Hoppa yfir valmynd
9. maí 2019 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 205/2019 Úrskurður

 

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 9. maí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 205/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19050003

 

Beiðni […] um endurupptöku

 

I.             Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 160/2019, dags. 11. apríl 2019, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 4. febrúar 2019, um að taka umsókn einstaklings er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Íran (hér eftir nefndur kærandi), um alþjóðlega vernd á Íslandi ekki til efnismeðferðar og vísa honum frá landinu.

Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda þann 15. apríl 2019. Þann 21. apríl 2019 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku málsins. Jafnframt var óskað eftir frestun réttaráhrifa. Tekin verður afstaða til þeirrar beiðni í sérstökum úrskurði.

Beiðni kæranda um endurupptöku máls hans byggir á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.            Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir á því að Útlendingastofnun og kærunefnd útlendingamála hafi með úrskurðum sínum hvorki fylgt ákvæðum laga um útlendinga né ákvæðum stjórnsýslulaga. Kærandi telji sig vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu, þar sem hann þjáist af slæmri slitgigt sem hann hafi ekki getað fengið læknisaðstoð við á Ítalíu, og því beri að taka mál hans til efnislegrar meðferðar skv. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Það hafi tekið átta mánuði fyrir kæranda að fá læknisaðstoð frá sérfræðingi á Ítalíu en það hafi einungis tekist fyrir tilstilli kirkjunnar þar í landi sem jafnframt hafi greitt fyrir læknistímann. Hann telji þó að honum hafi verið ávísað tilteknu lyfi sem hafi verkað takmarkað á verkina og þá hafi hann leitað til heilsugæslu þar í landi til þess að fá frekari lausnir við veikindum sínum en án árangurs. Vísar kærandi til læknisvottorðs, dags. 29. apríl 2019, máli sínu til stuðnings en hann hafi sótt sér læknisaðstoð hér á landi frá komu til landsins. Byggir kærandi á því að íslensk stjórnvöld hafi ekki gætt að rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, og viðeigandi ákvæðum laga um útlendinga. Sé ljóst að hann þjáist af slæmri slitgigt sem geri það að verkum að íslenskum stjórnvöldum sé óheimilt að endursenda hann aftur til Ítalíu, þar sem honum bíði aðeins líf á götunni sem sé slæmt fyrir sjúkdóm hans. Þá muni hann ekki hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu, sjúkraþjálfun eða endurhæfingu þar í landi þar sem hann hafi enga atvinnu en hann geti ekki unnið erfiðisvinnu sem sé það eina sem sé í boði fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd þar í landi. Þá fái umsækjendur sem fengið hafa dvalarleyfi á Ítalíu ekki húsnæði, atvinnu, mat eða aðgang að heilbrigðisþjónustu. Enn fremur vísar kærandi til þess að hann uppfylli skilyrði 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013) til þess að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi. Þá byggir kærandi á því að Ítalía sé ekki öruggt fyrir sig þar sem hann sé í raunverulegri hættu á að verða fyrir ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð á Ítalíu vegna veikinda sinna.

III.          Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála, dags. 11. apríl 2019, var komist að þeirri niðurstöðu að synjun á efnismeðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd á Íslandi og frávísun frá landinu bryti ekki gegn 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Þá var ekki talið að kærandi hefði slík tengsl við landið eða að aðstæður hans væru að öðru leyti svo sérstakar að taka ætti umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Fyrir liggur að kærandi er með alþjóðlega vernd á Ítalíu og gilt dvalarleyfi þar í landi til 3. desember 2019.

Af þeim gögnum sem lágu fyrir við meðferð málsins hjá kærunefnd var ljóst að kærandi kvaðst glíma við stoðkerfavandamál og slitgigt og að hann hefði fengið ávísað verkjalyfjum vegna þess. Þá hefði hann einnig verið í viðtölum hjá sálfræðingi. Var það mat kærunefndar að gögn málsins bæru ekki með sér að kærandi hefði sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga, sem taka þyrfti tillit til við meðferð málsins. Vísaði kærunefnd til þess að af þeim gögnum sem nefndin hefði kynnt sér um aðstæður og aðbúnað einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu væri ljóst að kærandi hafi sömu réttindi og ítalskir ríkisborgarar og aðrir sem hafi rétt til dvalar í landinu. Þá yrði ráðið af fyrrgreindum gögnum að einstaklingar með alþjóðlega vernd á Ítalíu eigi rétt á heilbrigðisþjónustu að því gefnu að þeir skrái sig inn í heilbrigðiskerfið. Var það mat nefndarinnar að aðstæður kæranda teldust ekki til mikilla og alvarlegra veikinda sem meðferð sé aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, með síðari breytingum, og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væru fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæltu með því að mál hans yrði tekið til efnismeðferðar hér á á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Með endurupptökubeiðni sinni lagði kærandi fram læknabréf, dags. 29. apríl 2019 og komunótur frá Göngudeild sóttvarna, dags. 17 . janúar - 10. apríl 2019, sem að hluta til lágu fyrir við meðferð máls kæranda hjá kærunefnd. Í læknabréfinu kemur m.a. fram að almenn saga og verkjasaga kæranda samræmist slitgigt á nokkuð háu stigi, sér í lagi miðað við aldur hans. Þá séu greinileg eymsli og skert hreyfigeta í hálsi og baki. Jafnframt er vísað til þess að sneiðmynd samræmist verkjasögu í baki, staðfesti brjósklos og sýni verulega þrengingu að taugum. Þá kemur fram í niðurlagi læknabréfsins að mælt sé með sjúkraþjálfun og endurhæfingu og að endurskoða megi val á verkjalyfjum. Þá er kæranda ráðlagt að halda áfram að stunda sund og gufuböð. Að mati læknisins sé ljóst að geta kæranda til að stunda líkamlega vinnu sé verulega eða alfarið skert.

Eins og að framan greinir lá fyrir þegar úrskurður í máli kæranda var kveðinn upp að kærandi glímdi við stoðkerfisvandamál og slitgigt. Kærunefnd telur ný gögn um heilsufar kæranda ekki þess eðlis að atvik í málinu teljist hafi breyst verulega frá fyrri niðurstöðu nefndarinnar.

Í því sambandi bendir kærunefnd jafnframt á að í gögnum um aðstæður á Ítalíu, þ. á m. í skýrslu Asylum Information Database frá apríl 2019, kemur fram að einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd á Ítalíu eiga sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til örorkubóta en meðal skilyrða fyrir greiðslu þeirra er að einstaklingur hafi verið á vinnumarkaði í a.m.k. fimm ár. Þeir einstaklingar sem ekki uppfylla skilyrði fyrir greiðslu örorkubóta geta fengið annars konar velferðarþjónustu sem er veitt af tryggingastofnun ríkisins (í. Istituto Nazionale della Previdenza Sociale/INPS). Þjónustan felur m.a. í sér fjárhagsaðstoð í formi mánaðargreiðslna, sérstakra greiðslna til fólks með fötlun og umönnunarbóta. Þá geta einstaklingar eftir atvikum átt rétt á frekari velferðarþjónustu, svo sem atvinnuleysisbótum, fjölskyldubótum og félagslegs húsnæðis. Búseta á tilteknu svæði er ekki skilyrði fyrir félagslegri aðstoð en þó er í sumum tilfellum gerð krafa um 10 ára búsetu á svæðinu auk tveggja ára samfelldrar búsetu á Ítalíu fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta, sem getur reynst vandamál fyrir einstaklinga með alþjóðlega vernd. Þar að auki er möguleiki þeirra á því að fá félagslega aðstoð takmarkaður enda byggir kerfið að miklu leyti á því að einstaklingar eigi þar fjölskyldu sem veitt geti þeim stuðning.

Að teknu tilliti til gagna málsins er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 11. apríl 2019, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik máls hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður kærunefndar var kveðinn upp, sbr. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Eins og að framan greinir hefur kærunefnd þegar tekið afstöðu til málsástæðna kæranda er snúa að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmálans. Varðandi athugasemdir kæranda um að hann uppfylli 17. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar (reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013) þá bendir kærunefnd á að hann hefur hlotið alþjóðlega vernd á Ítalíu og hefur þar gilt dvalarleyfi til 3. desember 2019 og því eigi fyrrgreint ákvæði reglugerðarinnar eðli máls samkvæmt ekki við í máli hans, sbr. 1. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins er því hafnað.

 

 

 

Úrskurðarorð

 

 

Kröfu kæranda er hafnað.

 

The request of the appellant is denied.

 

 

 

Hjörtur Bragi Sverrisson

 

 

Anna Tryggvadóttir                                                                        Ívar Örn Ívarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum