Hoppa yfir valmynd
2. janúar 2013 Dómsmálaráðuneytið

Breytingar á barnalögum hafa tekið gildi

Breytingar sem gerðar hafa verið á barnalögum nr. 76/2003 hafa tekið gildi. Breytingarnar snúa einkum að ákvæðum um forsjá og umgengni og er ýmis mikilvæg nýmæli að finna meðal þeirra.

Innanríkisráðuneytið vekur athygli á því að um þau mál sem nú þegar eru til meðferðar hjá sýslumönnum og er ólokið fer samkvæmt eldri lögum. Sama á við um dómsmál sem þingfest voru fyrir gildistöku laganna.

Helstu nýmæli í lögunum:

Nýr kafli um réttindi barns

Lögfestur hefur verið nýr upphafskafli barnalaga sem hefur að geyma almennt ákvæði sem tekur mið af meginreglum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Í honum er meðal annars mælt fyrir um rétt barns á að lifa, þroskast og njóta verndar, umönnunar og annarra réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og án mismununar af nokkru tagi.

Hlutverk foreldra

Í lögunum er að finna ýmis ákvæði sem afmarka frekar hlutverk foreldra. Þannig er t.d. inntak sameiginlegrar forsjár skilgreint nánar en verið hefur.

Forsjá stjúp- og sambúðarforeldra

Með lögunum er afnumið það fyrirkomulag að stjúp- og sambúðarforeldrar fái sjálfkrafa forsjá stjúpbarns við tilteknar aðstæður. Þess í stað getur stjúp- eða sambúðarforeldri og kynforeldri sem fer eitt með forsjá nú samið um að forsjá barns verði sameiginleg og verður sýslumaður að staðfesta slíkan samning.  

Heimild dómara til að dæma sameiginlega forsjá

Lögfest hefur verið heimild dómara til að ákveða að forsjá barns skuli vera sameiginleg þrátt fyrir andstöðu annars foreldris. Aðeins má dæma sameiginlega forsjá ef dómari telur þær aðstæður fyrir hendi að sameiginleg forsjá geti þjónað hagsmunum barnsins.

Heimild til að dæma hjá hvoru foreldri barn skuli eiga lögheimili

Ef dómari dæmir sameiginlega forsjá ber honum jafnframt að kveða á um hjá hvoru foreldra barn skuli eiga lögheimili. Foreldrar sem fara saman með forsjá barns geta líka höfðað sérstakt lögheimilismál ef ágreiningur rís um hvar barnið skuli eiga lögheimili.

Samningar foreldra um lögheimili

Foreldrar geta samið um að lögheimili barns flytjist frá öðru foreldri til hins eins og verið hefur en eftir gildistöku laganna öðlast slíkir samningar gildi við staðfestingu sýslumanns.

Sjónarmið í málum um forsjá

Í lögunum er nú tekið fram með skýrari hætti en verið hefur til hvaða sjónarmiða dómari eigi að líta  við ákvörðun um forsjá barns og segir að hann eigi meðal annars að líta til hæfis foreldra, stöðugleika í lífi barns, tengsla barns við báða foreldra, skyldu þeirra til að tryggja rétt barnsins til umgengni, hættu á að barnið, foreldri eða aðrir á heimili barnsins hafi orðið eða verði fyrir ofbeldi og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska þess.

Ný ákvæði um umgengnisrétt

Með lögunum er umgengni skilgreind með breyttum hætti þ.e. að umgengni taki hvort tveggja til samveru og annarra samskipta auk þess sem hægt verður að ákveða umgengni barns við aðra en foreldra í fleiri tilvikum en áður. Þá er tekið fram að sýslumaður eigi við úrlausn umgengnismáls að líta til tiltekinna sjónarmiða, meðal annars tengsla barns við báða foreldra, aldurs barns, stöðugleika í lífi barns, búsetu foreldra og vilja barns að teknu tilliti til aldurs og þroska.

Í lögunum er að finna mikilvægt nýmæli þess efnis að sýslumaður geti úrskurðað til bráðabirgða um umgengni. Sýslumanni hefur enn fremur verið veitt heimild til þess að ákveða með úrskurði að óheimilt sé, meðan umgengnismál er til meðferðar, að fara með barn úr landi.

Sérfræðingar í málefnum barna

Með lögunum er afnumið það fyrirkomulag að barnaverndarnefndir veiti umsagnir í umgengnismálum og hafi eftirlit með umgengni. Þess í stað getur sýslumaður nú leitað til sérfræðinga í málefnum barna, þ.e. fagaðila sem hafa nauðsynlega þekkingu á þörfum barna og stöðu foreldra.

Málsmeðferð vegna umgengnistálmana

Með lögunum eru skýrð frekar ákvæði núgildandi laga um framkvæmd fullnustugerða í málum vegna umgengnistálmana auk þess sem dómara er veitt heimild til þess að ákveða að umgengni á vissu tímabili verði komið á með aðfarargerð.

Ráðgjöf og sáttameðferð

Síðast en ekki síst ber að nefna að með lögunum eru gerðar mikilvægar breytingar á málsmeðferð hjá sýslumönnum. Sýslumaður getur nú boðið aðilum tiltekinna ágreiningsmála ráðgjöf sérfræðinga í málefnum barna. Markmið ráðgjafar er fyrst og fremst að foreldrar fái leiðbeiningar sem geta hjálpað þeim að meta hvaða lausn barni er fyrir bestu. Auk ákvæða um sérfræðiráðgjöf er að finna í lögunum ákvæði um skyldubundna sáttameðferð en markmiðið með sáttameðferðinni er að hjálpa foreldrum að gera samning um þá lausn máls sem barni er fyrir bestu. Ráðherra mun setja reglur um ráðgjöf og sáttameðferð, hæfi sérfræðinga og sáttamanna og inntak og framkvæmd ráðgjafar og sáttameðferðar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum