Hoppa yfir valmynd
9. október 2007 Utanríkisráðuneytið

Viljayfirlýsing um samstarf á sviði endurnýjanlegra orkugjafa

Dr. Gunnar Pálsson og V. Subramanian undirrita sameiginlega viljayfirlýsingu Íslands og Indlands um samstarf á sviði endurnýjanlegra orkugjafa
Dr. Gunnar Pálsson og V. Subramanian undirrita sameiginlega viljayfirlýsingu Íslands og Indlands um samstarf á sviði endurnýjanlegra orkugjafa

FRÉTTATILKYNNING
frá utanríkisráðuneytinu

Nr. 110/2007

Sendiherra Íslands á Indlandi, Dr. Gunnar Pálsson, og ráðuneytisstjóri ráðuneytis endurnýjanlegra orkugjafa, V. Subramanian, undirrituðu í dag sameiginlega viljayfirlýsingu Íslands og Indlands um samstarf á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.

Í yfirlýsingunni árétta ríkin áhuga sinn á orkumálasamstarfi, einkum á sviði nýrra og endurnýjanlegra orkugjafa. Komið verður á fót sameiginlegum vinnuhópi ríkjanna til að samhæfa samstarfið frekar. Verkefni vinnuhópsins verður einkum að skilgreina helstu samstarfsvið, ýta einstökum verkefnum úr vör, og stuðla að samstarfi rannsóknarstofnana, háskóla og fyrirtækja eftir því sem við á.

Indversk stjórnvöld leggja ríka áherslu á notkun endurnýjanlegra orkugjafa, en spár gera ráð fyrir að orkuframleiðsla á Indlandi muni þurfa að fjórfaldast á næstu 25 árum til að standa undir fyrirsjáanlegum hagvexti í landinu. Núverandi hlutdeild endurnýjanlegra orkugjafa í heildarorkuframleiðslu Indlands er um 7,8%. Gert er ráð fyrir að þetta hlutfall aukist í 10% eigi síðar en árið 2012 og hækki enn frekar í framhaldi af því í ljósi mikilla, ónýttra möguleika og með aukinni tækniþekkingu.

Indversk fyrirtæki eru þegar í fremstu röð fyrirtækja í heiminum í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa, þ.m.t. vatnsorku, sólarorku, vindorku og lífmassa. Indversk stjórnvöld hafa auk þess gefið möguleikum á sviði jarðhita og nýtingu vetnis sem orkubera, aukinn gaum. Markaður fyrir endurnýjanlega orku á Indlandi er talinn nema jafnvirði 2,5 milljarða Bandaríkjadala og vex hann um 15% á ári.

Útflutningsráð í samvinnu við sendiráð Íslands í Nýju Delí, undirbýr nú komu viðskiptasendinefndar til Indlands dagana 22.-29. nóvember nk. með áherslu á orkumál og fjárfestingar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum