Hoppa yfir valmynd
20. desember 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisstofnun Suðurlands tekur við sjúkraflutningum

Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSu) tekur við sjúkraflutningum í Árnessýslu 1. janúar nk, en menn hafa undirbúið breytinguna undanfarna mánuði. Sjúkraflutningamenn hafa verið ráðnir til starfa og hafa þeir verið í starfskynningu og þjálfun að undanförnu.   Umsjónarmaður sjúkraflutninga hefur verið ráðinn Ármann Höskuldsson, en hann hefur starfað sem lögreglu- og sjúkraflutningamaður undanfarin ár hjá Sýslumannsembættinu í Árnessýslu.  Hefur Ármann haft umsjón með undirbúningi varðandi flutning sjúkraflutninga til HSu.  Undirbúningur er nú á lokastigi og verður HSu ekkert að vanbúnaði við að taka við sjúkraflutningunum um áramótin. Fyrst um sinn munu sjúkraflutningarnir hafa aðstöðu áfram í sjúkrabílageymslunni við lögreglustöðina, á heilbrigðisstofnuninni og hjá björgunarfélaginu í Tryggvabúð. Viðræður hafa verið í gangi milli HSu, Brunavarna Árnessýslu (BÁ) og Björgunarfélags Árborgar um samstarf um að byggja hús yfir starfsemi þessara aðila.

Til að boðun sjúkrabifreiða verði með sem tryggustum hætti er mikilvægt, að haft sé samband við Neyðarlínuna, sími 112, þegar kalla þarf út sjúkrabíl. 

Í fréttatilkynningu sem HSu sendi frá sér segir m.a.: “Sjúkraflutningar í Árnessýslu ná yfir sveitarfélögin Árborg, Hveragerði, Ölfus, Bláskógabyggð, Grímsnes- og Grafningshrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp, Hrunamannahrepp, Villingaholtshrepp, Hraungerðishrepp og Gaulverjabæjarhrepp.  Íbúafjöldi á þjónustusvæðinu var 13.300  31. des. 2004.

Til viðbótar við framangreindan íbúafjölda eru á þjónustusvæðinu um 4.000 frístundahús og fjölsóttustu ferðamannastaðir landsins, þar sem koma tugir þúsunda ferðamanna á hverju ári.  Þá liggur einn fjölfarnasti hluti hringvegar landsins um þjónustusvæðið.

Fjöldi flutninga

Miðað við fyrstu níu mánuði þessa árs stefnir í, að árinu 2005 verði sjúkraflutningar samtals um 900 hjá Sýslumannsembættinu í Árnessýslu, en þeim hefur fjölgað að  meðaltali um tæplega 20 % á ári frá 2001.  

Til viðbótar við framangreinda sjúkraflutninga sýslumannsembættisins eru um 250 sjúkraflutningar á ári með sjúkraflutningabíl Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (Hsu) á Selfossi.  Er þar um að ræða flutninga á aðrar sjúkrastofnanir.

Samtals má því gera ráð fyrir, að sjúkraflutningar á þjónustusvæðinu í Árnessýslu verði um 1.100 - 1.200  á árinu 2005.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum