Hoppa yfir valmynd
3. september 2002 Innviðaráðuneytið

Framtíð Breiðafjarðarferjunnar Baldurs

Samgönguráðherra skipar nefnd um framtíð Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.

Árið 1989 var Breiðafjarðarferjan Baldur tekin í notkun og hóf siglingar milli Brjánslækjar og Stykkishólms með viðkomu í Flatey. Rekstur ferjunnar var boðinn út árið 2000 og gildir sá samningur til ársloka 2003 með heimild til framlengingar til ársins 2005.

Með hliðsjón af núverandi vegáætlun og skv. upplýsingum Vegagerðarinnar er líklegt að vegurinn austur Barðaströnd verði að jafnaði vetrarfær árið 2004 og síðar.

Heimildir ríkisvaldsins til þess að reka og styrkja ferjusamgöngur eru í 23. gr. vegalaga nr. 45/1994 en hún er eftirfarandi:
"Vegagerðinni er heimilt að kaupa, eiga og hafa umsjón með ferjum og flóabátum sem reknir eru til samgöngubóta, svo og eiga aðild að félögum sem hafa eignarhald á þeim.
Heimilt er að greiða af vegáætlun hluta kostnaðar við ferjur til flutnings á fólki og bifreiðum yfir sund og firði, enda komi ferjan í stað vegasambands um stofnveg eða tengiveg a.m.k. hluta úr ári. Einnig er heimilt að greiða hluta kostnaðar við bryggjur fyrir slíkar ferjur."

Hlutverk ferjunnar er og hefur verið að þjóna byggðinni á sunnanverðum Vestfjörðum og í Breiðafjarðareyjum. Vaxandi þáttur í rekstri ferjunnar hefur verið að sigla með ferðamenn, sem ferðast að sumarlagi um Snæfellsnes og Vestfirði. Hafa þeir í auknum mæli sótt í að sigla og njóta ferðar um Breiðafjörð með viðkomu í Flatey, sem er að verða umtalsverð sumarhúsabyggð.

Augljóst er sbr. framangreindu að nú er rétti tíminn til þess að fjalla um siglingar Baldurs og leggja fram tillögur um skipan mála til nokkurrar framtíðar. Ekki síst verður að líta til þess hvort nauðsynlegt sé að auka þjónustu í samgöngum til eflingar byggðanna á Vestfjörðum. Í tengslum við gerð samgönguáætlunar og með hliðsjón af þætti ferjunnar í eflingu ferðaþjónustu á Vestfjörðum og við Breiðafjörð hefur samgönguráðherra því skipað nefnd sem geri tillögur um framtíð ferjusiglinga um Breiðafjörð.
Nefndin skal:
1) Leggja mat á þörfina fyrir flutninga með ferjum á siglingaleið Baldurs að teknu tilliti til uppbyggingar vegakerfis um Barðaströnd og gera tillögur um þjónustu ferjunnar og fjölda ferða,
2) leggja mat á nauðsynlega tegund skips til að mæta þeirri þörf sem talin er verða á flutningum í þágu atvinnulífs og íbúa svo og í þágu ferðamanna.

Ráðherra leggur áherslu á að nefndin komi fram með allar þær tillögur og hugmyndir sem hún telur vænlegar í þágu bættra samganga við Vestfirði og til eflingar ferðaþjónustunni á svæðinu.

Nefndina skipa Kristján Vigfússon, Siglingastofnun Íslands, formaður, Pétur Ágústsson skipstjóri, Stykkishólmi, Einar Oddur Kristjánsson alþingismaður, Flateyri, Sigfús Jónssson framkvæmdastjóri Nýsi, Reykjavík, Magnús Valur Jóhannsson umdæmisstjóri Vegagerðinni, Borgarnesi, og Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir viðskiptafræðingur, Tálknafirði.

Mikilvægt er að nefndin ljúki störfum í september svo hægt sé að taka tillit til tillagna hennar við gerð samgönguáætlunar 2003-2014.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum