Hoppa yfir valmynd
3. maí 2023 Utanríkisráðuneytið

Tekur þrjár aldir að útrýma barnahjónaböndum ​

Ljósmynd: Getty Images - mynd

Að óbreyttu tekur það þrjár aldir að útrýma barnahjónaböndum. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá UNICEF, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna. Þar kemur fram að þrátt fyrir að hlutfall ungra stúlkna sem giftast á barnsaldri hafi minnkað um tvö prósentustig, úr 21 í 19, gangi 12 milljónir barnungra stúlkna í hjónaband á hverju ári og 640 milljónir stúlkna og kvenna hafi gifst áður en þær náðu átján ára aldri.

Í skýrslunni er bent á að barnahjónabönd séu brot á réttindum barna en viðhorf foreldra sé oft á þá leið að ráðahagurinn sé „verndarráðstöfun“ fyrir stúlkurnar. UNICEF segir að afleiðingar snemmbærra hjónabanda séu vel rannsakaðar. Þær sýni að stúlkur sem þvingaðar séu í hjónaband séu ólíklegri en aðrar stúlkur til að sækja sér menntun og þær séu í meiri hættu að verða snemma barnshafandi.

UNICEF hefur sérstakar áhyggjur af þróuninni í löndunum sunnan Sahara í Afríku þar sem hlutfall barnahjónabanda fer hækkandi. Reiknað er með því að barnungum giftum stúlkum fjölgi þar um tíu af hundraði fyrir árið 2030. Í skýrslunni er bent á að stúlkur í þessum heimshluta standi nú frammi fyrir mestri hættu á að vera neyddar í hjónaband en ein af hverjum þremur stúlkum er gift fyrir átján ára aldur.

Barnahjónaböndum hefur fækkað í Suður-Asíu en í þeim heimshluta er enn um 45 prósent allra slíkra hjónabanda og þrátt fyrir verulegar framfarir á Indlandi er enn þriðjungur barnahjónabanda í því landi.

Catherine Russell framkvæmdastjóri UNICEF segir barnahjónabönd eyðileggja vonir og drauma stúlkna, þær ættu ekki að vera brúðir heldur skólastúlkur.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
4. Menntun fyrir öll
3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum