Hoppa yfir valmynd
14. maí 2001 Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Framsöguræða v. almannatr. 11.maí 2001



11. maí 2001
Endurskoðun almannatryggingakerfisins - framsöguræða ráðherra:
Jón Kristjánsson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingar á almannatryggingalögum og lögum um félagslega aðstoð. Frumvarpið byggist efnislega á tillögum nefndar, sem endurskoðaði almannatryggingalögin, en tillögurnar voru kynntar fyrr í vikunni. Frumvarpinu er ætlað að bæta hag þeirra elli-og örorkulífeyrisþega sem búa við þrengstan kost og er það í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem segir, að endurskoða skuli almannatryggingakerfið og lögð sérstök áhersla á að bæta kjör þeirra sem hafa lægstar tekjur.

Til að undirbúa breytingarnar var haustið 1999 skipuð nefnd og var hún undir forystu Ólafs Davíðssonar, ráðuneytisstjóra í forsætisráðuneytinu. Í kjölfar dóms Hæstaréttar í svokölluðu öryrkjamáli og lagabreytingar sem samþykkt var á Alþingi vegna hans í janúar samþykkti ríkisstjórnin á fundi sínum tillögu Ingibjargar Pálmadóttur, þáverandi heilbrigðismálaráðherra, þess efnis að nefnd Ólafs Davíðssonar hraðaði endurskoðun sinni og skilaði tillögum um miðjan apríl. Þær liggja nú fyrir í frumvarpsformi.

Í framsöguræðu sinni sagði Jón Kristjánsson, heilbrigðismálaráðherra, meðal annars þetta: ,,Efnisatriðum þeirra breytinga sem um er að ræða í frumvarpinu má skipta í eftirfarandi meginþætti: 1. Bæta kjör þeirra sem verst eru settir. 2. Jafna kjör hjóna og einhleypra lífeyrisþega. 3. Draga úr áhrifum atvinnutekna öryrkja á bætur þeirra og hvetja þá til atvinnuþátttöku.

Munur á bótarétti einstaklinga annars vegar og hjóna og sambýlisfólks hins vegar í núverandi kerfi er að mínu mati of mikill. Því hefur verið haldið fram að það hvetji til að búa einn og auki á einangrun. Bætur tveggja einstaklinga sem hafa viljað halda heimili saman lækka í núverandi kerfi svo mikið við slíka heimilisstofnun að sumir hverfa frá. Nú er þess freistað að koma í veg fyrir þessi áhrif.

Það hefur lengi verið baráttumál öryrkja að draga úr tengingu bóta við atvinnutekjur. Með þessum tillögum breytist skerðingarhlutfall bóta vegna atvinnutekna öryrkja að því er varðar tekjutryggingu og heimilisuppbót úr 45% í 27%. Með þessu eru bættir möguleikar öryrkja til þess að auka tekjur sínar með því að vinna.
Þetta er einnig hugsað til að draga úr einangrun öryrkja sem ekki hafa farið út á vinnumarkaðinn en geta eitthvað unnið."

Sjá framsöguræðu ráðherra...


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum