Hoppa yfir valmynd
16. september 2021 Innviðaráðuneytið

Greinargerð um sóknaráætlanir landshluta fyrir árið 2020 gefin út

Stýrihópur Stjórnarráðsins um byggðamál hefur gefið út greinargerð um framvindu sóknaráætlanasamninga og ráðstöfun fjármuna fyrir árið 2020. 

Heildarfjárframlag til sóknaráætlana árið 2020 voru tæpir 1,6 milljarðar króna og stærstur hluti fjármuna kom frá ríkinu. Unnið var að 60 áhersluverkefnum í landshlutunum átta á árinu 2020 og nam framlag til þeirra rúmum 564 milljónum króna. Alls hlutu 614 verkefni styrki úr uppbyggingarsjóðum, samtals að fjárhæð rúmum 444 milljónum króna. 

Í greinargerðinni eru settar fram upplýsingar um þá fjármuni sem veitt er til sóknaráætlana landshluta og hvernig þeim er ráðstafað. Þar er einnig að finna upplýsingar um áhersluverkefni og verkefni sem styrkt eru úr uppbyggingarsjóðum. 

Sóknaráætlanir landshluta eru stefnumótandi áætlanir sem taka til starfssvæða landshlutasamtaka sveitarfélaga. Í þeim koma fram stöðumat viðkomandi landshluta, framtíðarsýn, markmið og aðgerðir til að ná þeim markmiðum. Nýtt tímabil sóknaráætlanasamninga hófst árið 2020 og gildir út árið 2024.

Markmið með samningum um sóknaráætlanir er að stuðla að jákvæðri samfélagsþróun í takt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, treysta stoðir menningarlífs og auka samkeppnishæfni hvers landshluta og þar með landsins alls. Markmiðið er jafnframt að ráðstöfun fjármuna sem varið er til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála byggi á svæðisbundnum áherslum hvers landshluta og ákvörðun heimamanna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum