Hoppa yfir valmynd
12. febrúar 2019 Utanríkisráðuneytið

Á annað hundrað börn leyst undan hermennsku í Suður-Súdan í dag

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Í dag, á alþjóðadegi gegn barnahermennsku, voru 119 börn leyst undan hermennsku í Yambio, Suður-Súdan, þar á meðal 48 stúlkur. Yngsta barnið var 10 ára.  Alls hafa yfir 3,100 börn verið leyst úr haldi vígahópa síðan átök brutust út í landinu árið 2013.

Á vef UNICEF á Íslandi segir að á sama tíma og þessar fréttir séu gleðilegar minnist UNICEF þeirra barna sem hafa fallið á vígvellinum sem barnahermenn. „Sýnum samstöðu með þeim börnum sem eru þvinguð til að taka þátt í vopnuðum átökum víða um heim og þrýstum á stríðandi fylkingar að sleppa tafarlaust öllum þeim börnum sem eru enn í haldi vígahópa,“ segir í fréttinni.

Á síðasta ári tók UNICEF þátt í að leysa 955 börn undan hermennsku í Suður-Súdan, þar á meðal 265 stúlkur. Alls hafa því yfir 3,100 börn í Suður-Súdan verið leyst undan hermennsku frá því að stríðið braust út árið 2013. Stefnt er á að leysa enn fleiri börn úr haldi á þessu ári.

„Mörg börnin hafa barist í fjölda ára og enn fleiri hafa aldrei gengið í skóla. Ekki eru öll börnin látin bera vopn, sum eru notuð utan vígvallarins sem sendiboðar, njósnarar eða kokkar og stúlkur jafnt sem drengir eru beitt kynferðisofbeldi. Öll upplifa þau hrylling sem ekkert barn á að þurfa að þola.

UNICEF vinnur með samstarfsaðilum að því að frelsa þessi börn og hjálpa þeim að sameinast fjölskyldum sínum og samfélögum á ný. Það er erfitt verkefni í landi þar sem fjölskyldur hafa hrakist á flótta innan landsins eða flúið átökin yfir til nágrannaríkjanna,“ segir í frétt UNICEF.

Þar segir ennfremur að UNICEF veiti börnum sem hefur verið sleppt úr haldi heilsugæslu og sálrænan stuðning, auk nauðsynja á borð við mat, vatn og föt til undirbúa endurkomu þeirra til fjölskyldna sinna. Samfélögum og þorpsbúum í heimkynnum barnanna sé einnig veittur stuðningur og fræðsla til að koma í veg fyrir að þau verði fyrir aðkasti þegar þau koma til baka, en einnig til að draga úr líkum á að þau verði aftur tekin inn í vopnaða hópa. „Þegar börnin eru tilbúin eru þau studd til að hefja skólagöngu eða starfsþjálfun. UNICEF leggur allt kapp við að hjálpa börnum sem hafa verið notuð sem hermenn til að aðlagast samfélögum sínum á nýjan leik. Á sama tíma þrýstir UNICEF alþjóðlega á stjórnvöld um allan heim að beita sér af enn meiri hörku í að útrýma notkun barna í hernað.“

 

James var 14 ára þegar honum var rænt af vígasveitum og látinn berjast í stríðinu í Suður-Súdan. Hann var neyddur til að berjast gegn sínu eigin fólki og sá fjölda barna deyja. Það varð honum til lífs að hann sjálfur varð fyrir skoti. Hann var skotinn í fótlegginn og hermennirnir sem voru með honum skildu hann eftir. James var að blæða út þegar hann fannst og var komið á spítala í Juba, höfuðborg Suður-Súdan. Þegar búið var að finna út hver hann var hjálpaði UNICEF honum að sameinast móður sinni og sex systkinum á ný.

Sem betur fer endar saga James vel, en enn eru að minnsta kosti 19 þúsund börn notuð sem hermenn í Suður-Súdan. Ástandið er einnig skelfilegt víða þar sem átök hafa geisað í lengri tíma, til dæmis í Sómalíu, Miðafríkulýðveldinu og Afganistan þar sem UNICEF áætlar að tugþúsundir barna séu notuð sem barnahermenn.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum