Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 9/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 9/2018

Fimmtudaginn 26. apríl 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 12. janúar 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. desember 2017, um að ákvörðun stofnunarinnar frá 3. júlí 2017, að fella niður bótarétt hennar í tvo mánuði og innheimta ofgreiddar bætur, skyldi standa óbreytt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun þann 30. september 2016 og var umsóknin samþykkt. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 31. maí 2017, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar um að hún hefði starfað við rekstur á B ehf. samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna það til stofnunarinnar. Kærandi var upplýst um að brot gegn tilkynningarskyldu samkvæmt 35. gr. a og 3. mgr. 9. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gæti valdið viðurlögum samkvæmt 59. eða 60. gr. laganna. Þá var kæranda veittur kostur á að skila skýringum innan sjö daga frá dagsetningu bréfsins. Engar skýringar bárust frá kæranda.

Með bréfi, dags. 3. júlí 2017, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hennar væri felldur niður í tvo mánuði frá og með þeim degi á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 sökum þess að hún lét hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar samkvæmt 14. gr. laganna. Kærandi var einnig krafin um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 að fjárhæð 1.478.787 kr. að meðtöldu 15% álagi vegna tímabilsins 1. október 2016 til 31. maí 2017. Með tölvupósti þann 5. desember 2017 óskaði kærandi eftir því að mál hennar yrði tekið til endurskoðunar. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 20. desember 2017, var kæranda tilkynnt að í kjölfar endurupptöku stofnunarinnar á máli hennar, í samræmi við 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, væri fyrri ákvörðun staðfest. Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. janúar 2018. Með bréfi, dags. 15. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 2. febrúar 2018, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. febrúar 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. febrúar 2018 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið hætt á atvinnuleysisbótum þegar ákvörðun frá 3. júlí 2017 hafi verið tekin og því ekki að fylgjast með á „Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun á þeim tíma. Kærandi vísar til þess að hún eigi fyrirtækið B ehf. ásamt eiginmanni sínum sem [...]. Þau hafi stofnað fyrirtækið til að tryggja sér starfsvettvang í sínum heimabæ. Starfsemi fyrirtækisins sé mjög lítil yfir vetrartímann og því hafi þau þurft að vinna aðra vinnu samhliða rekstrinum. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafi hún greint frá eignarhlut sínum í fyrirtækinu til að vera viss um að henni væri heimilt að skrá sig á bætur þrátt fyrir að eiga hlut í fyrirtæki. Þá hafi henni verið tjáð að eina skilyrðið væri að gefa upp alla þá vinnu sem hún innti af hendi.

Kærandi tekur fram að hún sé ekki sjálfstætt starfandi einstaklingur heldur launþegi hjá fyrirtækinu yfir sumartímann. Á þeim tíma sem hún hafi þegið atvinnuleysisbætur hafi hún ekki verið á launum hjá fyrirtækinu en fyrirtækið sé það lítið að það beri ekki tvær manneskjur á launum. Í upphafi hafi hún verið skráð sem stjórnandi fyrirtækisins og símanúmer hennar skráð […]. Þau hjónin hafi talið að þau væru ekki að gera neitt ólöglegt með því og ekki hugsað um það hvort þeirra væri skráð stjórnandi. Kærandi hafi tilkynnt til Vinnumálastofnunar um miðjan maí 2017 að þann 1. júní yrði hún komin á laun hjá fyrirtækinu.

Kærandi vísar ásökunum Vinnumálastofnunar, um að hún hafi ekki sinnt tilkynningarskyldu sinni, algjörlega á bug. Það hafi aldrei verið nein leynd yfir því að hún ætti hlut í fyrirtæki. Að mati kæranda sé fráleitt af Vinnumálastofnun að vitna í ummæli hennar á fésbókarsíðu sinni og [...] daginn áður en hún hafi hætt á bótum. Hún hafi einungis verið að tjá skoðun sína á tilteknu málefni.     

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Tilgangur laga um atvinnuleysistryggingar sé að tryggja þeim, sem tryggðir séu og misst hafi fyrra starf sitt, tímabundna fjárhagsaðstoð í þrengingum sínum. Með lögunum sé verið að tryggja stöðu og öryggi fólks í atvinnuleysi. Því sé gert ráð fyrir að hinir tryggðu séu í virkri atvinnuleit þann tíma. Atvinnuleysistryggingar veiti hinum tryggðu fjárhagslegt úrræði í tímabundnu atvinnuleysi sínu. Í málinu liggi fyrir að kærandi hafi verið krafin um endurgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 30. september 2016 til 31. maí 2017 vegna ótilkynntrar vinnu. Það hafi verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi hefði ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum á því tímabili, enda hafi hún þá starfað hjá eigin fyrirtæki.

Vinnumálastofnun tekur fram að á þeim sem fái greiðslur atvinnuleysisbóta hvíli rík skylda til að tilkynna um breytingar á högum sínum til stofnunarinnar og tryggja þannig að stofnunin hafi réttar upplýsingar sem geti varðað bótarétt viðkomandi. Í 10. gr. laga nr. 54/2006 komi fram að sá sem teljist tryggður samkvæmt lögunum skuli tilkynna til Vinnumálastofnunar án ástæðulausrar tafar þegar hann hætti virkri atvinnuleit. Enn fremur árétti Vinnumálastofnun ákvæði 35. gr. a. laganna, sem leggi þá skyldu á þá sem tryggðir séu samkvæmt lögunum að tilkynna með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu á þeim tíma er sá tryggði fái greiddar atvinnuleysisbætur, sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum. Það falli saman við það skilyrði 13. gr. laganna að launamaður teljist aðeins tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Skilyrði þess hvað felist í virkri atvinnuleit séu nánar útlistuð í 14. gr. laganna. Af þessu megi ráða að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga nr. 54/2006, hvort sem hann þiggi laun fyrir eður ei.

Í málinu liggi fyrir að kærandi sé eigandi að fyrirtækinu B ehf. Það eitt að atvinnuleitandi eigi eignarhlut í fyrirtæki leiði ekki til þess að viðkomandi eigi ekki rétt til atvinnuleysisbóta. Umsækjanda um atvinnuleysisbætur sé hins vegar skylt að uppfylla fyrrnefnd skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar um að teljast atvinnulaus í skilningi laganna og teljast vera í virkri atvinnuleit í skilningi 13. og 14. gr. laganna. Af því leiði að atvinnuleitanda sé ekki heimilt að sinna slíkum verkefnum sem teljist til þátttöku á almennum vinnumarkaði án undanfarandi tilkynningar til Vinnumálastofnunar, sbr. 10. og 14. gr. laganna. Eðli máls samkvæmt eigi einstaklingur ekki rétt á atvinnuleysisbótum á meðan hann sé í vinnu, enda gildi lögin um einstaklinga þegar þeir verði atvinnulausir. Af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að kærandi hafi sinnt störfum fyrir fyrirtækið og komið fram fyrir hönd þess á þeim tíma er hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta. Fyrir liggi upplýsingar af facebooksíðu hennar sjálfrar, [...] auk [...] frá X á [...]. Vinnumálastofnun hafi ekki borist neinar tilkynningar frá kæranda um tilfallandi vinnu á fyrrgreindu tímabili né aðrar tilkynningar um að hún hefði hætt atvinnuleit. Kærandi hafi verið afskráð sem umsækjandi um atvinnuleysisbætur í júní 2017 þar sem hún hafi ekki staðfest atvinnuleit líkt og skylt sé.

Vinnumálastofnun bendir á að í skýringum kæranda, sem hafi loks borist 12. desember 2017, komi fram að hún hafi ekki þegið laun frá fyrirtækinu samhliða atvinnuleysisbótum. Stofnunin telji það einu gilda hvort einstaklingur þiggi laun eður ei þegar metið sé hvort einstaklingur teljist vera í virkri atvinnuleit. Stofnunin horfi þá til dæmis til þess hvort um sé að ræða störf sem almennt teljist til starfa á almennum vinnumarkaði en ekki sem dæmi störf á vegum frjálsra félagasamtaka eða sjálfboðastarf á vegum mannúðar- og hjálparsamtaka. Að mati Vinnumálastofnunar hafi ekki neitt komið fram í skýringum kæranda sem hreki það að hún hafi starfað fyrir fyrirtæki sitt, B ehf., á fyrrnefndu tímabili. Vinnumálastofnun telji ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 um virka atvinnuleit né hafi hún fullnægt tilkynningarskyldu sinni um breytingu á sínum högum er hún hafi tekið að sér verkefni fyrir hönd þess. Það sé því ljóst að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 14. gr. um virka atvinnuleit á umræddum tíma og hvorki tilkynnt um tilfallandi vinnu né að virkri atvinnuleit væri hætt líkt og kveðið sé á um í 10. gr. laganna. Því verður ekki fallist á að Vinnumálastofnun hafi borið að greiða kæranda atvinnuleysisbætur á meðan hún hafi starfað við rekstur á eigin fyrirtæki.

Vinnumálastofnun ítrekar að á atvinnuleitendum hvíli rík skylda til að sjá til þess að stofnunin hafi réttar upplýsingar um hagi viðkomandi. Í 3. mgr. 9. gr. laganna sé tekið fram að sá sem teljist tryggður á grundvelli laganna skuli upplýsa Vinnumálastofnun um allar breytingar sem kunni að verða á högum hans á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða annað það sem kunni að hafa áhrif á rétt hans, svo sem um tekjur fyrir tilfallandi vinnu og hversu lengi vinnan standi yfir eða ef atvinnuleit sé hætt. Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að kærandi hafi ekki sinnt fortakslausri upplýsingaskyldu sinni gagnvart stofnuninni og það hafi leitt til ofgreiðslu atvinnuleysisbóta til hennar á fyrrnefndu tímabili. Stofnuninni sé skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta ef þær hafi verið of- eða vangreiddar. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps því er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðrétting eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Í 2. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 komi enn fremur fram að leiði brot á 1. mgr. ákvæðisins til þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur skuli hann endurgreiða þær, sbr. 2. mgr. 39. gr. laganna. Skuld kæranda hafi verið skuldajafnað við síðari tilkomnar atvinnuleysisbætur í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 þar til hún hafi verið skráð af atvinnuleysisskrá þann 12. janúar 2018.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. desember 2017, um að ákvörðun stofnunarinnar frá 3. júlí 2017, að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar og að innheimta ofgreiddar bætur samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laganna vegna tímabilsins 1. október 2016 til 31. maí 2017, skyldi standa óbreytt.

Ákvæði 1. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 er svohljóðandi:

„Sá sem lætur hjá líða að veita nauðsynlegar upplýsingar skv. 14. gr. eða um annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama á við þegar hinn tryggði hefur … látið hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögum þessum, sbr. 3. mgr. 9. gr. og 2. mgr. 14. gr. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.“

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi ekki á atvinnuleysisskrá á tímabilinu júní til september 2017 en sótti á ný um atvinnuleysisbætur 1. október 2017. Þar sem kærandi hafði starfað á innlendum vinnumarkaði í að minnsta kosti hálfan mánuð á framangreindum viðurlagatíma voru viðurlög um tveggja mánaða niðurfellingu bótaréttar felld niður. Þá heimild er að finna í 4. mgr. 59. gr. laga nr. 54/2006 sem er svohljóðandi:

„Taki hinn tryggði starfi sem ekki er hluti af vinnumarkaðsaðgerðum meðan á viðurlagatíma skv. 1. mgr. stendur falla viðurlögin niður eftir að hinn tryggði hefur starfað í a.m.k. hálfan mánuð áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur enda hafi hann sagt starfinu lausu eða misst það af gildum ástæðum. Vari starfið í skemmri tíma, hann hefur sagt starfi sínu lausu án gildra ástæðna eða misst það af ástæðum sem hann á sjálfur sök á heldur viðurlagatíminn áfram að líða þegar hinn tryggði sækir aftur um atvinnuleysisbætur, sbr. einnig 61. gr.“

Að mati úrskurðarnefndarinnar er því einungis ágreiningur um þann hluta ákvörðunar Vinnumálastofnunar er lýtur að innheimtu ofgreiddra bóta vegna tímabilsins 1. október 2016 til 31. maí 2017. Af hálfu Vinnumálastofnunar hefur komið fram að kærandi hafi starfað hjá eigin fyrirtæki á því tímabili og því ekki átt rétt á atvinnuleysisbótum.

Í 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur fram að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Við mat á því hvort heimilt sé að krefja um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 kemur til skoðunar hvort kærandi hafi sannarlega ekki uppfyllt skilyrði laganna, enda um íþyngjandi ákvörðun að ræða. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði.

Í gögnum málsins liggur fyrir tölvupóstur frá starfsmanni Vinnumálastofnunar til eftirlitsdeildar stofnunarinnar þar sem fram kemur að kærandi reki B á C. Vísað er til þess að kærandi hafi verið í [...] og að uppgefið símanúmer fyrir [...] væri það sama og símanúmer hennar í kerfi Vinnumálastofnunar. Þá kemur fram í greinargerð Vinnumálastofnunar að af fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að kærandi hafi sinnt störfum fyrir fyrirtæki sitt og komið fram fyrir hönd þess á þeim tíma er hún hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta. Fyrir liggi upplýsingar af fésbókarsíðu hennar sjálfrar, [...]. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála báru framangreind gögn einungis með sér vísbendingar um að kærandi sinnti störfum fyrir fyrirtækið. Úrskurðarnefndin telur því að ekki liggi fyrir fullnægjandi gögn sem staðfesta að kærandi hafi verið í starfi allt það tímabil sem endurgreiðslukrafan lýtur að. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað til Vinnumálastofnunar til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 20. desember 2017, í máli A, er felld úr gildi og málinu vísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum