Hoppa yfir valmynd
Heilbrigðisráðuneytið

Forsíðufrétt - Uppbygging heilbrigðistölfræði 20-08-2001

Áætlun um uppbyggingu íslenskrar heilbrigðistölfræði
Mikilvægt er að markvisst verði byggð upp og þróuð heilbrigðistölfræði á Íslandi og að á hverjum tíma séu haldbærar upplýsingar sem gefa glögga mynd af starfsemi heilbrigðiskerfisins. Undafarin tvö ár hefur vinnuhópur á vegum heilbrigðisráðuneytisins fjallað um söfnun og vinnslu heilbrigðisupplýsinga á Íslandi. Í byrjun síðasta árs var gefin út skýrsla hópsins þar sem mat var lagt á stöðu heilbrigðistölfræðinnar hér á landi. Nú hefur verið gefin út skýrsla með áætlun um uppbyggingu heilbrigðistölfræði á Íslandi.

Í skýrslu hópsins segir að hér á landi hafi verið lagður góður grunnur að vandaðri heilbrigðistölfræði og mikil reynsla sé til í landinu af uppbyggingu og notkun gagnasafna. Dæmi um góð gagnasöfn eru nefnd, s.s. krabbameinsskrá, dánarmeinaskrá og smitsjúkdómaskrá. Hins vegar segir að þörf sé á fleiri sérhæfðum og sérþjálfuðum starfsmönnum til að vinna við uppbyggingu heilbrigðistölfræðinnar svo unnt sé að sinna verkefnum sem skyldi. Bent er á að mikið sé til af gögnum í ýmsum gagnasöfnum á vegum margra opinberra aðila, s.s. landlæknis, Hagstofu Íslands, heilbrigðisráðuneytisins o.fl. sem í mörgum tilvikum hafi ekki gefist kostur á að vinna úr eins fljótt og vel og þörf sé á. Af þessum sökum skorti oft nýjar tölfræðilegar upplýsingar um ýmis mikilvæg atriði heilbrigðismála á Íslandi og dæmi séu um að ,,nýjustu" upplýsingarnar sem birtar eru í innlendum og erlendum ritum séu allt að sjö ára gamlar.
Þá segir einnig að ekki sé nóg að taka saman tölulegar upplýsingar heldur þurfi líka að gera þær aðgengilegar og sjá til þess að stjórnendur og fagfólk í heilbrigðisþjónustu geti nýtt sér heilbrigðistölfræði í störfum sínum.

Í áætluninni eru taldar til aðgerðir sem vinnuhópurinn telur mikilvægt að hafi forgang á næstu tveimur árum í því skyni að byggja upp og bæta íslenska heilbrigðistölfræði:

1. Heilbrigðistölfræðisvið landlæknisembættisins verði styrkt þannig að embættið verði með réttu miðstöð heilbrigðistölfræði.
2. Unnið verði úr eldri gögnum hjá öllum aðilum til að ná því markmiði að í útgefnu efni, hvort sem er innlendu eða erlendu, séu nýjustu upplýsingar aldrei eldri en tveggja ára gamlar.
3. Unnið verði að því að bæta aðgengi að gögnum, m.a. með birtingu þeirra á netinu, og að efla úrvinnslu og túlkun á heilbrigðisupplýsingum.

Á heimasíðu ráðuneytisins undir málaflokknum áætlunar- og þróunarmál er að finna ýmsar upplýsingar um heilbrigðistölfræði og þar eru m.a. aðgengilegar skýrslurnar; Áætlun um uppbyggingu heilbrigðistölfræði (júlí 2001) og Stöðulýsing á heilbrigðisupplýsingum (janúar 2000). SKOÐA...

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira