Hoppa yfir valmynd
15. mars 2007 Félagsmálaráðuneytið

Félagsmálaráðherra leggur fram á Alþingi skýrslu um 95. Alþjóðavinnumálaþingið 2006

Alþjóðavinnumálastofnunin ILO
Alþjóðavinnumálastofnunin ILO

Samkvæmt stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) ber stjórnvöldum aðildarríkja að kynna innan árs samþykktir sem gerðar eru á þingi stofnunarinnar, Alþjóðavinnumálaþinginu, fyrir löggjafarsamkomunni. Í samræmi við þetta ákvæði hefur félagsmálaráðherra, Magnús Stefánsson, lagt fram á Alþingi skýrslu um Alþjóðavinnumálaþingið, sem var háð í Genf í Sviss dagana 31. maí til 16. júní sl.

Í skýrslunni er birt ný alþjóðasamþykkt um vinnuvernd sem Alþjóðavinnumálaþingið afgreiddi. Um er að ræða rammasamþykkt sem miðar að því að auka meðvitund um gildi forvarna að því er varðar slysahættu á vinnustöðum og atvinnusjúkdóma með áætlun á sviði vinnuverndar. Nánari útfærslu á samþykktinni er að finna í tilmælum sem einnig voru afgreidd á þinginu. Á þinginu ríkti mikill einhugur meðal fulltrúa um afgreiðslu þessara tveggja gerða.

Þingið afgreiddi enn fremur tilmæli, sem birt eru í skýrslunni, um ráðningarsamband atvinnurekanda og launamanns. Markmið þeirra er að hvetja til setningar reglna í samvinnu við atvinnurekendur og launafólk þar sem kveðið er skýrt á um forsendur þess að ráðningarsamband hafi komist á og greint sé með virkum hætti á milli þeirra sem eru launamenn og hinna sem eru sjálfstætt starfandi. Á þennan hátt verði spornað gegn gerviverktöku. Þótt tilmælin hafi fengið tilskilinn stuðning þingfulltrúa til að ná fram að ganga var ágreiningur um málið þar sem fulltrúar atvinnurekenda greiddu atkvæði gegn þeim.

Í skýrslu félagsmálaráðherra er gerð grein fyrir umræðum á Alþjóðavinnumálaþinginu um framkvæmd aðildarríkjanna á samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Umræður um framkvæmd herforingjastjórnarinnar í Burma – Myanmar á alþjóðasamþykkt um afnám nauðungarvinnu voru umfangsmestar og drógu að sér mesta athygli. Alþjóðavinnumálastofnunin hefur lengi gagnrýnt herforingjastjórnina í Burma fyrir aðgerðarleysi gagnvart spilltum embættismönnum sem hafa nýtt sér varnarleysi borgaranna og m.a. þvingað þá til ólaunaðra starfa. Á þinginu fóru fram umræður um næstu skref í þessu máli. Ákveðið var að gefa stjórnvöldum í Burma sex mánaða frest til að hrinda í framkvæmd umbótum. Rætist ekki úr málum á þeim tíma er m.a. rætt um að stefna stjórnvöldum fyrir Alþjóðadómstólinn í Haag. Þingið lýsti yfir sérstökum áhyggjum yfir framkvæmd stjórnvalda í Hvíta-Rússlandi á samþykktum um félaga- og samningafrelsi og í Bangladess á samþykkt um félagafrelsi.

Meðal fylgiskjala með skýrslunni er skrá yfir allar samþykktir sem Alþjóðavinnumálaþingið hefur afgreitt frá árinu 1919. Enn fremur er birt skrá yfir fulltrúa Íslands á þinginu frá árinu 1945.

Tenging frá vef ráðuneytisinsSkýrsla félagsmálaráðherraEfnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira