Hoppa yfir valmynd
31. maí 2018 Utanríkisráðuneytið

Neyðaraðstoð til flóttafólks frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó

Ljósmynd: Rauði krossinn. - mynd

Rauði krossinn á Íslandi hefur með stuðningi utanríkisráðuneytisins ákveðið að veita rúmlega 32 miljónum króna til neyðaraðstoðar í þágu flóttafólks frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó sem hafast við í flóttamannabúðum í vesturhluta Úganda. Rauði krossinn á Íslandi hefur undanfarin tvö ár komið að neyðar- og uppbyggingarstarfi í Úganda í þágu flóttamanna frá Suður Súdan sem leitað hafa skjóls í norðvestur Úganda vegna átaka og ofsókna í heimalandi sínu.

Frá byrjun 2018 hefur fjöldi fólks neyðst til að yfirgefa heimili sín vegna átaka í Ituri og North Kivu héruðum Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. Frá upphafi árs hafa að meðaltali yfir 100 manns komið á dag yfir til Úganda frá Kongó. Í byrjun mars var tala nýkominna flóttamanna orðin 48.500, mun fleiri en búist hafði verið við, og heildarfjöldi flóttamanna frá Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó í Úganda komin upp í um 250.000. Rauði krossinn í Úganda með stuðningi Alþjóða Rauða krossins hefur veitt flóttafólkinu neyðaraðstoð frá því í janúar 2018.

Í febrúar kom upp kólera í flóttamannabúðum sem leiddi til 30 dauðsfalla. Sólrún María Ólafsdóttir verkefnastjóri Rauða krossins er nýkomin úr vettvangsferð til Úganda þar sem hún skoðaði meðal annars aðstæður í flóttamannabúðum. „Rauði krossinn hefur unnið mikilvægt og lífsbjargandi starf í vesturhluta Úganda til að hefta útbreiðslu kóleru, en mikilvægt er að halda áfram að vinna að bættri heilsu og bæta aðgengi hreinu vatni og hreinlæti og þannig stuðla að betri heilsu og velferð flóttafólksins, ekki síst ungra barna og nýbakaðra mæðra,“ segir Sólrún María.

„Neyðaraðstoðin felur einnig í sér vernd fyrir flóttafólk, sérstaklega er gætt að þörfum kvenna og stúlkna og spornað gegn kynbundnu ofbeldi. Reynt er að tryggja þátttöku þeirra sem eru í hvað viðkvæmastri stöðu meðal flóttamannanna og sálrænn stuðningur veittur, en allt eru þetta áherslur Rauða krossins á Íslandi“ segir Sólrún María ennfremur og bætir við að án dyggilegs stuðnings utanríkisráðuneytisins og Mannvina Rauða krossins væri þessi stuðningur ekki gerlegur. Öll framlög skipta máli og í Úganda sést hvað lítil framlög geta skipt miklu  máli.

Hægt er að gerast Mannvinur Rauða krossins hér.

Frétt Rauða krossins á Íslandi

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira