Hoppa yfir valmynd
12. júlí 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Námsframboð íslenskra háskóla til úkraínskra námsmanna á flótta

Til þess að auðvelda aðgengi úkraínskra háskólanema sem dvelja nú á Íslandi að upplýsingum um námsmöguleika hefur upplýsingatorg um háskólanám á Íslandi verið sett upp á vefsíðu fyrir úkraínska flóttamenn á island.is. Þar má nálgast yfirgripsmiklar og flokkaðar upplýsingar bæði á ensku og úkraínsku.

Í hópi fólks frá Úkraínu sem flúið hefur heimili sín vegna stríðsátaka þar í landi eru margir sem neyðst hafa til að hætta háskólanámi eða slá því á frest um óákveðinn tíma. Íslensku háskólarnir sjö veita háskólanemum á flótta frá Úkraínu ýmsan stuðning á borð við sveigjanleika varðandi aðgengi í nám og tækifæri til að halda áfram námi, t.d. sem skiptinemar. ENIC/NARIC matsskrifstofa háskólastigsins hefur í ljósi þessa sett upp sérstaka umsóknarsíðu fyrir úkraínska einstaklinga sem óska eftir mati á námi sínu.

Náms- og starfsráðgjafar halda víða utan um sálfræðilegan stuðning sem úkraínskum nemendum og starfsfólki býðst. Fjarnemar við úkraínska Háskóla býðst aðstaða á háskólasvæði Háskóla Íslands þar sem aðgangur er að neti og aðstöðu til að sinna námi. Margir háskólanna bjóða einnig upp á íslenskukennslu og/eða stuðning við íslenskunám auk þess sem HÍ bauð í sumar upp á enskunámskeið sem ætlað er einstklingum með framhaldsskólapróf eða háskólamenntun sem stefna á frekara nám.

Skýrsla á vegum Eurydice um stefnu sem stjórnvöld víðs vegar um Evrópu hafa sett sér til að styðja skóla og háskóla við móttöku barna og ungs fólks sem er á flótta undan stríðinu í Úkraínu hefur verið birt. Skýrslunni er ætlað að veita upplýsingar og styðja evrópsk menntakerfi svo tryggja megi úkraínskum námsmönnum aðgengi að námi og þann stuðning sem þeir þurfa á að halda. Nálgast má skýrsluna hér:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum