Hoppa yfir valmynd
14. mars 2017 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 139/2017

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. mars 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 139/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU16120059

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 3. janúar 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 12. desember 2016, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og endursenda hann til Svíþjóðar.

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að Útlendingastofnun verði gert að taka umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, sbr. 1. mgr. 17. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin).

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests sbr. sama ákvæði.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 10. október 2016. Við leit að fingraförum kæranda í svokölluðum Eurodac gagnagrunni, þann 18. október 2016, kom í ljós að fingraför hans höfðu verið skráð í grunninn af yfirvöldum í Svíþjóð. Þann 21. október 2016 var beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd beint til yfirvalda í Svíþjóð, sbr. 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Þann 31. október 2016 barst svar frá sænskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 12. desember 2016 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Kærandi kærði ákvörðunina þann 3. janúar 2017 til kærunefndar útlendingamála auk þess að óska eftir frestun réttaráhrifa á hinni kærðu ákvörðun á meðan mál hans væri til meðferðar. Fallist var á frestun réttaráhrifa á meðan málið væri til kærumeðferðar með bréfi kærunefndar, dags. 20. desember 2016. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 13. janúar 2017. Þann 2. og 17. febrúar 2017 bárust kærunefnd viðbótargögn í málinu.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi endursendur til Svíþjóðar. Lagt var til grundvallar að Svíþjóð virði ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu og flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, þar með talið bann við endursendingu til ríkis þar sem líf og frelsi kæranda kynni að vera í hættu (non-refoulement). Því fæli flutningur kæranda til Svíþjóðar ekki í sér brot gegn 45. gr. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá var talið að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 46. gr. a sömu laga. Aðstæður kæranda féllu ekki undir 16. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar og væru ekki slíkar að ástæða væri til að beita 1. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar í málinu. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Svíþjóðar, sbr. d-lið 1. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga. Þá var varakröfu kæranda um að honum yrði veitt dvalarleyfi á Íslandi af mannúðarástæðum skv. 12. gr. f þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002 vísað frá í ljósi þess að ekki yrði fjallað efnislega um mál kæranda hér á landi.

Kærandi byggði mál sitt á því að staða umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð hafi versnað til muna undanfarið vegna mikils álags á hæliskerfinu og sænsk stjórnvöld hafi gripið til ýmissa aðgerða sökum þess. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar er vísað í dóm Mannréttindadómstóls Evrópu í máli M.S.S. gegn Belgíu og Grikklandi (nr. 30696/09) frá 21. janúar 2011 en þar komi fram að þegar vísbendingar eru um að aðildarríki meðhöndli ekki umsækjendur um alþjóðlega vernd í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar beri öðrum aðildarríkjum að nýta undanþáguákvæði Dyflinnarreglugerðarinnar og taka mál viðkomandi til efnismeðferðar. Útlendingastofnun tekur fram að engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni fram á að Svíþjóð meðhöndli ekki umsækjendur um alþjóðlega vernd í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. Þá hafi kærandi ekki sýnt fram á að sænsk stjórnvöld ráði ekki við það álag sem sé á hæliskerfinu.

Kærandi byggði mál sitt einnig á því að taka skuli umsókn hans um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar samkvæmt 2. mgr. 46. gr. a þágildandi laga um útlendinga þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sömu greinar þar sem sérstakar ástæður mæli með því og að ákvæðið kveði á um heimild til handa stjórnvöldum en ekki skyldu. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar er tekið fram að markmið Dyflinnarsamstarfsins sé að koma í veg fyrir að vafi leiki á um hvar umsókn skuli tekin til meðferðar og tryggja að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu ekki sendir frá einu aðildarríki til annars án þess að nokkurt þeirra viðurkenni ábyrgð sína á meðferð umsóknar. Það að ríki taki mál til efnismeðferðar þar sem umsækjandi hafi sótt um alþjóðlega vernd í öðru aðildarríki sé því undantekningarregla. Til þess að undantekningarreglunni verði beitt þurfi sérstakar ástæður að mæla með því en ekki verði séð að ástæður kæranda séu með þeim hætti.

Þá byggði kærandi mál sitt á því að Útlendingastofnun rannsaki heilsufar hans, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, með það í huga hvaða áhrif flutningurinn til Svíþjóðar muni geta haft á heilsufar kæranda. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar er tekið fram að heilbrigðiskerfið í Svíþjóð sé með því betra sem gerist í heiminum og hafi Svíþjóð varið hvað mestum fjármunum til heilbrigðismála af öllum ríkjum í OECD fyrir árið 2015. Útlendingastofnun bendir á að í viðtali við kæranda hafi hann ekki gert athugasemdir við heilbrigðisþjónustu Svíþjóðar. Þá hafi engin gögn verið lögð fram í málinu sem sýni fram á að sænska heilbrigðiskerfið sé ekki í stakk búið til að sinna þörfum kæranda hvað heilbrigðisþjónustu varði. Þá muni Útlendingastofnun verða við þeirri beiðni um að hlutast til um að afla læknisvottorðs til að meta áhrif flutnings á kæranda til Svíþjóðar.

Útlendingastofnun vísar í tilskipun um kröfur varðandi móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd nr. 2013/33/ESB varðandi viðmiðunarreglur um hvaða umsækjendur um alþjóðlega vernd séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Í 21. gr. tilskipunarinnar komi fram að einstaklingar sem séu með alvarleg heilsufarsvandamál séu í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Fyrir liggi að kærandi sé [...]. Í niðurstöðu Útlendingastofnunar er tekið fram að kærandi sé að minnsta kosti nálægt því að teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Þegar metið sé hvort flytja skuli slíka einstaklinga á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar þurfi að fara fram áhættumat í hverju máli fyrir sig. Í máli kæranda liggi fyrir að hann hafi fengið læknisaðstoð í Svíþjóð og í framburði kæranda í viðtali hafi komið fram að hann setji ekkert út á þá læknisþjónustu. Með hliðsjón af dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu verði ekki annað séð en að mál kæranda feli ekki í sér þær mjög óvenjulegu aðstæður sem þurfi til að ná alvarleikastigi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Það sé því mat Útlendingastofnunar að unnt sé að flytja kæranda til Svíþjóðar þrátt fyrir viðkvæma stöðu.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann mótmæli því að vera sendur til Svíþjóðar þar sem hann hafi fengið neikvæða niðurstöðu frá sænskum yfirvöldum vegna umsóknar sinnar um alþjóðlega vernd og þar sé enga hjálp að fá. Þá kemur fram í greinargerð kæranda að hann glími við veikindi en hann [...]. Kærandi hafi farið í felur í Svíþjóð eftir að hann fékk neikvæða niðurstöðu í máli sínu árið 2013 en kærandi hafi framfleytt sér með hjálp vinar þar til hann flutti til Íslands. Á tímabilinu 2013 til 2016 hafi kærandi aðeins leitað læknishjálpar í neyðartilvikum og hafi ávallt óttast að honum yrði vísað úr landi. Kærandi taki fram að heilsufar sitt hafi versnað til muna síðastliðin ár þar sem hann hafi ekki átt rétt á heilbrigðisþjónustu. Þá greini kærandi frá því að samkvæmt læknisvottorði [...].

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að þann 1. janúar 2017 hafi tekið gildi ný lög um útlendinga nr. 80/2016. Kærandi bendi á að réttarstaða manna ákvarðist af lögum eins og þau séu hverju sinni. Fari því um mál þetta samkvæmt ákvæðum laga nr. 80/2016 þegar þau leggi ekki þrengri skorður við réttindum kæranda en eldri lög hafi gert þar sem hann sótti um alþjóðlega vernd hér á landi fyrir 1. janúar 2017 og vegna sjónarmiða um bann við afturvirkni íþyngjandi laga.

Vísað er til þess í greinargerð kæranda að innanríkisráðherra Svíþjóðar hafi gefið frá sér yfirlýsingu þann 11. nóvember 2015 þess efnis að vegna mikils álags sem hafi verið á sænska hæliskerfinu yrði tekið upp tímabundið eftirlit á landamærum landsins sem yrði framlengt eftir þörfum. Eftir að þessu eftirliti hafi verið komið á hafi dregið úr umsóknum um alþjóðlega vernd í Svíþjóð en hins vegar glími landið við margar áskoranir og erfiðleika vegna hins mikla fjölda umsækjenda um alþjóðlega vernd sem fyrir sé í landinu. Þá hafi hatur á útlendingum gert vart við sig í meira mæli en áður hafi þekkst og hafi til að mynda ítrekað verið kveikt í húsnæði umsækjenda um alþjóðlega vernd víðsvegar um landið. Enn fremur beri að nefna það að þann 1. júní 2016 hafi tekið gildi breytingar á lögum um móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd í Svíþjóð sem feli í sér töluverða skerðingu á réttindum umsækjenda í landinu. Þá hafi Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna einnig gagnrýnt stefnu sænskra stjórnvalda í þessum málaflokki og telji að hún geti sett ákveðið fordæmi fyrir önnur evrópsk stjórnvöld sem geti haft skelfilegar afleiðingar fyrir fólk í þörf fyrir alþjóðlega vernd. Í skýrslu Evrópuþingsins frá desember 2015 greini frá því að Evrópuráðið hafi sent Svíþjóð formlega áminningu fyrir að hafa ekki innleitt með fullnægjandi hætti endurskoðaða tilskipun um kröfur varðandi móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd nr. 2013/33/ESB.

Þá kemur fram í greinargerð kæranda að kerfisbundinn galli á aðbúnaði og meðferð umsækjenda um alþjóðlega vernd í aðildarríki sé ekki ákvörðunarástæða fyrir því að umsókn sé tekin til meðferðar í öðru aðildarríki en því sem ber ábyrgð skv. Dyflinnarreglugerðinni. Það fái stoð í greinargerð innanríkisráðuneytisins um endursendingar umsækjenda um alþjóðlega vernd til Ítalíu, frá desember 2015. Þar komi meðal annars fram að nýlegir dómar Mannréttindadómstóls Evrópu hafi skýrt að það sé ekki nauðsynlegt að sýna fram á kerfislæga annmarka á málsmeðferð eða móttöku umsækjenda um alþjóðlega vernd í viðtökulandinu heldur skuli miða við það hvort veruleg ástæða sé til að ætla að hlutaðeigandi einstaklingur standi frammi fyrir raunverulegri hættu á að verða fyrir meðferð í viðtökuríkinu sem samrýmist ekki 3. gr. mannréttindasáttmálans.

Í greinargerð kæranda er vísað til c-liðar 1. mgr. og 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og lögskýringargagna að baki þeim. Vísað er til þess að ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kveði á um heimild til að synja um efnismeðferð en ekki skyldu og að 2. mgr. ákvæðisins geri kröfu um að mat fari fram í hverju tilviki fyrir sig varðandi hvort sérstakar ástæður mæli með því að umsókn verði tekin til efnismeðferðar. Kærandi bendi á að samkvæmt frumvarpi sem varð að núgildandi lögum nr. 80/2016 um útlendinga sé það vilji löggjafans að 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga víkki út gildissvið ákvæðisins miðað við beitingu stjórnvalda á sambærilegu ákvæði í hinum eldri lögum um útlendinga nr. 96/2002. Sé það í samræmi við meginreglu nýju laganna um að allar umsóknir um alþjóðlega vernd skuli teknar til efnismeðferðar.

Jafnframt byggir kærandi á því að hann hafi í greinargerð til Útlendingastofnunar, dags. 1. desember 2016, lagt áherslu á skyldu stofnunarinnar til að rannsaka heilsufar sitt með vísan til 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, meðal annars hvaða áhrif flutningur til Svíþjóðar gæti haft á heilsufar kæranda ásamt einstaklingsbundnu áhættumati. Kærandi bendi á að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé komist að þeirri niðurstöðu að kærandi sé að minnsta kosti nálægt því að teljast vera í sérstaklega viðkvæmri stöðu og tilgreini að kærandi hafi notið læknisaðstoðar í Svíþjóð og því meti stofnunin það svo að unnt sé að flytja kæranda til Svíþjóðar þrátt fyrir viðkvæma stöðu. Kærandi bendi á að hann hafi fengið lokaniðurstöðu í mál sitt fyrir sænskum stjórnvöldum árið 2013. Heilsufari hans hafi hrakað frá þeim tíma til muna og þá hafi hann ekki verið undir stöðugu lækniseftirliti eftir að hann hafi fengið lokasynjun. Kærandi fari því fram á það að kærunefnd úrskurði ekki í máli sínu fyrr en Útlendingastofnun hafi aflað læknisvottorðs, eins og fallist hafi verið á í ákvörðun stofnunarinnar að gera, til að meta hvaða áhrif flutningur til Svíþjóðar kunni að hafa á kæranda.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Greining á stöðu kæranda

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga um útlendinga skal fara fram einstaklingsbundin greining á því hvort umsækjandi um alþjóðlega vernd sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Skilgreiningu á einstaklingi í sérstaklega viðkvæmri stöðu er að finna í 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga en þar kemur fram að átt sé við einstaklinga sem vegna tiltekinna persónulegra eiginleika eða aðstæðna hafa sérþarfir sem taka þarf tillit til við meðferð máls eða geta ekki að fullu eða með engu móti nýtt sér rétt eða uppfyllt skyldur sem kveðið er á um í lögunum án aðstoðar eða sérstaks tillits, t.d. alvarlega veikir einstaklingar. Þar sem kærandi [...], telst hann vera alvarlega veikur einstaklingur. Hann telst því vera einstaklingur í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Mat á því hvort taka eigi umsókn kæranda til efnismeðferðar

Fyrir liggur í máli þessu að sænsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli d-liðar 1. mgr. 18. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja henni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Svíþjóðar er byggt á því að kærandi hafi fengið synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd þar í landi.

Í c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að umsókn um alþjóðlega vernd skv. 37. gr. skuli tekin til efnismeðferðar nema heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda. Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því.

Við túlkun ákvæða 36. gr. laga um útlendinga tekur kærunefnd fram að hin almenna regla sem kemur fram í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er sú að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar. Ef skilyrði a- til c-liðar eru fyrir hendi er heimilt að víkja frá þeirri meginreglu og synja um efnismeðferð umsóknar um alþjóðlega vernd. Þó skal taka umsókn til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæla annars með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum sem fylgdu 36. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 80/2016 kemur fram að með ákvæðinu sé stjórnvöldum eftirlátið mat og hafi heimild til að taka mál til efnismeðferðar umfram það sem leiðir af sérstökum reglum, svo sem reglum Dyflinnarreglugerðarinnar. Um er að ræða heildstætt mat á þeim atriðum sem fallið geta undir sérstök tengsl og sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laganna.

Heilsufar er eitt af þeim þáttum sem stjórnvöldum ber að líta til við mat á því hvort aðstæður umsækjanda um alþjóðlega vernd teljist sérstakar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og mæli þannig með því að umsókn hans verði tekin til efnismeðferðar. Fara þarf fram heildstætt mat á aðstæðum umsækjanda þar sem litið er til heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um þær aðstæður sem bíða kæranda í viðtökuríki, þ.m.t. hvort sú heilbrigðisþjónusta sem umsækjandi hefur aðgang að í viðtökuríki sé fullnægjandi. Kærunefnd leggur áherslu á að mat á því hvort heilsufar umsækjanda teljist sérstakar aðstæður er ekki bundið við skoðun á heilbrigðiskerfi móttökuríkis heldur þarf matið að fara fram á einstaklingsgrundvelli með hliðsjón af atvikum málsins. Meðal þeirra atvika sem sérstaklega þarf að líta til eru áhrif flutnings til viðtökuríkis á heilsufar umsækjanda að teknu tilliti til aðstæðna við flutnings, sbr. einkum 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Verði niðurstaða heildstæðs mats á atvikum málsins sú að gögn málsins bendi eindregið til þess að framkvæmd synjunar á efnismeðferð umsóknar komi til með að hafa verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu umsækjanda telur kærunefnd að taka beri slíkar umsóknir til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda sé þá öruggt að einstaklingur verði ekki fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð við framkvæmd slíkrar ákvörðunar, sbr. 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 68. gr. stjórnarskrárinnar.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 17. nóvember 2016 ekki vera við góða heilsu. Kærandi kvaðst [...]

Kærunefnd telur að gögnin sýni fram á að kærandi sé haldinn [...] og hafi heilsu hans hrakað frá því sem var þegar hann var búsettur í Svíþjóð. Í læknisvottorði frá [...] Benda gögnin því eindregið til þess að kærandi sé við mjög slæma [...] heilsu sem fari versnandi og kærandi þurfi á nauðsynlegri meðferð að halda vegna [...].

Í ljósi þeirra læknisfræðilegu gagna sem liggja fyrir í málinu telur kærunefnd ljóst að flutningur kæranda til Svíþjóðar með flugi sé ekki mögulegur vegna heilsufars hans. Þótt ekki sé útilokað að framkvæma flutning til Svíþjóðar sjóleiðina telur kærunefnd að þær upplýsingar sem liggja fyrir um heilsufar kæranda, m.a. að heilsufar hans sé ekki stöðugt heldur fari honum hrakandi og upplýsingar um að kærandi [...], séu þess eðlis að gögnin bendi eindregið til þess að mikil hætta sé á því að flutningur til Svíþjóðar hafi verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á [...] heilsu kæranda.

Að framangreindu virtu og þegar litið er á mál kæranda í heild sinni, er það mat kærunefndar að þrátt fyrir að staðfesting sænskra stjórnvalda á ábyrgð þeirra á kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd liggi fyrir þá séu einstaklingsbundnar aðstæður kæranda svo sérstakar að í þessu tilviki sé nærtækast að taka mál kæranda til efnislegrar meðferðar hér á landi. Beri því eins og hér háttar sérstaklega til að flytja ábyrgð á efnislegri meðferð umsóknar kæranda um alþjóðlega vernd yfir á íslensk stjórnvöld á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Niðurstaða kærunefndar er byggð á heildstæðu mati á sérstökum aðstæðum kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda til efnismeðferðar.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate of Immigration shall examine the merits of the application of the applicant for asylum in Iceland.

Anna Tryggvadóttir

Þorbjörg Inga Jónsdóttir Erna Kristín Blöndal

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum