Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2010 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Ísland fær undanþágur frá reglum um akstur og hvíld atvinnubílstjóra

Yfirstjórn ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, hefur samþykkt undanþágur fyrir Ísland frá nokkrum ákvæðum reglna um aksturs- og hvíldartíma atvinnubílstjóra í farmflutningum. Undanþágurnar gilda tímabundið frá 30. október 2010 til 15. apríl 2011.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ákvað að taka málið upp árið 2008 í kjölfar óska frá Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og Starfsgreinasambandi Íslands. Óskaði ráðuneytið eftir því við ESA að Íslandi yrðu veittar undanþágur frá samevrópskum aksturs- og hvíldartímareglum þar sem aðstæður hér á landi væru að mörgu leyti frábrugðnar því sem gerist á meginlandinu. Fylgdi samgönguráðherra málinu eftir með heimsókn til Brussel.

Ráðherra segir undanþágur sem þessar fordæmalausar gagnvart öðrum EES ríkjum og að svo virðist sem að nú sé viðurkennt að á Íslandi séu aðstæður með þeim hætti að réttlætanlegt sé að undanþágur séu gefnar frá aksturs- og hvíldartímareglum.

Samkvæmt reglugerð nr. 561/2006/EB er leyfilegur aksturstími dag hvern 9 klukkustundir en hann má lengja um tvær stundir tvo daga í viku. Fallist er á beiðni Íslands um að aka megi 4 daga vikunnar í stað tveggja daga í 11 klukkustundir á leiðunum milli Reykjavíkur og Egilsstaða, Neskaupstaðar og Ísafjarðar. Einnig var fallist á beiðni Íslands um að framlengja megi akstru um hálfa klukkustund, úr 4,5 í 5 stundir, milli Reykjavíkur og Freysness í Öræfum og milli Freysness og Egilsstaða. Þær undanþágur sem fengust eru bundnar við flutning ferskvöru.

Eins og að framan greinir er hér eingöngu um tímabundnar undanþágur að ræða og mun ráðuneytið í framhaldinu kanna alla möguleika á því að fá varanlegar undanþágur áður en ofangreindur frestur rennur út.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira