Hoppa yfir valmynd
22. júní 2021

Úttekt á öryggisgæslu

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar framkvæmdi nýverið úttekt á öryggisgæslu sem rekin er í þremur sveitarfélögum á grundvelli samninga við félagsmálaráðuneytið. Um er að ræða þjónustu fyrir fatlaða einstaklinga sem dæmdir hafa verið til vistunar skv. 62. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 þar sem þeir hafa verið metnir ósakhæfir eða beiting refsingar talin vera árangurslaus. Meginmarkmið úttektarinnar var að fá fram upplifun og reynslu einstaklinga af búsetu í öryggisgæslu, að meta gæði þeirrar þjónustu sem þar fer fram, sem og að afla upplýsinga um þjónustuna sem getur nýst við þróun og mótun hennar til framtíðar, en unnið er nú að gerð lagafrumvarps um öryggisgæslu innan félagsmálaráðuneytisins.

Eftirlitsaðilar tóku viðtal við fimm af þeim sex einstaklingum sem úttektin náði til, fulltrúa sveitarfélaganna þriggja, forstöðumenn allra öryggisgæsluúrræðanna og þrjá til fjóra starfsmenn í hverju sveitarfélagi.  Samhliða viðtölunum fóru fram vettvangsathuganir í hverju húsnæði. Auk þess var rætt við fulltrúa félagsmálaráðuneytisins, réttindagæslumenn fatlaðra og ráðgefandi sérfræðing á réttargeðdeild LSH. Í ljósi þess til hve fárra einstaklinga úttektin nær er úttektaskýrslan ekki birt í heild sinni heldur eingöngu útdráttur úr henni. Þetta er gert til að gæta þess að upplýsingar í skýrslunni séu ekki persónugreinanlegar. Heildarútgáfa skýrslunnar var send félagsmálaráðuneytinu sem og félagsmálastjórum þeirra sveitarfélaga sem úttektin náði til.

Niðurstöður

Meginniðurstöður úttektarinnar sýndu að brýn þörf er fyrir lagaramma um öryggisgæslu sem og skýrar skilgreiningar á þjónustunni en hvergi er að finna skilgreiningu á inntaki öryggisgæslu og hvernig slík gæsla skuli framkvæmd. Í kröfulýsingu þjónustunnar segir að í öryggisgæslu skuli „gæta öryggis almennings og almannahagsmuna samkvæmt þjónustusamningi og kröfulýsingu. Jafnframt að tryggja að gæsla og þjónusta við einstaklinga sem þurfa á henni að halda sé í samræmi við þarfir og gildandi lög og reglur og þá alþjóðasamninga sem Ísland er aðili að.“ Af vettvangsathugunum og viðtölum má ráða að í þjónustunni er almennt unnið að því að skapa einstaklingunum skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum eins og hægt er m.t.t. öryggis þeirra og almennings. Fram kom þó hversu vandasamt það getur reynst að samræma hugmyndafræði um sjálfstætt líf og þá þvinguðu þjónustu sem öryggisgæsla felur í sér. Erfitt er að greina hvaða réttindi það eru sem fatlaðir einstaklingar eru sviptir við það að fá dóm sem kveður á um vistun á grundvelli 62. gr. almennra hegningarlaga. Þá er óljóst hvort og þá hvaða auknu heimildir til beitingar nauðungar sveitarfélögin sem sinna öryggisgæslu fá til þess að „gæta öryggis almennings og almannahagsmuna samkvæmt þjónustusamningi.“ Í vettvangsathugunum virtust einstaklingarnir almennt vera beittir þeirri lágmarksnauðung sem getur talist nauðsynleg til að koma í veg fyrir að þeir valdi sjálfum sér eða öðrum líkamstjóni eða stórfelldu eignatjóni.

Skilgreining á öryggisgæslu er ekki síður mikilvæg til að skýra hvenær öryggisgæsla er ekki lengur nauðsynleg heldur nægi almenn og sértæk félagsþjónusta sem uppfylli þjónustuþarfir viðkomandi með tilheyrandi starfsmannafjölda og, eftir atvikum, undanþáguheimildum til beitingar nauðungar. Mikilvægt er að tryggt sé nægilegt fjármagn til sveitarfélaga svo þau geti veitt einstaklingum sem koma úr öryggisgæslu viðeigandi þjónustu með tilliti til ríkari þjónustuþarfa þeirra. Skortur á fjármagni til að veita almenna og sértæka félagsþjónustu má ekki verða til þess að einstaklingur ílengist í öryggisgæslu. Þá þarf að gæta að því að í öryggisgæslu fari fram markviss hæfing og stuðningur til að styrkja einstaklinginn svo hann hljóti að endingu lausn, þar sem um tímabundna þjónustu er að ræða.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum