Nr. 511/2022 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 22. desember 2022 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 511/2022
í stjórnsýslumálum nr. KNU22110014 og KNU22110015
Beiðni [...], [...] og barna þeirra um endurupptöku
I. Málsatvik og málsmeðferð
Hinn 28. febrúar 2019 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 17. desember 2020, um að synja [...] (hér eftir K), [...] (hér eftir M) og börnum þeirra, [...], fd. [...], (hér eftir A), [...], fd. [...], (hér eftir B) og [...], fd. [...], (hér eftir C), öll ríkisborgarar Norður Makedóníu, um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi.
Kærendur og börn þeirra komu aftur hingað til lands 26. júní 2021 og sóttu á ný um alþjóðlega vernd. Hinn 4. nóvember 2021 staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 16. júlí 2021, um að synja kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi ásamt því að brottvísa kærendum frá landinu og ákvarða þeim tveggja ára endurkomubann. Hinn 19. september 2022 barst kærunefnd beiðni kærenda og barna þeirra um endurupptöku. Með úrskurði kærunefndar 27. september 2022 var beiðni kærenda og barna þeirra um endurupptöku mála þeirra synjað. Hinn 3. nóvember 2022 barst kærunefnd á ný beiðni kærenda og barna þeirra um endurupptöku mála þeirra.
Beiðni kærenda um endurupptöku á málum þeirra og barna þeirra er reist á grundvelli 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
II. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð er þess krafist að kærunefnd endurupptaki mál kærenda og barna þeirra, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga, og veiti þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Kærendur telja að ákvarðanir Útlendingastofnunar og úrskurðir kærunefndar í málum þeirra séu íþyngjandi í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga og að atvik í málum þeirra hafi breyst verulega í ljósi þess tíma sem nú sé liðinn frá því að þau hafi lagt fram umsóknir um alþjóðlega vernd hér á landi.
Er í beiðni kærenda gerð krafa um að kærunefnd taki upp mál þeirra og barna þeirra að nýju og að nefndin veiti þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og 32. gr. d reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, þar sem meira en 16 mánuðir séu liðnir frá því að þau lögðu fram umsóknir sínar um alþjóðlega vernd. Kærendur telja að málsmeðferð í málum þeirra á stjórnsýslustigi sé ekki enn lokið þar sem flutningur lögreglu á kærendum og börnum þeirra til heimaríkis hafi ekki enn farið fram. Þá telja kærendur að það þurfi að taka tillit til þess að þau hafi ekki fengið tækifæri til að yfirgefa landið sjálf heldur hafi þeim frá upphafi verið gert að bíða eftir flutningi á vegum íslenskra stjórnvalda. Í úrskurði kærunefndar í málum kærenda hafi nefndin staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að fella niður frest þeirra til að yfirgefa landið sjálfviljug. Kærendur telja því að mál þeirra séu sambærileg málum þeirra einstaklinga sem vísað sé frá landinu með vísan til a- og c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Með vísan til jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga og álits umboðsmanns Alþingis í máli UA 9722/2018 telja kærendur að kærunefnd beri að túlka 32. gr. d reglugerðar um útlendinga með sama hætti og 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga sé túlkuð.
Kærendur byggja á því að þau uppfylli öll skilyrði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
III. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.
Í úrskurðum kærunefndar nr. 101/2019 frá 28. febrúar 2019 og 529/2021 frá 4. nóvember 2021 var lagt mat á aðstæður kærenda og barna þeirra í heimaríki og byggt á gögnum sem þá lágu fyrir. Komist var að þeirri niðurstöðu að kærendur og börn þeirra uppfylltu ekki skilyrði 1. eða 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og því ættu þau ekki rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi, sbr. 40. gr. laga um útlendinga. Þá var það mat kærunefndar að aðstæður þeirra í heimaríki væru ekki með þeim hætti að veita bæri þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 74. gr. laga um útlendinga. Þá var fyrri endurupptökubeiðni kærenda og barna þeirra hafnað með úrskurði kærunefndar 27. september 2022.
Kærendur byggja beiðni sína á því að kærunefnd taki upp mál þeirra og barna þeirra að nýju og að nefndin veiti þeim dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga og 32. gr. d reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, þar sem meira en 16 mánuðir séu liðnir frá því að þau lögðu fram umsóknir sínar um alþjóðlega vernd og að málsmeðferð stjórnvalda sé ekki lokið þar sem þau hafi ekki verið flutt til heimaríkis.
Líkt og að framan er rakið var kærendum synjað um alþjóðlega vernd á grundvelli 37. gr. laga um útlendinga og dvalarleyfi á grundvelli 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga í fyrra skiptið 28. febrúar 2019. Kærendur og börn þeirra komu aftur hingað til lands 26. júní 2021 og sóttu á ný um alþjóðlega vernd. Með úrskurði nr. 529/2021, dags. 4. nóvember 2021, staðfesti kærunefnd útlendingamála ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 16. júlí 2021, um að synja kærendum og börnum þeirra um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á Íslandi ásamt því að brottvísa þeim frá landinu og ákvarða þeim tveggja ára endurkomubann. Var úrskurðurinn birtur fyrir kærendum 8. nóvember 2021.
Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði skv. 37. og 39. gr. laganna. Samkvæmt orðanna hljóðan miðast lokadagur frests skv. 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram um 2. mgr. 74. gr. laganna: ,,[þ]essi grein kveður á um heimild til að veita umsækjanda um alþjóðlega vernd dvalarleyfi af mannúðarástæðum hafi hann ekki fengið niðurstöðu hjá stjórnvöldum, þ.e. innan 18 mánaða á báðum stjórnsýslustigum.“ Af framangreindu er ljóst að miða verður við þann dag sem efnislegur úrskurður kærunefndar um umsókn útlendings um alþjóðlega vernd er birtur honum.
Vegna málsástæðu kærenda um að veita beri þeim dvalarleyfi á grundvelli 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sem skýra beri með sama hætti og 2. mgr. 36. gr. sömu laga, bendir kærunefnd á að túlkun nefndarinnar á lokadegi frests skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga hefur byggst á ívilnandi sjónarmiðum þar sem orðalag þess ákvæðis er ekki skýrt um hvaða tímamark eigi að miða við. Orðalag ákvæðisins er annað en 2. mgr. 74. gr. laganna og réttaráhrif þess að frestur samkvæmt 2. mgr. 36. gr. laganna líður tengist málsmeðferðarreglum. Í áliti umboðsmanns Alþingis nr. 9722/2018 er að finna sömu túlkun á inntaki 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Framangreint haggar hins vegar ekki skýrum fyrirmælum 2. mgr. 74. gr. laganna sem ná til stöðu kærenda og barna þeirra. Er því að mati kærunefndar ekki heimild í lögum um útlendinga til þess að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða vegna tafa sem orðið hafa á brottför umsækjanda um alþjóðlega vernd frá landinu eftir að endanleg niðurstaða hefur fengist í efnislegri meðferð á umsókn hans.
Kærendur fengu endanlega niðurstöðu í máli sínu við birtingu úrskurðar kærunefndar nr. 529/2021, dags. 8. nóvember 2021. Að framangreindu virtu er það mat kærunefndar að þótt kærendur hafi dvalið hér á landi í langan tíma eftir að þau fengu endanlega niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi verði ekki ráðið af gögnum málsins að atvik málsins hafi breyst verulega á þann veg að tilefni sé til að verða við beiðni þeirra um endurupptöku málsins á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.
Þá telur kærunefnd að gögn málsins bendi ekki til þess að aðstæður kærenda og barna þeirra hafi breyst verulega síðan nefndin úrskurðaði í málum þeirra á þann hátt að nefndin telji að það geti haft áhrif á efnislega niðurstöðu málsins.
Það athugast að kærendur byggja á því að taka þurfi tillit til þess að þau hafi ekki fengið tækifæri til að yfirgefa landið sjálf heldur hafi þeim frá upphafi verið gert að bíða eftir flutninga á vegum íslenskra stjórnvalda. Beri að túlka 2. mgr. 74. gr. til samræmis við 2. mgr. 36. gr. hvað varðar tímamörk málsmeðferðar af þeim sökum. Í 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga kemur fram að heimilt sé að veita útlendingi sem sótt hefur um alþjóðlega vernd og ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða eftir að hann sótti fyrst um alþjóðlega vernd hér á landi, dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt ákvæðinu, að því tilskildu að skorið hafi verið úr um að hann uppfylli ekki skilyrði samkvæmt 37. og 39. gr. laganna. Þegar um er að ræða börn er fresturinn 16 mánuður, sbr. 2. mgr. 32. gr. d reglugerðar um útlendinga. Samkvæmt orðanna hljóðan miðast lokadagur frests samkvæmt 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga við ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í athugasemdum við frumvarp til laganna kemur fram að átt sé við endanlega niðurstöðu hjá stjórnvöldum á báðum stjórnsýslustigum. Kærendur lögðu fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi hinn 26. júní 2021, en úrskurður kærunefndar í máli þeirra var kveðinn upp hinn 4. nóvember 2021 eða um fimm mánuðum eftir að þau lögðu fram umsókn sína. Var máli kærenda og barna þeirra því lokið á stjórnsýslustigi innan 18 mánaða. Í ljósi þess að máli kærenda og barna þeirra var lokið á báðum stjórnsýslustigum innan þeirra tímamarka sem fram koma í ákvæði 2. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. mgr. 32. gr. d reglugerðar um útlendinga, er ljóst að þau uppfyll ekki skilyrði til dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Sú staðreynd að flutningur hefur ekki farið fram hefur ekki áhrif þar um.
Að framangreindu virtu er það því mat kærunefndar að atvik í máli kærenda og barna þeirra hafi ekki breyst verulega þannig að taka beri mál þeirra upp að nýju á grundvelli 24. gr. stjórnsýslulaga. Þá er ekkert sem bendir til þess að niðurstaða í máli kæranda hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik.
Með vísan til alls framangreinds er það mat kærunefndar að hafna beri beiðni kærenda um endurupptöku málsins.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærenda um endurupptöku er hafnað.
The request of the appellants to re-examine their case is denied.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir