Hoppa yfir valmynd
8. maí 2001 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Kjör elli- og örorkulífeyrisþega bætt - álit vinnuhóps

Álit vinnuhóps um endurskoðun almannatrygginga
maí 2001



1. Helstu atriði í áliti starfshópsins
Starfshópurinn telur að í grundvallaratriðum sé lífeyriskerfi landsmanna traust. Það hvílir á þremur meginstoðum; lögbundnum lífeyrissjóðum, almannatryggingum og frjálsum lífeyrissparnaði. Hér er um að ræða allstyrkar stoðir og í sameiningu ná þær vel flestum þeim markmiðum sem setja má lífeyriskerfi án þess að valda óhóflegum kostnaði. Lífeyrissjóðirnir og hinn frjálsi lífeyrissparnaður greiða lífeyri sem byggir á iðgjaldagreiðslum hinna tryggðu og stuðla þannig að því að tryggja ævitekjur þeirra. Lífeyrir almannatrygginga myndar öryggisnet og bætir einkum kjör þeirra sem einhverra hluta vegna eiga lítil lífeyrisréttindi. Öryggisnetið verður að vera nægjanlegt til að tryggja ákveðnar lágmarkstekjur, án þess að það slævi vilja manna til að spara eða til þess að vinna sé þess kostur.
Starfshópurinn leggur hér fram tillögur sem falla í fjóra meginflokka; hækkun bóta þeirra sem minnst hafa, hækkun bóta til hjóna, möguleika á frestun á töku lífeyris og sérstök meðferð á atvinnutekjum öryrkja.

Veruleg hækkun á sérstakri heimilisuppbót
· Sérstök heimilisuppbót sem í dag er kr. 7.409 á mánuði verði hækkuð í kr. 14.062. Lagt er til að sérstök heimilisuppbót verði hér eftir nefnd tekjutryggingarauki og verður það gert í þessu áliti.
· Skerðing tekjutryggingarauka vegna tekna verði lækkuð úr 100% í 67%.
· Þá verði skilyrði til að njóta þessa bótaflokks rýmkuð og öllum lífeyrisþegum gefinn kostur á honum í stað þess að hann gangi eingöngu til einhleypra sem eru einir um heimilisrekstur. Hjón fá með þessu rétt til tekjutryggingarauka að fjárhæð kr. 10.548 á hvort hjóna eða kr. 21.096 ef bæði eru lífeyrisþegar.
· Einhleypum ellilífeyrisþega sem á rétt á heimilisuppbótum eru í dag tryggðar lágmarkstekjur að fjárhæð kr. 72.659 á mánuði, en við hækkun tekjutryggingarauka yrðu honum tryggðar kr. 79.312.tekjur. Lágmarkstekjur örorkulífeyrisþega hækka samsvarandi úr kr. 73.546 í kr. 80.200 á mánuði.

Breyting á frítekjumarki ellilífeyrisþega
· Frítekjumark tekjutryggingar ellilífeyrisþega verði hækkað úr kr. 22.380 á mánuði í kr. 32.512. Sérstakt frítekjumark vegna greiðslna úr lífeyrissjóði verði hins vegar lagt niður. Er þetta gert til einföldunar og til samræmis við fyrirkomulag hjá örorkulífeyrisþegum.
· Sérstakt frítekjumark hjóna vegna lífeyrissjóðs er í dag kr. 7.093 á hvort þeirra. Til þess að gæta samræmis felur tillagan í sér að almennt frítekjumark þeirra hækki um meira en því nemur eða um 10 þús. kr.

Lífeyrir hjóna hækkar mikið
· Grunnlífeyrir hjóna hækki úr 90% af lífeyri einhleypings í 100%.
· Hjónum sem bæði eru ellilífeyrisþegar eru nú tryggðar lágmarkstekjur kr. 48.261 á mánuði á hvort þeirra eða sem nemur 66% af bótum einhleypings. Með hækkun grunnlífeyris og því að gefa þeim kost á tekjutryggingarauka að samtals að fjárhæð kr. 21.096 á mánuði verða lágmarkstekjur hvors þeirra kr. 60.651 á mánuði sem er 76,5% af tryggðum lágmarkstekjum einhleypings.

Sveigjanleg starfslok
· Ellilífeyrisþegum verði gefinn kostur á að fresta töku lífeyris almannatrygginga til allt að 72 ára aldurs, gegn hækkun allra bótaflokka um 0,5% á mánuði.

Úrbætur fyrir öryrkja
· Lagt er til að til skerðingar á tekjutryggingu öryrkja komi aðeins 60% atvinnutekna þeirra. Er þetta gert m.a. til að örva öryrkja til atvinnuþátttöku. Með þessari breytingu hækka bætur til öryrkja með atvinnutekjur mjög verulega.

Samræming frítekjumarks grunnlífeyris
· Lagt er til að frítekjumark grunnlífeyris verði kr. 105.930 á mánuði fyrir alla lífeyrisþega og hefur það í för með sér nokkra hækkun fyrir flesta hópa.

Bættur hagur lífeyrisþega
Í þessum tillögum felast aukin útgjöld ríkissjóðs sem nema um 1.350 milljónum króna á ári. Til þess að sýna áhrifin á hag lífeyrisþega eru hér tekin nokkur dæmi, en ítarlegri umfjölluna er að finna síðar í álitinu.


Nokkur dæmi

Dæmi 1.
A er einhleypur ellilífeyrisþegi. Hann hefur engar tekjur og býr í eigin íbúð ásamt systur sinni sem er útvinnandi. Hann fær ekki heimilisuppbót vegna þessa sambýlis. Frá Tryggingastofnun fær hann í dag kr. 50.103 á mánuði en fengi samkvæmt tillögunni kr. 60.651 á mánuði, sem er hækkun um 21%.

Dæmi 2.
B er einhleypur ellilífeyrisþegi, sem vinnur hálfan daginn og fær 50 þús. kr. á mánuði. Bætur frá almannatrygginum eru í dag kr. 46.878 á mánuði en verða kr. 53.618. Hækkunin er kr. 6.739 á mánuði eða 14,4%.

Dæmi 3.
C er einhleypur öryrki með engar tekjur aðrar en frá Tryggingastofnun. Hann á rétt á heimilisuppbót og fullum öðrum bótum. Í dag nema bætur hans kr. 73.546 á mánuði en verða kr. 80.199 sem er hækkun um 9%.

Dæmi 4.
D er einhleypur öryrki og er í hlutastarfi og fær 50 þús. kr. í laun á mánuði. Hann fær frá Tryggingastofnun kr. 55.305 á mánuði en samkvæmt tillögunni fengi hann kr. 66.137 og er það 19,6% hækkun. Nú býðst honum fullt starf og eru launin 100 þús. kr. á mánuði. Í dag myndu bætur hans verða kr. 22.340 en tillagan myndi færa honum kr. 48.712 á mánuði sem er hækkun um 118%.

Dæmi 5.
Hjónin E og F eru bæði ellilífeyrisþegar. Hann vinnur hluta úr degi og fær kr. 50.000 í mánaðarlaun, en hún er heimavinnandi húsmóðir og hefur aldrei unnið utan heimilis. Greiðslur almannatrygginga til þeirra eru í dag kr. 94.164 á mánuði en verða kr. 100.206. Hann á engan rétt í lífeyrissjóði og hefur hug á að hætta að vinna. Geri hann það í dag verða greiðslur Tryggingastofnunar kr. 96.522 á mánuði en með tillögunum munu þær hækka upp í kr. 121.302 sem er hækkun um 25,7%.

Dæmi 6.
G er öryrki og er kvæntur H, sem er með 200 þús. kr. í laun á mánuði. G er með 50 þús. kr. í laun. Hann fær í dag kr. 24.953 á mánuði frá Tryggingastofnun en með tillögunni yrðu bæturnar 29.453 og er það hækkun um 18%.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum