Hoppa yfir valmynd
4. janúar 2013 Innviðaráðuneytið

Frumvarp um persónukjör tilbúið í innanríkisráðuneytinu

Í innanríkisráðuneytinu liggur fyrir frumvarp til breytinga á lögum um kosningar til sveitarstjórna og er meginefni þess að auka vægi persónukjörs. Frumvarpið byggjast á skjali frá starfshópi innanríkisráðherra um persónukjör sem kynnt var á vef ráðuneytisins í september síðastliðnum.

Hugmyndin um að auka persónukjör tengist almennum sjónarmiðum um aðhald kjósenda með stjórnmálasamtökum og aukinni þátttöku kjósenda í lýðræðislegu starfi. Erlendis hefur verið bent á að þetta aðhald kjósenda minnki með dvínandi kosningaþátttöku en að persónukjör, með svipuðum hætti og hér er lagt til, gæti dregið kjósendur aftur að kjörborðinu. Persónukjör væri þá fallið til að styrkja lýðræðislegt lögmæti kjörinna fulltrúa og endurspegla óskir fleiri kjósenda. Ef stjórnmálasamtök eða önnur framboð heimiluðu persónukjör við framboð sín til sveitarstjórna gætu þau haft áhrif á þróun fulltrúalýðræðis því kjósendur hefðu þá aukin tækifæri til þess að velja ákveðna fulltrúa til setu í sveitarstjórnum.

Óformlegur starfshópur á vegum innanríkisráðherra hefur á undanförnum misserum fjallað um persónukjör og mismunandi aðferðir við persónukjör í öðrum norrænum ríkjum. Niðurstaða starfshópsins var að sú aðferð persónukjörs sem notuð er við sveitarstjórnar- og fylkiskosningar í Noregi geti verið heppileg leið til að auka vægi persónukjörs við sveitarstjórnarkosningar hér á landi. Norska persónukjörsaðferðin er bæði einföld að gerð og í framkvæmd. Helsti kostur hennar er að ekki þarf að bylta núverandi kerfi hér á landi, sem kjósendur hafa búið við um langan tíma, þótt vissulega þurfi að aðlaga kerfið vegna fámennis samanborið við Noreg.

Kosningar til sveitarstjórna verða áfram annað hvort bundnar hlutfallskosningar eða óbundnar kosningar. Breytingin yrði fyrst og fremst sú að kjósendur við bundnar hlutfallskosningar gæfist kostur á að greiða einstökum frambjóðendum persónuatkvæði. Kjósendur munu því að miklu leyti ákvarða röð efstu manna af því að samanlögð persónuatkvæði hvers frambjóðanda ákvarða endanlega röð hans á listanum.

Frumvarpið verður lagt fyrir Alþingi fljótlega.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum