Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Samþykkt að efla viðbúnað WHO vegna náttúruhamfara

Samþykktin er meðal annars niðurstaða af 117. fundi framkvæmdastjórnar WHO, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í Genf, sem staðið hefur í vikunni. Á fundinum var samþykkt að tillaga um átak á sviði heilsueflingar í heiminum og mælti Davíð Á. Gunnarsson, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og stjórnarmaður í WHO, fyrir tillögunni. Er í samþykkt framkvæmdastjórnar lögð áhersla á að þjóðir heims taki í ríkari mæli mið af helstu orsökum heilufarsvandamála þegar aðgerðir á sviði forvarna og heilsueflingar eru skipulagðar. Þau mál sem framkvæmdastjórn WHO ræddi mest á fundi sínum voru fuglaflensan og hugsanlegur heimsfaraldur inflúensu, auk jarðskjálftans og hinna miklu hörmunga sem riðu yfir Pakistan. Samþykkt var að alþjóðlegar reglur á sviði heilbrigðismála (International Health Regulations), sem ætlað var að taka gildi árið 2007, taki gildi svo fljótt sem verða má að því er varðar viðbrögð við fuglaflensunni. Reglum þessum er ætlað að tryggja að WHO geti framfylgt viðbragðsátætlum og aðgerðum sínum með viðeigandi ráðstöfunum. Framkvæmdastjórnin samþykkti einnig tillögu Davíðs Á. Gunnarssonar sem felur í sér að leitast verði við að tryggja betur fjárhagslega getu WHO til þess að bregðast við afleiðingum jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara með enn fljótvirkari hætti en nú er. Fundi framkvæmdastjórnarinnar lýkur á morgun laugardag.

Sjá nánar vefsíðu WHO: http://www.who.int/en/

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum