Hoppa yfir valmynd
27. júní 2023

Sendiráð Íslands tók þátt í gleðigöngunni í París

Starfsfólk sendiráðs Íslands tóku þátt í gleðigöngunni í París síðastliðna helgi ásamt samstarfsfólki fjölda annarra sendiráða í borginni og samtökunum Ambassades pour l´Égalite (Sendiráð til stuðnings jafnrétti). Að vanda var mikil gleði og hamingja í göngunni á sólríkum degi í höfuðborg Frakklands þar sem mörg þúsund þátttakendur höfðu safnast saman til að kalla eftir jafnrétti allra, vitundarvakningu og útrýmingu mismununar sem og til að fagna því sem hefur áunnist.

Ísland beitir sér fyrir mannréttindum allra og styður réttindabaráttu hinsegin fólks á alþjóðavettvangi. Miklir lagalegir ávinningar hafa orðið á Íslandi á síðastliðnum árum hvað lagaleg réttindi hinsegin fólks varðar. Frá árinu 2010 hafa íslensk hjúskaparlög gilt um hjúskap allra óháð kyni. Samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna er hvers kyns mismunun á grundvelli kyns, hvort heldur bein eða óbein, óheimil. Mikil réttarbót varð í málefnum hinsegin fólks þegar lög um kynrænt sjálfræði voru samþykkt á Alþingi 2019. Með þeim var lögfestur réttur til hlutlausrar kynskráningar og líkamlegrar friðhelgi. Árið 2022 voru gerðar breytingar á lögum um bann við mismunun utan vinnumarkaðar og breytingar á almennum hegningarlögum sem lúta að hatursorðræðu og hatursglæpum gegn hinsegin fólki. Í þessum mánuði var tekið mikilvægt skref þegar Alþingi samþykkti lög um bann við svokölluðum bælingarmeðferðum þar sem fólk er látið sæta meðferð til bæla niður og breyta kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu þess.

Ísland var gestgjafi hinnar árlegu IDAHOT+ ráðstefnu í maí síðastliðnum þar sem tilkynnt var að Ísland væri komið upp í fimmta sæti á Regnbogakorti Evrópusamtaka hinsegin fólks (ILGA Europe) og hefur því farið upp um 13 sæti frá árinu 2018. Þá er Ísland í fyrsta sæti yfir réttindakort transfólks í Evrópu (Trans Rights Map 2023).
  • Unnur Orradóttir Ramette, Una Særún Jóhannsdóttir og Kristín Halla Kristinsdóttir Gröndal - mynd
  • Blanca Jiménez Cisneros, sendiherra Mexíkó og Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum