

Samkvæmt 16. gr. laga um almannatryggingar beri Tryggingastofnun að líta til tekna við útreikning bóta. Í 2. mgr. sömu greinar segi að til tekna samkvæmt III. kafla laganna teljist tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, að teknu tilliti til ákvæða 28. gr. sömu laga um hvað ekki teljist til tekna og frádráttarliða samkvæmt 1., 3., 4. og 5. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. og 31. gr. sömu laga eða undantekninga og takmarkana samkvæmt öðrum sérlögum.

Í a-lið 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar sé fjallað um fjármagnstekjur og þar segi: „Ef um hjón er að ræða skiptast tekjur skv. 1. málsl. til helminga milli hjóna við útreikning bótanna. Skiptir ekki máli hvort hjónanna er eigandi þeirra eigna sem mynda tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign er að ræða.“ Í 16. og 23. gr. sömu laga sé kveðið á um áhrif tekna á ellilífeyri.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skuli ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn falli niður.

Kærandi hafi þegið ellilífeyri frá 1. febrúar 2016.

Með bréfi, dags. 27. október 2022, hafi kæranda verið tilkynnt niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna ársins 2021. Niðurstaðan hafi verið 372.962 kr. skuld, að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu, þar sem heildargreiðslur til kæranda á árinu 2021 hafi numið hærri upphæð en hann hafi átt rétt á samkvæmt endanlegum upplýsingum skattyfirvalda um tekjur kæranda á árinu 2021. Þennan mismun megi að mestu rekja til vanáætlunar leigutekna en kærandi hafi ekki áætlað sér leigutekjur í tekjuáætlun ársins 2021. Á skattframtali hafi hins vegar komið fram að kærandi og eiginkona hans hafi haft 2.040.000 kr. í sameiginlegar leigutekjur.

Samkvæmt framangreindu hafi fjármagnstekjur kæranda reynst vera hærri á árinu 2021 en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun og sem hafi leitt til kærðrar ofgreiðslukröfu. Eins og áður hafi komið fram séu fjármagnstekjur tekjustofn sem hafi áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og C-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, þar á meðal leigutekjur, sbr. 2. tölul. C-liðar 7. gr. laganna. Þá segi í 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar að fjármagnstekjur skuli skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta. Tryggingastofnun greiði tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá beri stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur. Tryggingastofnun hafi því enga heimild til að líta fram hjá fjármagnstekjum sem komi fram á skattframtali kæranda.

Að öllu framangreindu virtu sé það niðurstaða Tryggingastofnunar að niðurstaða endurreiknings og uppgjörs tekjutengdra greiðslna kæranda á árinu 2021 hafi verið rétt, byggð á fyrirliggjandi gögnum, faglegum sjónarmiðum sem og í samræmi við þær kröfur sem gerðar séu samkvæmt gildandi lögum og reglum.

Tryggingastofnun fari því fram á að kærð ákvörðun verði staðfest fyrir nefndinni.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum kæranda vegna ársins 2021.

Kærandi fékk greiddan ellilífeyri frá Tryggingastofnun á árinu 2021. Samkvæmt 39. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, er umsækjanda eða greiðsluþega skylt að veita stofnuninni allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og annarra greiðslna samkvæmt lögunum og endurskoðun þeirra. Enn fremur er skylt að tilkynna stofnuninni um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á bætur eða greiðslur. Af framangreindu verður ráðið að sú skylda hvíli á greiðsluþegum að upplýsa Tryggingastofnun um tekjur á bótagreiðsluári sem kunna að hafa áhrif á bótarétt.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar segir að til tekna samkvæmt III. kafla skuli telja tekjur samkvæmt II. kafla laga nr. 90/2003 um tekjuskatt, með tilteknum undantekningum. Samkvæmt þágildandi 1. mgr. 23. gr. laga um almannatryggingar skal ellilífeyrir lækka um 45% af tekjum lífeyrisþegans, sbr. 16. gr., uns lífeyririnn fellur niður. Þá segir að ellilífeyrisþegi skuli hafa 300.000 kr. almennt frítekjumark við útreikning ellilífeyris og 1.200.000 kr. sérstakt frítekjumark vegna atvinnutekna. Lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur eru tekjustofnar sem hafa áhrif við útreikning Tryggingastofnunar á bótafjárhæð, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A- og C-liða 7. gr. laga um tekjuskatt.

Á grundvelli 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar ber Tryggingastofnun ríkisins að endurreikna bótafjárhæðir eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum. Ef í ljós kemur við endurreikning að bætur hafi verið ofgreiddar, ber Tryggingastofnun að innheimta þær samkvæmt 55. gr. laga um almannatryggingar. Sú meginregla er ítrekuð í 9. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags.

Við úrlausn þessa máls hefur úrskurðarnefnd velferðarmála hliðsjón af þeim lagaákvæðum sem tilgreind hafa verið hér að framan.

Samkvæmt gögnum málsins gerði tillaga Tryggingastofnunar að tekjuáætlun, dags. 26. janúar 2021, ráð fyrir að kærandi fengi á árinu 1.225.402 kr. frá lífeyrissjóði, 512.525 kr. úr séreignarsparnaði, 53.416 kr. í sameiginlegar fjármagnstekjur með maka, 16.080 SEK í erlendar lífeyrissjóðstekjur og 564 SEK í erlendan grunnlífeyri. Kærandi gerði ekki athugasemdir við þá tekjuáætlun og voru bætur greiddar í samræmi við framangreindar tekjuforsendur. Kærandi sendi Tryggingastofnun nýja tekjuáætlun 15. nóvember 2021 þar sem hann gerði ráð fyrir 1.225.404 kr. frá lífeyrissjóði, 512.252 kr. úr séreignarsjóði, 253.147 kr. í erlendan lífeyri, 15.000 kr. í fjármagnstekjur, 187.000 kr. í launatekjur og 8.879 kr. í erlendan grunnlífeyri. Tryggingastofnun samþykkti innsenda tekjuáætlun með bréfi, dags. 23. nóvember 2021.

Samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda vegna tekjuársins 2021 reyndust tekjur kæranda á árinu vera 187.000 kr. í hagnað af atvinnustarfsemi, 1.585.557 kr. í lífeyrissjóðstekjur, 570.126 kr. úr séreignarsjóði og 2.059.714 kr. í fjármagnstekjur, sameiginlegar með maka, nánar tiltekið 19.714 í vexti og verðbætur og 2.040.000 kr. í leigutekjur, og 8.351 kr. í erlendan grunnlífeyri. Endurreikningur Tryggingastofnunar á tekjutengdum bótagreiðslum vegna ársins 2021 leiddi í ljós ofgreiðslu að fjárhæð 372.962 kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Samkvæmt endurreikningnum fékk kærandi ofgreitt í bótaflokkunum ellilífeyri og orlofs- og desemberuppbótum. Kærandi hefur verið krafinn um endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Samkvæmt framangreindu reyndust lífeyrissjóðs- og fjármagnstekjur kæranda vera hærri á árinu 2021 en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætlun og leiddu til kærðrar ofgreiðslukröfu. Eins og áður hefur komið fram eru lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur tekjustofnar sem hafa áhrif á bótarétt samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar og 1. tölul. A- og C-liða 7. gr. laga um tekjuskatt. Tryggingastofnun greiðir tekjutengdar bætur á grundvelli upplýsinga úr tekjuáætlun viðkomandi greiðsluþega. Þá ber stofnuninni lögum samkvæmt að endurreikna bætur með hliðsjón af upplýsingum skattyfirvalda og innheimta ofgreiddar bætur.

Í máli þessu snýst ágreiningurinn um hvort Tryggingastofnun hafi verið heimilt að skerða bætur kæranda vegna fjármagnstekna sem mynduðust á árinu vegna séreignar maka kæranda. Rök kæranda eru þau að slíkt hljóti að vera í andstöðu við 75. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Samkvæmt 2. málsl. a-liðar 2. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar skulu fjármagnstekjur skiptast til helminga á milli hjóna við útreikning bóta og þá segir í 3. málsl. sömu greinar að ekki skipti máli hvort hjónanna sé eigandi þeirra eigna sem myndi tekjurnar eða hvort um séreign eða hjúskapareign sé að ræða. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að Tryggingastofnun ríkisins hafi verið skylt lögum samkvæmt að láta fjármagnstekjur eiginkonu kæranda hafa áhrif á tekjutengdar greiðslur kæranda við endurreikning og uppgjör ársins 2021.

Að mati úrskurðarnefndar er meðhöndlun Tryggingastofnunar ríkisins á leigutekjum kæranda í samræmi við lög um almannatryggingar. Úrskurðarnefndin telur því ekki tilefni til að gera athugasemdir við endurreikning stofnunarinnar á tekjutengdum greiðslum ársins 2021. 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum bótum A, á árinu 2021, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum