Hoppa yfir valmynd
21. desember 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Samið um rafræna lyfseðla

Lyfseðlar verða í framtíðinni sendir rafrænt frá læknum til apóteka. Samkomulag um að gera þetta kleift tæknilega var gert í dag. Heilbrigðismálaráðuneytið og fyrirtækið TM Software sömdu um þátt fyrirtækisins í að búa til tæknilega lausn á þessu sviði og undirrituðu heilbrigðismálaráðherra og forsvarsmaður fyrirtækisins samning vegna þessa í dag. Þegar sú lausn liggur endanlega fyrir er gert ráð fyrir að rafrænir lyfseðlar verði sendir frá stofnunum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins sem nota sjúkraskrárkerfið Sögu til apóteka. Tekur samningurinn til flestra heilsugæslustöðva og heilbrigðisstofnana landsins og nokkurra sjúkrahúsa. Stefnt er að því að kerfið verði tekið í notkun fyrir árslok 2006. Lyfseðlagátt verður þungamiðja kerfisins en þaðan má senda lyfseðla í hvaða apótek sem er. Stefnt er að því að vinna að því koma lyfseðlum frá sérfræðilæknum á rafrænt form eftir að þessu verkefni lýkur. Fyrirkomulagið verður kynnt nánar, bæði fyrir heilbrigðisstarfsfólki og almenningi þegar nær dregur. Í samkomulaginu felst að gerðar verða breytingar í sjúkraskrárkerfinu Sögu þannig að lyfjalistar stofnana verði virkir og jafnframt verði lyfjaval útfært þannig að hægt verði að láta ódýrasta lyf í viðkomandi flokki komi upp sem fyrsta val. Heildarfjöldi lyfseðla árið 2004 var tæplega 1.900 þúsund og af þeim voru um 900 þúsund frá heimilislæknum, eða um 47%. Stefnt er að því að 90% lyfseðla heimilislækna og 50% lyfseðla almennra lækna og lyflækna verði sendir rafrænt á árinu 2007. Svarar það til um helmings allra lyfseðla. Gera má ráð fyrir að heildarfjöldi lyfseðla nái 2 milljónum árið 2007 og er markmiðið því að um milljón lyfseðlar verði sendir rafrænt árið 2007. Lyfseðlar hafa verið sendir með rafrænu sniði á Akureyri og nágrenni frá því í júní 2003 sem tilraunaverkefni á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Reynslan af verkefninu bendir eindregið til verulegs hagræðis. Það á við um læknana sem skrifa lyfseðlana, apótekin sem taka við þeim beint inn í sín kerfi, og siðast en ekki síst felst í rafrænni afgreiðslu aukið öryggi og bætt þjónustu við almenning.

Frá undirritun samkomulagsins í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í dag

Undirritun samkomulags um rafræna lyfseðla



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum