Hoppa yfir valmynd
17. ágúst 2007 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið

Rætt um jarðgangahugmyndir á Austurlandi

Fulltrúar sveitastjórna á Mið-Austurlandi áttu í fyrradag fund með samgönguráðherra um samgöngumál og einkum jarðgangagerð á Austurlandi. Sveitastjórnarmenn hafa sett fram hugmyndir um mikið átak í jarðgangagerð í fjórðungnum sem kynnt voru ráðherra.

Samgönguráðherra fundar með sveitastjórnarmönnum á Austurlandi.
Samgönguráðherra fundar með sveitastjórnarmönnum á Austurlandi.

Á fundinum var skýrt frá þeirri vinnu sem bæjarstjórar Fjarðabyggðar, Seyðisfjarðar og Fljótsdalshéraðs hafa staðið fyrir og ganga út á ýmsar samgöngubætur á Mið-Austurlandi í því skyni efla byggðarlögin og stækka atvinnusvæði. Þá hafa forráðamenn Fjarðaáls einnig lýst áhuga sínum á því að styðja slíka undirbúningsvinnu.

Í stuttu máli snúast hugmyndir Austfirðinga um að tengja bæi á Mið-Austurlandi með jarðgöngum og öðrum samgöngubótum betur en nú er. Alls yrði hið nýja gangakerfi nærri 30 km langt og gæti kostnaður við það orðið vel yfir 20 milljarðar króna. Í þessu samhengi hafa Austfirðingar áhuga á að kanna hvort svokölluð heilborun með risaborum, áþekkum þeim sem notaðir hafa verið við Kárahnjúkavirkjun, gæti verið vænleg aðferð fremur en hefðbundin aðferð með því að bora og sprengja.

Starfshópur bæjarstjóranna hefur meðal annars notið ráðgjafar norskra verkfræðinga og Línuhönnunar. Hefur fyrirtækinu nú verið falið að vinna fýsileikaskýrslu um verkefnið sem gert er ráð fyrir að verði tilbúin þegar líða tekur á veturinn.

Kristján L. Möller samgönguráðherra kvaðst á fundinum fagna þessu frumkvæði Austfirðinga. Hannn sagði mikilvægt að samstaða næðist í byggðarlögunum um áherslur og forgangsröð í þessum efnum. Næsta skref væri síðan að huga að aðferðum og nánari útfærslu hugmyndanna.

Þá tilkynnti ráðherrann að hann óskaði eftir því að í starfshóp bæjarstjóranna þriggja kæmu þau Hreinn Haraldsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, og þingmennirnir Arnbjörg Sveinsdóttir og Einar Már Sigurðarson.

Samgönguráðherra fundar með sveitastjórnarmönnum á Austurlandi.
Kristján L. Möller samgönguráðherra átti í vikunni fund með fulltrúum sveitastjórna á Mið-Austurlandi þar sem rætt var um samgöngumál í fjórðungnum.
Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira