Hoppa yfir valmynd
13. september 2006 Innviðaráðuneytið

Um 90% telja flugþjónustu mjög mikilvæga fyrir byggðarlag sitt

Niðurstöður viðhorfskönnunar meðal 573 farþega í innanlandsflugi á leið til Reykjavíkur frá átta flugvöllum sem unnin var fyrir samgönguyfirvöld liggja nú fyrir. Um 93% svarenda telja flugþjónustu mikilvæga fyrir byggðarlag sitt, flestir farþega eru 35-50 ára karlar á leið til Reykjavíkur vegna vinnu og um 51% svarenda áætluðu að reka erindi sín í miðborginni og nágrenni.

Könnunina vann Land-Ráð sf. í mars og apríl 2006 fyrir samgönguyfirvöld í samvinnu við Flugfélag Íslands og Landsflug og stjórnaði Bjarni Reynarsson land- og skipulagsfræðingur verkefninu. Er könnunin hluti af stærra rannsóknarverkefni um ferðavenjur Íslendinga og erlendra ferðamanna. Markmið hennar er að safna upplýsingum um ferðavenjur vegna stefnumótunar í samgöngumálum og túlka þær. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands annaðist úrvinnslu niðurstaðna.

Alls tóku 573 þátt í könnuninni, nærri 54% karlar og 46% konur. Tæp 6% voru af erlendu þjóðerni og tæplega 50% svarenda var á aldrinum 35 til 54 ára.

Að meðaltali fara flugfarþegar um 12 -15 ferðir til höfuðborgarsvæðisins á ári, þar af um 7-9 ferðir með flugi. Um 81% allra svarenda telja sig munu fljúga minna ef innanlandsflug yrði flutt úr Vatnsmýri til Keflavíkur og um 85% þeirra sem búa á landsbyggðinni. Rúmlega helmingur svarenda eða 51% telja dýrara að aka en fljúga til Reykjavíkur ef tekið er tillit til ferðatíma og alls kostnaðar. Þá var spurt hvort aðrir ferðamöguleikar en flug hefðu verið hugleiddir. Yfir 60% gerðu það ekki en 28,8% hugleiddi að ferðast í einkabíl og 2,6% með rútu. Vinna eða viðskipti voru ástæða ferðar hjá 54% og heimsókn í 12,9% tilvika. Þá nefndu 8,6% frí og 4,8% flug til útlanda.

Fram kemur í skýrslunni að í svörum við opinni spurningu þar sem svarendum var gefinn kostur á að koma ábendingum til flugyfirvalda kom skýrt fram að svarendur höfðu töldu að höfuðborgin hefði mikilvægu hlutverki að gegna sem samgöngumiðstöð landsins. Gengu sumir svo langt að segja að yrði flugið flutt frá Reykjavík væri eðlilegt að æðsta stjórnsýsla landsins, mennta-, menningar- og sjúkrastofnanir fylgdu með.

Skýrsluna má sjá hér.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum