Hoppa yfir valmynd
13. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 112/2013

 Úrskurður

 Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 13. maí 2014 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 112/2013.

 

1.      Málsatvik og kæruefni

 Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. september 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 23. september 2013 fjallað um höfnun hans á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar var tekin sú ákvörðun að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði frá og með 24. september 2013 sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir. Ákvörðunin var tekin á grundvelli 1. mgr. 57. gr., laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 15. október 2013. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun sé rétt.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 22. maí 2013.

Ferilskrá kæranda var í júlí 2013 send til fyrirtækisins B fyrir milligöngu vinnumiðlara Vinnumálastofnunar enda hafði kærandi í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur tilgreint að störf við garðyrkju væru meðal óskastarfa hans. Vinnumiðlara Vinnumálastofnunar bárust þær upplýsingar 12. ágúst 2013 að ekki hefði náðst í kæranda til að boða hann í atvinnuviðtal þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Hann var í kjölfarið boðaður á fund með vinnumiðlara 14. ágúst 2013 þar sem honum var greint frá því að honum gæti staðið til boða starf hjá B.

Í tölvupósti frá fyrirsvarsmanni B 16. ágúst 2013 var greint frá því að kærandi hafi mætt í atvinnuviðtal en ekki sýnt áhuga á starfinu þar sem hann væri að leita sér að annarri vinnu. Hafi áhugaleysi kæranda orðið til þess að af ráðningu varð ekki. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum þess að hann hafnaði atvinnutilboði hjá B. Kærandi segir í tölvupósti 9. september 2013 að hann hafi verið tilbúinn að taka að sér starf hjá fyrirtækinu en að hann væri að sækjast eftir öðrum störfum og myndi honum bjóðast annað starf myndi hann taka því og segja upp hjá B. Hann hafi ekki hafnað því að taka starfi.

Hin kærða ákvörðun var síðan tekin hjá Vinnumálastofnun 23. september 2013. Kærandi óskaði rökstuðnings og er hann dagsettur 4. október 2013.

Kærandi kveðst ekki hafa hafnað starfinu. Hann hafi tekið fram í starfsviðtalinu að hann væri tilbúinn að taka að sér starf hjá fyrirtækinu, en hann hafi líka sagt sem var að Vinnumálastofnun hefði sótt um þetta starf fyrir hann og hann hefði sjálfur sótt um störf á nokkrum öðrum stöðum þar sem hann teldi að háskólamenntun hans nýttist. Ef honum byðist annað starf þar sem hann hefði meiri áhuga á að vinna myndi hann taka því og segja upp hjá B. Þetta sé ekki að hafna starfi heldur sé þetta að koma heiðarlega fram í atvinnuviðtali. Hann hafi gert vinnuveitandanum ljóst hvert hann vildi stefna og það væri alveg undir honum komið hvort hann réði kæranda í vinnu og þá hugsanlega í skamman tíma. Það hafi verið alveg skýrt að hann hafi ekki hafnað neinu starfi. Hann hafi sérstaklega tekið fram að hann væri tilbúinn til að taka starfi ef honum byðist það.

Einnig kemur fram af hálfu kæranda að í rökstuðningi Vinnumálastofnunar virðist stofnunin átta sig á því sem þar hafi farið fram. Það sé beinlínis tekið fram í rökstuðningnum, réttilega, að kæranda hafi ekki verið boðið starf hjá B þar sem tekið sé fram að það sé mat stofnunarinnar, að teknu tilliti til skýringa kæranda, að framferði hans í atvinnuviðtalinu hafi leitt til þess að honum hafi ekki staðið til boða umrætt starf hjá B. Hann hafi ekki hafnað starfi heldur megi jafna augljósu áhugaleysi hans við höfnun á atvinnutilboði í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Þarna gefi stofnunin sér að B hefði boðið honum starf ef hann hefði hegðað sér með öðrum hætti í viðtalinu. Þrátt fyrir þetta mat stofnunarinnar, hafi hún hvorki sent honum gögn þar sem það komi fram né önnur gögn frá B., þrátt fyrir að hann hafi óskað eftir þeim á grundvelli stjórnsýslulaga. Stofnunin jafni við höfnun meintu áhugaleysi kæranda á starfinu, sem hún telji augljósa. Þrátt fyrir að hafa að því er virðist engin gögn sem hún geti stuðst við í því mati, önnur en túlkun eins starfsmanns á skýringabréfi sínu og fullyrðingu um að B hafi sagt að hann hafi sýnt starfinu lítinn áhuga skv. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kærandi tekur fram að Vinnumálastofnun hafi enga heimild til að jafna meintu áhugaleysi við höfnun á starfi. Lagagreinin fjalli um höfnun á starfi sem atvinnuleitanda bjóðist með sannanlegum hætti. Um það sé að segja að honum hafi ekki boðist neitt starf og virðist stofnunin hafa fulla vitneskju um það. Ef ákvörðun hennar ætti að standast þyrfti hún því að hafa gögn sem sanni það að B hafi boðið kæranda starf. Þau gögn geti stofnunin ekki afhent vegna þess að þau séu ekki til heldur sé það mat stofnunarinnar að hann hafi hafnað starfi með einhverjum hætti óbeint með því að segja B frá því hvernig hann vildi helst að málin þróuðust í vinnumálum hans.

Í tölvupósti starfsmanns B., 16. ágúst 2013, segir að kærandi hafi lítinn áhuga sýnt á starfinu og að hann væri að leita sér að annarri vinnu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. janúar 2014, segir að mál þetta varði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Bent er á að í greinargerð sem fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar komi fram í athugasemdum við 57. gr. laganna að mikilvægt hafi þótt að sömu áhrif fylgdu því að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar og ákvörðun um að taka ekki starfi sem byðist. Atvinnuviðtal sé venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf og því megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við það að hafna starfi. Einnig séu þar tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringa við höfnun á starfi. Vinnumálastofnun sé heimilt samkvæmt lögunum að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði sé starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Sé fjallað um að eðlilegt þyki að þeir sem tryggðir séu samkvæmt frumvarpinu fái fjögurra vikna svigrúm til að leita sér að því starfi sem þeir helst kjósi sér. Hafi sá tími verið liðinn er kærandi hafi hafnað umræddu atvinnuviðtali.

Af gögnum þessa máls sé ljóst að eftir ítrekaðar tilraunir til að boða kæranda í atvinnuviðtal hjá B hafi kærandi mætt í viðtal þar sem hann hafi lýst því yfir að hann hefði ekki áhuga á starfinu og að ef til ráðningar kæmi, myndi hann segja starfinu upp um leið og honum yrði boðið annað.

Fram kemur að það sé mat Vinnumálastofnunar, að teknu tilliti til skýringa kæranda, að framferði hans í atvinnuviðtali hjá B hafi leitt til þess að honum hafi ekki staðið til boða starf hjá fyrirtækinu. Ríkar kröfur séu gerðar til atvinnuleitenda að þeir taki þeim störfum sem þeim kunni að bjóðast, enda eigi ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Beri að líta til þess að kærandi hafi ekki verið með annað starf í hendi þegar hann hafi mætt í umrætt atvinnuviðtal og hann hafi sjálfur skráð að störf við garðyrkju væru meðal óskastarfa hans í atvinnuumsókn hjá Vinnumálastofnun.

Vinnumálastofnun bendir á að í kæru sinni til úrskurðarnefndar segi kærandi meðal annars að með ákvörðun sinni sé Vinnumálastofnun að gefa sér að B hefði boðið honum starf ef kærandi hefði sýnt starfi áhuga. Þó leiða megi líkur að því að kæranda hefði verið boðið starf hjá fyrirtækinu ef kærandi hefði sinnt því af kostgæfni telji Vinnumálastofnun sig ekki þurfa að sýna fram á slíkt. Hátterni kæranda hafi augljóslega ekki verið til þess fallið að honum yrði boðið starf hjá fyrirtækinu. Áhugaleysi kæranda í umræddu atvinnuviðtali og svör kæranda til atvinnurekanda um að hann myndi segja upp störfum um leið og hann fengi boð um annað starf séu augljóslega ekki vænleg til árangurs ef ætlunin væri að fá vinnu í stað þess að þiggja atvinnuleysisbætur. Eins og sérstaklega sé áréttað í athugasemdum með 57. gr. frumvarps því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu atvinnuviðtöl venjulega meginforsenda þess að hinum tryggða verði boðið starf. Sé ótækt að fallast á að atvinnuleitendur geti komist hjá lögbundnum viðurlögum með því að mæta í atvinnuviðtöl með það að markmiði að vera ekki ráðnir til starfa. Þeir sem hafni því að fara í atvinnuviðtal eða sinni ekki atvinnuviðtali séu jafnt settir og þeir sem mæti og sjái til þess að engum hugkvæmist að ráða þá til starfa, a.m.k. hvað atvinnumöguleika hjá umræddum atvinnurekanda varði. Möguleikar þeirra til að fá starf séu m.ö.o. þeir sömu og verði að jafna augljósu áhugaleysi kæranda við höfnun á atvinnuviðtali í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 9. janúar 2014, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 24. janúar 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

 

2.      Niðurstaða

 Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.

Í athugasemdum við 57. gr. laganna í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram að mikilvægt hafi þótt að sömu áhrif fylgdu því að hafna því að fara í atvinnuviðtal eða sinna ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar hefði sömu áhrif og ákvörðun um að taka ekki starfi sem byðist. Atvinnuviðtal sé meginforsenda þess að atvinnuleitanda verði boðið starf og því megi leggja þá ákvörðun að jöfnu við það að hafna starfi.

Kærandi fór í atvinnuviðtal hjá starfsmanni B eins og fram hefur komið. Hann kveðst hafa komið því á framfæri í viðtalinu að hann hefði sótt um ýmis önnur störf sem hann teldi hæfa menntun sinni og áhugasviði betur og vonaðist frekar til þess að fá. Fengi hann starf sem hann hefði meiri áhuga á en það sem B gæti boðið honum myndi hann skipta um starf og hætta þar. Af hálfu B hefur komið fram að vegna áhugaleysis kæranda hafi ekki orðið af ráðningu hans. Í 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að sá sem hafni starfi sem honum bjóðist með sannanlegum hætti skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en tveimur mánuðum liðnum. Í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um atvinnuleysistryggingar kemur fram, eins og áður segir, að það að hafna því að fara í atvinnuviðtal hafi sömu áhrif og sú ákvörðun að taka ekki starfi sem býðst. Kærandi fór að vísu í atvinnuviðtalið en með afstöðu sinni og framferði þar gaf hann áhugaleysi sitt á starfinu í ljós með þeim hætti að jafna má því við höfnun á starfi skv. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Með vísan til framanskráðs og rökstuðnings Vinnumálastofnunar fyrir hinni kærðu ákvörðun ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun Vinnumálastofnunar.

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. september 2013 í máli A þess efnis að fella niður bótarétt hans frá og með 24. september 2013 í tvo mánuði er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum